10.6.2010 | 18:16
Næstum eins og að vera áfram heima.
Ég hef þrívegis komið til Þrándheims og ævinlega finnst mér það líkjast því sem ég sé ennþá heima á Fróni. Ástæðuna hef ég áður nefnt hér á blogginu.
Þrándheimur er með álíka íbúafjölda og Reykjavík og Þrændalög álíka fjölmenn og byggðirnar á suðvesturhorni Íslands, frá Borgarnesi til Hvolsvalla.
Menning, þjóðlíf og lífskjör eru líkari því sem er í Reykjavík en í nokkru öðru erlendu byggðarlagi og þar að auki eru borgirnar á sömu breiddargráðu með svipað loftslag.
Að vísu eru sumrin heldur hlýrri og veturnir aðeins kaldari en munurinn er lítill.
Í Þrándheimi angar borgin af sameiginlegri sögu og tengslum Íslendinga og Norðmanna.
Þarna er dómkirkja sem vísar til þess tíma þegar erkibiskupinn í Niðarósi hafði umráð með málefnum kirkjunnar á Íslandi.
Hægt er að fara niður að ánni Nið og sjá þann stað þar sem Ólafur konungur Tryggvason þreytti sund við Kjartan Ólafsson, koma að lítilli kirkju á svipuðum slóðum og Grettir Ásmundsson mistókst að sverja eið á réttan hátt vegna sakargifta þess efnis að hann hefði brennt inni menn í kofa að vetrarlagi.
Eins og í Bergen eru stórkostleg bryggjuhús í Þrándheimi og í þessum borgum sátu æðstu ráðamenn Íslands.
Íslenskir ráðamenn og skáld sóttu hin norsku yfirvöld heim og þáðu af þeim valdastöður og skáldalaun áður en Ísland lenti undir Danakonungi.
Frá Þrándheimi er frábært að fara að Stiklastöðum þar sem Ólafur konungur helgi og Þormóður Kolbrúnarskáld féllu í bardaga sem enn er minnst á stórkostlegan hátt á hverju ári.
Ef tími vinnst til er líka hægt að fara á þann stað þar sem þeir börðust Gunnlaugur Ormstunga og Hrafn, en Norðmenn sinna minningu helstu atburða fyrr á tíð af miklum myndarskap og setja þá á svið.
Hér heima mætti gera slíkt, svo sem við Örlygsstaði eða á þeim stað þar sem Bolli vó Kjartan.
![]() |
Icelandair til Þrándheims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.6.2010 | 14:34
Óvenjulega snjólétt.
Alveg einstaklega snjólétt er á hálendinu og því má búast við að það verði ekki Kjalvegur einn, sem verði opnaður snemma, heldur einnig aðrir hálendisvegir að leiðinni ofan í Eyjafjörð frátalinni.
Eins og ég hef sagt áður frá er Sauðárflugvöllur harður eins og malbik og hefur verið opinn í 2-3 vikur.
Skaut einni snöggsoðinni ljósmynd af fólki, sem flaug með mér inn á völlinn s. l. sunnudag og undraðist að sjá þar völl á stærð við Reykjavíkurflugvöll í 14 stiga hita inni við jökul í 660 metra hæð.
Sá illa á skjá myndavélarinnar fyrir ofbirtu en á myndinni má sjá að endurnýja þarf vindpokann.
Í baksýn sést Snæfell gnæfa í fjarska.
Ég fékk fréttir af því í dag frá manni, sem var farþegi í Fokker F50 vél í morgun, að Snæfell hefði varla sést svona vel í morgun vegna mikils leirstorms úr lónstæði Hálslóns, en meirihluti lónsins, um 35 ferkílómetrar, er á þurru vegna þess hve miklu verður að hleypa úr því á veturna.
![]() |
Búið að opna Kjalveg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2010 | 00:04
Það var svo mikið "in" að berast á.
Gróðærisbólan sem sprakk 2008 risti að ég held mun dýpra en við við viljum flest vera láta. Þess alvarlegri eru afleiðingarnar af því að skuldir heimilanna fjórfölduðust á undraskömmum tíma.
Það er fróðlegt að lesa textana með myndunum, sem Séð og heyrt og önnur tímarit birtu með greinum sínum á gróðærisárunum, því að þessar myndir og myndatextar seldu blöðin, - þetta var það sem fólk vildi lesa og ylja sér við.
Alls staðar skein í gegn fölskvalaus hrifning á umbúðunum utan um hvað sem var, afmæli, hjónavígslur, samkvæmi og hvað eina. "Fínasta, flottasta, dýrasta, glæsilegasta" voru orðin sem seldu, sem voru "in".
Varla var birt frásögn af neinu nema að hamra á þessu: "Glæsileikinn allsráðandi! Lang flottasta fólkið! Sjáið fínu kjólana, skartgripina, bílana, gjafirnar o.s. frv.
"Taktu mynd af frægum!"
Á þessum árum var hversdagslegt alþýðufólk ekki talið mikils virði. Sjónvarpsstöð var með þætti um brúðkaup og var leitað til mín um frásögn af mínu. Það fór strax af því ljóminn þegar í ljós kom að það hafði ekki verið neitt opinbert brúðkaup heldur vorum við tvö með prestinum í kirkjunni eftir messu.
Engin brúðkaupsveisla, brúðargjafir, brúðkaupsferð eða neitt sem nauðsynlegt þótt í umfjöllun um þetta.
Það datt því jafnskjótt um sjálft sig að við hjónin værum talin gjaldgeng sem efni í einn þáttinn, enda moraði allt í dýrindisflóði í hinum frásögnunum hvað varðaði umgjörð hjónavígslanna.
Í fyrra frétti ég af því að nær öll dýrustu og íburðarmestu hjónaböndin hefðu endað með skilnaði.
Okkar heldur þó enn eftir 48 ár, sjö börn og bráðum 21 barnabarn.
Þetta breytir þó ekki því að þúsundir fólks er nú komið á vanskilaskrá sem á það ekki skilið.
Engu að síður er hollt að íhuga hvert það þjóðarsálarástand sem ríkti hér og endurspeglaðist í allri umræðunni um peninga og bruðl leiddi okkur.
![]() |
Um 22 þúsund á vanskilaskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)