Jón Sigurðsson, þjóðartáknin og Einar Ben.

Útlendingar kynnu að halda að Íslendingar hneigðust yfirleitt mjög til persónuudýrkunar vegna þess hve stóran sess Jón Sigurðsson skipar í hugum okkar og hve mikið honum er hampað.

En dýrkun okkar á Jóni er aðeins viðurkenning á þeirri staðreynd hvað þessi eini maður gat áorkað miklu fyrir heila þjóð. 

Í stórgóðu og fróðlegu erindi Gunnars Stefánssonar í útvarpinu síðdegis um íslenska fánann og íslenska skjaldarmerkið kom vel fram hvað þessi tvö tákn eru mikilvæg fyrir þjóðina, ímynd hennar og þjóðarvitund. 

Þetta erindi Gunnars ætti að gefa út í bókarpésa og gera að skyldulesningu fyrir alla Íslendinga. 

Hver perlan af annarri skein í þessu erindi, svo sem ræða Sigurðar Eggerz þegar þjóðfáninn var fyrst dreginn að húni 1. desember 1918. 

Hlutur Einars Benediktssonar í fánamálinu kom vel fram í erindi Gunnars, enn eitt dæmið um það sem þessi snillingur og stórmenni færði þjóð sinni. 

Því miður kunni þjóðin ekki að þakka honum það sem skyldi að öllu leyti sem hann færði henni, svo sem það að bjóða honum ekki á Alþingishátíðina 1930 og láta niðurlægingu hans síðustu árin í Herdísarvík viðgangast.  

Erindi Gunnars Stefánsson væri gott efni í stutta heimildarmynd um skjaldarmerkið og þjóðfánann og það er einmitt svona efni sem er það besta sem RUV getur fært eigendum sínum, íslensku þjóðinni. 


mbl.is Fjölmenni á Hrafnseyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr forstjóri, ný stjórn, ný sýn.

Verð og eftirspurn eftir orku fer hækkandi í heiminum og því er eðlilegt að á þeim markaði sé tekið tillit til þess. Á þessu sviði er ástandið það sem kallað er "sellers market" á erlendu máli, markaður þar sem seljendur hafa sterkari stöðu en kaupendur.

Þegar Íslendingar fóru inn á þennan markað fyrir 40 árum tóku þeir upp stefnu, sem gilt hefur allt þar til nú, - að gera það að höfuðatriði að selja vöruna, jafnvel þótt það kostaði það að hún yrði seld á hlægilega lágu verði í stað þess að verðleggja hana í samræmi við verðmæti hennar. 

Best birtist þetta í hinum einstæða betlarabæklingi íslenskra stjórnvalda, sem Andri Snær Magnason varpaði hulunni af í bók sinni Framtíðarlandinu.

Kynningarbæklingur þessi var sendur til erlendra stórfyrirtækja 1995 með upphrópuninni: "Lægsta orkuverð !  Sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum!" 

Ég hlustaði á Hörð Arnarson tæta fjármálastefnu Landsvirkjunar í tætlur á fundi Viðskiptaráðs 2007. 

Mér leist því vel á það þegar hann var ráðinn forstjóri fyrirtækisins sem ný stjórn hafði tekið við stjórnartaumunum í. 

Ný stefna í verðlagningu á orkunni kallar líka á breytingu á vali kaupenda, sem rímar við eðli jarðvarmavirkjana. Þessi breyting þarf að verða í þá átt að hafa kaupendurna að orkunni fleiri og smærri í stað þess að setja alla orku heilla landshluta í hendur eins stórfyrirtækis og taka jafnvel með því áhættu af því að ekki finnist næg orka, heldur verði fyrir neyð að fórna enn meiri náttúruverðmætum en upphaflega stóð til. 

 


mbl.is Samið um orkusölu í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið óskaplega á hann þetta skilið.

Árni Tryggvason skipar sérstakan sess í huga mér. Aðeins tólf ára gamall varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að deila með honum búningsherbergi í tveimur leikritum, sem ég lék í í Iðnó.

Fyrra hlutverkið var mjög vandasamt, hlutverk götustráksins Gavroche í hinni einstöku uppsetningu Gunnars Hansen á höfðuverki Victors Hugo, sem hann gerði að stærra hlutverki en hafði verið í sögunni. 

Hlýja, léttleiki og glaðværð Árna var mér mikilsverð og æ síðan hafa verið traust vináttubönd á milli okkar. Dró ekki úr því að vera á ferðinni sem kollegi hans í skemmtikraftabransanum í þrjátíu ár og ná síðan að gera með honum einn af eftirminnilegustu Stikluþáttum mínum, þar sem hann naut síin sem trillusjómaðurinn í Hrísey. 

Líf og list Árna hafa ekki alltaf verið dans á rósum en hann hefur markað spor í leiklistar- og menningasögu þjóðarinnar sem vert er að hafa í heiðri. Mikið óskaplega á hann þetta skilið.

 


mbl.is Árni Tryggvason heiðraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband