29.6.2010 | 23:06
Stærðin skiptir máli.
Þegar jafn svakalega skuldsett byggðarlag og Álftanes kemst ekki hjá því að óska eftir sameiningu við annað sveitarfélag er ekki endilega víst að fyrir valinu geti orðið næsta bæjarfélag, sem er það sem helst er óskað eftir að sameinast, Garðabær í þessu tilfelli.
Ástæðan er meðal annars sú að það þarf tvo til og Garðbæingar eru eðilega ekkert spenntir fyrir því að axla skuldabyrði Álftnesinga.
Reykjavík er svo margfalt fjölmennari en Garðabær að svo kann að fara að sameining Álftaness og Garðabæjar verði sú eina, sem framkvæmanleg er, sama hvað Álftnesingar vilja sjálfir.
Best væri áreiðanlega að öll sveitarfélögin á svæðinu milli Kjalarness og Straumsvíkur sameinuðust og raunar var það mesta skipulagsslysið þegar Kópavogur og Reykjavík voru ekki sameinuð á sjötta áratugnum.
![]() |
Óska eftir viðræðum við Garðabæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2010 | 08:15
Eyrir ekkjunnar.
Íslenskir lífeyrisþegar fylgjast nú spenntir með því hvernig sparnaði þeirra í ævistarfinu verður ráðstafað af fulltrúum þeirra.
Meðal lífeyrisþeganna er fólk sem ekki er ofsælt af þeim lífeyrisgreiðslum, sem það fær til þess að framfleyta sér, oft lúsarlaunum sem hrökkva hvergi nærri fyrir nauðþurftum.
Það vantaði ekki fagurgalann oft á tíðum í aðdraganda Hrunsins þegar spilagleðin í fjárhættuspili fjárfestinganna greip margan manninn og marga sjóðsstjórnina og verið var að gylla möguleikana á gróða.
Nú er bara að vona að það sama gerist ekki aftur og menn vandi sig. Við vitum að enginn er eyland og að það verður að koma gangverki þjóðfélagsins aftur af stað. En við vitum líka að fólkið, sem lagði fram féð til lífeyris síns í sveita síns andlitis á kröfu á að ekki verði gerð aftur svipuð mistök og svo oft voru gerð á undanförnum árum.
Eyrir ekkjunnar er oft ekki svo stór að það sé réttlætanlegt að minnka hann enn frekar.
![]() |
Spenntir fyrir Icelandair |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2010 | 00:34
"Kona aldarinnar", - verðskuldað.
Vigdís Finnbogadóttir er í hópi örfárra einstaklinga erlendra og innlendra sem ég ber mesta virðingu fyrir.
Ég sé á bloggi að henni er núið um nasir að sýna heigulskap með því að forðast að tala um viðkvæm og umdeild mál og reyna þannig að styggja engan.
Hvílíkt öfugmæli. Ég fullyrði að enginn, enginn þeirra sem gengu niður Laugaveginn í Jökulsárgöngunni 2006 sýndi jafn mikið hugrekki og fórnarlund og hún.
John F. Kennedy fékk ungur Pulitzer-verðlaunin bandarísku fyrir bók um hugrakkar manneskjur, sem voru tilbúnar að fórna öllu, fé, virðingu og vegtyllum fyrir hugsjónir sínar og það að hvika ekki frá sannfæringu sinni.
Vigdís Finnbogadóttir hefði sómt sér vel í þessari bók innan um þau stórmenni sem þar var fjallað um og svo sjaldgæft er að þjóðir eigi.
Hún var valin "kona 20. aldarinnar" á Íslandi um síðustu aldamót og það var verðskuldað.
Það sem hún hefur gert síðan, nú komin á níræðisaldur, er aðdáunar- og þakkarvert.
Megi henni farnast sem best í því að sinna hugsjónum sínum, meðal annars með stofnsetningu alþjóðamiðstöðvar tungumála á því landi, þar sem landið og tungan eru hornsteinar sjálfstæðis, virðingar, heiðurs og reisnar íslenskrar þjóðar.
![]() |
Áhrif Vigdísar á umheiminn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)