4.6.2010 | 20:20
Misjafnar kröfur.
Þótt Guðlaugur Þór Þórðarson hafi fengið mun hærri styrki fyrir prófkjörsbaráttu sína en Steinunn Valdís Óskarsdóttir fékk virðist einsýnt að aðeins hún og kjósendur hennar flokks telji rétt að hún víki af þingi vegna þessa.
Raunar streittist Steinunn Valdís of lengi við kröfum um að víkja, og það bætti því ekki skaðann nema að litlum hluta þegar hún gerði það allt of seint, rétt fyrir kjördag.
Ef engin krafa verður uppi um það innan Sjálfstæðisflokksins eða meðal kjósenda hans að Guðlaugur Þór geri hið sama og Steinunn Valdís sýnir það einfaldlega að innan flokksins og kjósenda hans sjái menn ekkert athugavert við ofurstyrki á borð við þá sem hann fékk.
Og jafnvel ekki að fyrirtæki styrki frambjóðendur vinstri flokka ef þeir lofa á móti að "láta þau í friði."
Raunar er svo að sjá af skrifum Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, helsti hugmyndasmiðsins á hægri væng stjórnmálanna, að eðlilegt að fyrirtæki styðji aðeins Sjálfstæðisflokkinn og frambjóðendur hans en ekki aðra flokka.
Það sé eðlilegt vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn sem sé fyrirtækjum velviljaður, - aðrir flokkar séu á móti fyrirtækjum og velgengni þeirra.
Ekki er að sjá að Hannes sjái neitt athugavert við það að fyrirtæki styrki einstaka frambjóðendur vinstri flokka ef þeir á móti lofa því að draga úr eða hætta áróðri gegn þessum fyrirtækjum.
Einvern tíma hefði slíkt samkomulag verið kallað mútur en við lifum á nýjum tímum.
![]() |
Guðlaugur fékk hæstu styrkina frá Baugi, Fons og FL Group |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.6.2010 | 09:53
Tæknin hlýtur að koma til skjalanna.
Margskyns mótsagnir hafa komið í ljós í því kerfi spáa um öskufall sem truflaði flugsamgöngur stórlega í Evrópu í vor.
Fyrsta dag gossins á Fimmvörðhálsi voru allar flugsamgöngur bannaðar hér á landi vegna þess að í forsendum öskufallsspár var gert ráð fyrir að aska mældist, en vegna þess að engin aska mældist var forritið þannig gert, að flug var sjálfkrafa bannað!
Hvað eftir annað var bannað að fljúga á suðvesturhorni landsins þegar varla sást korn í lofti, en daginn sem svifryksmengun af völdum gossins varð mest í Reykjavík var flugbanni aflétt!
Um leið og öskugosið hætti var hætt að gera öskufallsspár. Hins vegar fýkur þessi sama aska af Eyjafjalljökli og færir svifryksmengun í Reykjavík upp í hæstu hæðir, en vegna þess að hún kemur ekki úr gígnum, heldur af umhverfi hans, er allt flug leyft!
21. öldin hlýtur að luma á tækni til að meta öskuna eftir ríkjandi aðstæðum frekar en ágiskun í tölvuspá, sem gerð er í London.
Ég hef áður sagt frá tilraun sem ég gerði við að fljúga inn í svæði þar sem var öskurigning. Ég var þó í leyfilegu flugi, af því að ég var í sjónflugi og á vél með bullhreyfli.
Um leið og ég varð öskunnar var velti ég vélinnni á hliðina og sneri henni við og steypti henni til baka sömu leið og ég kom. Framrúðan varð brún þótt ég væri aðeins í tíu sekúndur inni í öskuloftinu.
Enginn skaði hlaust þó af, - rigningin þvoði öskuna af á örfáum mínútum.
Niðurstaða mín af þessari tilraun er þessi: Ef um borð í flugvél í blindflugi er öskuskynjari sem gefur aðvörun, er viðkomandi flugvél þegar snúið við og flogið til baka sömu leið og hún kom.
Ég hef spurnir af óformlegum mælingum á ösku úr flugi inni í öskumekkinum sjálfum þar sem skyggnið hrundi niður, en öskumagnið reyndist þó við viðmiðunarmörk.
Svar við slíku ástandi er einfalt, - eitt af því sem flugmenn læra hvað fyrst, að taka 180 gráðu beygju, - snúa við. Þetta hlýtur að verða framtíðin ef til skjalanna koma öskuskynjarar og öskumælar sem notaðir verða í flugi.
![]() |
Öskuvari á vélar easyJet |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2010 | 07:02
Hvað um íslenskan "Route 66"?
Í Bandaríkjunum nýtur hin hálfrar aldar gamla þjóðleið "Route 66" mikilla vinsælda. Sums staðar er auðvelt að fara út af núverandi aðalleið, svo sem í Arizona, og aka þennan gamla veg í staðinn þar sem hann liggur samhliða hinum nýja.
Þá kemur maður inn á bensínsjoppu, sem er alveg eins og þær voru 1960, fær sams konar afgreiðslu, nýtur sams konar veitinga og þjónustuaðferðar, og síðast, en ekki síst, eru bílarnir í næsta nágrenni við sjoppuna hinir sömu og var á sinni tíð, leikin sama tónlist, boðin sömu blöð o. s. frv.
Litla kaffistofan nýtur þess að halda í hið gamla, annars væri þar fáförult.Mætti jafnvel gera hana og umhverfi hennar enn fornfálegra til að skapa gamla enn sannari gamla stemningu.
Það má láta sér detta ýmislegt í hug, svo sem gamla Hvítárskálann við gömlu Hvítárbrúna eða endurreisa skálann eins og hann var í upphafi við Ferstiklu.
Best af öllu væri að vegurinn sitt hvorum meginn við svona skála væri malarvegur svo að stemningin frá 1960 kæmi alveg beint í æð, nokkurs konar íslenskur "Route 66". Það gerir úrlausnarefnið erfiðara en þó varla óframkvæmanlegt.
Ég óska Litlu kaffistofunni til hamingju með afmælið. Vinsældir hennar sanna möguleikana á því að laða að ferðafólk með því að kalla fram sérstaka stemningu.
![]() |
Litla kaffistofan fimmtug í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)