1.8.2010 | 16:35
Virðing og varúð við að leysa ráðgátu og bjarga verðmætum.
Í Faxaflóa liggja tvö flök sem njóta verndar laga um grafarhelgi. Það eru flökin af Goðafossi undan Garðskaga og flakið af DC-3 vélinni Glitfaxa, sem liggur út af Flekkuvík.
Um bæði flökin hefur ríkt samkomulag um það að þau hlíti lögum um grafarhelgi, en slík helgi ríkir yfir grafreitum í 75 ár.
Samkvæmt því gilda þau lög um Goðafoss til ársloka 2019 og henni er létt af Glitfaxa í febrúar árið 2026.
Bæði flökin eru skilgreindir grafreitir og veit ég að varðandi Glitfaxa var það ósk aðstandenda hinna látnu á sinni tíð.
Þess vegna gildir þetta einkum um flakið af Glitfaxa þar sem 20 menn fórust og líkin sitja líkast til enn bundin í belti í sætum sínum.
Á framdekki Goðafoss var bíll af Packard-gerð sem var sérstök gjöf Roosevelts Bandaríkjaforseta til forseta Íslands. Kassinn með bílnum innanborðs ætti að liggja skammt frá Goðafossi og aðeins grind bílsins með grindarnúmeri og vélarblokk með vélarnúmeri þurfa að vera heil til þess að hann teljist vera hinn eini og sanni forsetabíll og hægt að gera hann upp sem slíikan.
Um borð í Glitfaxa verður hugsanlega hægt að sjá af stillingu hæðarmælis og fleiri gögnum hvað olli því að vélin fór í hafið í aðflugi til Reykjavíkur og þar með leyst 75 ára gömul ráðgáta.
Það liggur ekkert á. Við eigum að virða lögin um grafarhelgi og þann vilja aðstandenda að þau væru virt og sýnd virðing og varúð í hvívetna.
![]() |
Skoðar sokkin skip á kafbátum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 3.8.2010 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.8.2010 | 11:20
Friðsælasti staðurinn ?
Í fjölmörgum söngvum um útiveru í náttúrunni er sungið um friðsæld og fegurð, sem sé eftirsóknarverð.
Þessar hendingar og söngvar lokka fólk út úr skarkala borgarinnar til að leita að því sem indversk skákkona finnst hún hafa fundið á Íslandi frekar en í öðrum löndum.
Sumarleyfi sín notar fólk gjarna til að fanga þetta og fer þá víða langt út úr ysnum og þysnum, til dæmis í gönguferðir um Hornstrandir eða fáfarnar slóðir á hálendinu.
Um helgar og þá einkum verslunarmannahelgina snýst þetta við. Þá dynur á landsmönnum mikið auglýsinga- og ekki síður fréttaflóð stanslauss áróðurs þeirra sem standa að hátíðahaldi og samkomum um allt land.
Nánir útlistun á þessu er að finna á tónlistarspilaranum til vinstri hér á síðunni í laginu "Á flandri" sem við Andri Freyr Viðarsson syngjum.
Ég er staddur við að skemmta á einum slíkum hátíðarstað, Síldarævintýrinu á Siglufirði, þar sem nú eru um 5000 manns og fjörið og stemningin líkir eftir uppganginum sem var hér á síldarárunum þegar rúmlega 3000 manns áttu hér búsetu.
Fjörðurinn og fjöllin skapa fallega umgjörð um þetta alveg er einstakt að koma fram á dekki eins af gömlu síldarbátunum sem liggur við bryggju inni í Sildarminjasafninu. Þar var stundað ákaflega skemmtilegt afbrigði af brekkusöng í gærkvöldi, sem kallast mætti bryggjusöngur.
Sefjunarmáttur beinna og óbeinna auglýsinga um hátíðirnar er mikill og fólk þyrpist saman að því er virðist tll þess að vera í sem mestu fjölmenni, hávaða og látum.
Þeir, sem leita eftir friðsæld og fegurð gætu þá vel farið til Reykjavíkur þar sem þessi tvö hugtök njóta sín um verslunarmannahelgina enda er þar eitt stærsta ef ekki stærsta skóglendi Íslands og fjöll og eyjar spegla sig í Kollafirðinum ef vel viðrar.
Benda má á það að hlýjasti veðurmælingastaður á Íslandi í júlí er Elliðaárstöð og þar í grennd er fallegt göngusvæði. Einnig í Reykjanesfólkvangi ef menn vilja leita aðeins lengra.
![]() |
Borgin eins og á virkum degi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)