Best var verri.

George Best var einhver mesti knattspyrnusnillingur sögunnar en málaði bæinn oft rauðan og gerði forráðamenn Manchester gráhærða.

Rooney er það ungur að þetta lítur svosem ekki vel út hjá honum, en hegðun hans er þó áreiðanlega smámunir miðað við það sem Best afrekaði á svallsviðinu enda eyðilagði hann feril sinn og líf með óreglunni og lést um aldur fram. 

Ummæli hans um það hvernig hann sólundaði öllum auðæfum sínum lifa: "Ég eyddi miklum peningum í vín og konur og restinni í bölvaða vitleysu."

Vonandi fer ekki eins fyrir Rooney. 


mbl.is Rooney búinn að koma sér í vandræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætist við fyrri vísbendingar.

Ég hef áður bloggað um mikla rannsókn sem tímaritið Time greindi frá fyrir rúmlega fimmtán árum með þeim niðurstöðum að konur laðist að karlmönnum sem hafa vald fremur en að aldurinn skipti máli.

Þess vegna njóti hermenn og menn í einkennisbúningum kvenhylli.

Ég greindi frá því í þessu bloggi mínu að þetta gæti átt við mitt fjölskyldumynstur því að fjögur af sjö börnum okkar hjóna fæddust um það bil níu mánuðum eftir jól og áramót á þeim árum þegar ég klæddist jólasveinabúningi daglega.

Nú eru það nýjar rannsóknir sem renna frekari stoðum undir þetta því að það, að rauði liturinn sé aðlaðandi í augum kvenna, passar alveg við þetta hvað snertir rauðasta einkennisbúning allra búninga, jólasveinabúninginn !  Að ekki sé nú talað um að á þessum árum var ég með eldrautt hár ! 


mbl.is Konur laðast að rauðum körlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesti ekkifréttatími ársins?

Síðdegis í gær var helsta fréttin á ljósvakamiðlunum íslensku að umferð væri farin að þyngjast á leið til Reykjavíkur.

Því miður heitir hugtakið "nyhed" eða "news" ekki hliðstæðu nafni á íslensku. 

Það er nefnilega ekkert nýtt við það að umferð þyngist á leið til Reykjavíkur eftir hádegi á verslunarmannafrídegi. 

Um það var vitað fyrir 50 árum eftir að þessi frídagur varð almennur að umferð myndi þyngjast til Reykjavíkur síðdegis hvern verslunarmannafrídag.  Þess vegna er það fyrir löngu hætt að vera frétt og var það kannski aldrei.

Á hverju ári ríkir mikil ekkifréttatíð í um það bil viku um mánaðamótin júlí-júlí með tilheyrandi beinum útsendingum frá helstu mótstöðum komandi helgar.

Gríðarleg orka fer í það hjá fjölmiðlamönnum að reyna að grafa upp eitthvað bitastætt til að koma á framfæri sem "frétt".

Dag eftir dag er það sama stórfréttin hvað margir eru staddir á helstu hátíðasvæðunum og hvernig umferðin sé. 

Þessu hefur maður svo sem tekið þátt í sem fréttamaður áratugum saman af því að allir verða að elta skottið á öllum í þessu efni.

Og ef einhver fjölmiðillinn er slappur í þessu kvarta líklega hlustendurnir. Eða hvað? 


mbl.is Nóttin tíðindalítil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómissandi þáttur í ímynd Íslands.

Veiðar á smábátum frá ótal stöðum umhverfis landið hefur verið snar þáttur í íslensku þjóðlífi og ímynd Íslands frá landnámstíð.

Dauð hönd kvótakerfisins hafði lagt dauða hönd á fjölda lítilla sjávarplássa við landið undanfarin ár þegar lokið var uppi glugga í kerfinu með svonefndum strandveiðum. 

Þetta var eitt af helstu baráttumálum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007 en talsmenn LíÚ fundu þessari hugmynd allt til foráttu.

Afstaða þeirra fyrr og nú er svo sem skiljanleg því að allir eru sammála um að um þetta sé takmörkuð auðlind þótt deilt sé um hve mikið sé óhætt eða rétt að veiða. 

Ég er að koma frá því að skemmta á Síldarævintýrinu á Siglufirði en þar og annars staðar má sjá annað sumarævintýri, - fjölda smábáta og líf og fjör í höfninni, þökk sé strandveiðunum. 

Veiðar af þessu tagi eru ómissandi þáttur í ímynd landsins sem skilar miklum óbeinum ábata, því að lífleg sjávarpláss laða að sér innlenda og erlenda ferðamenn og skapa því tekjur og umsvif. 

Unaðsstundir þeirra sem eru á 500 strandveiðibátum eru þá ekki taldar með, enda tíðkast það ekki hér á landi að verðleggja slíkt.

Nefna má líka gildi þeirra kynna, sem fjöldi þéttbýlisbúa fær af rammíslenskku umhverfi og starfsemi með því að heimsækja sjávarbyggðirnar.

Hugsum okkur að allar lax - og silungsveiðar í ám og vötnum á Íslandi væri í höndum nokkurra stórra fyrirtækja og almenningur kæmist þar ekki að. 

Forráðamenn þessara fyrirtækja rækju síðan upp ramakvein ef efnt væri "bakkaveiða" á innan við einum tíunda hluta af heildarveiðinni vegna þess að við það myndi kvóti þeirra minnka um þennan litla hluta.

Það er athyglisvert að talsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem telur sig vera flokk einkaframtaksins, leggjast gegn strandveiðum, frjálsum veiðum á rækju og smá opnun á lokuðu kerfi framleiðslu landbúnaðarvöru og nota orðin skemmdarverk og jafnvel hryðjuvek um það að opna smá glugga fyrir einstaklingana. 


mbl.is 500 bátar farnir til veiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband