Ómissandi þáttur í ímynd Íslands.

Veiðar á smábátum frá ótal stöðum umhverfis landið hefur verið snar þáttur í íslensku þjóðlífi og ímynd Íslands frá landnámstíð.

Dauð hönd kvótakerfisins hafði lagt dauða hönd á fjölda lítilla sjávarplássa við landið undanfarin ár þegar lokið var uppi glugga í kerfinu með svonefndum strandveiðum. 

Þetta var eitt af helstu baráttumálum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007 en talsmenn LíÚ fundu þessari hugmynd allt til foráttu.

Afstaða þeirra fyrr og nú er svo sem skiljanleg því að allir eru sammála um að um þetta sé takmörkuð auðlind þótt deilt sé um hve mikið sé óhætt eða rétt að veiða. 

Ég er að koma frá því að skemmta á Síldarævintýrinu á Siglufirði en þar og annars staðar má sjá annað sumarævintýri, - fjölda smábáta og líf og fjör í höfninni, þökk sé strandveiðunum. 

Veiðar af þessu tagi eru ómissandi þáttur í ímynd landsins sem skilar miklum óbeinum ábata, því að lífleg sjávarpláss laða að sér innlenda og erlenda ferðamenn og skapa því tekjur og umsvif. 

Unaðsstundir þeirra sem eru á 500 strandveiðibátum eru þá ekki taldar með, enda tíðkast það ekki hér á landi að verðleggja slíkt.

Nefna má líka gildi þeirra kynna, sem fjöldi þéttbýlisbúa fær af rammíslenskku umhverfi og starfsemi með því að heimsækja sjávarbyggðirnar.

Hugsum okkur að allar lax - og silungsveiðar í ám og vötnum á Íslandi væri í höndum nokkurra stórra fyrirtækja og almenningur kæmist þar ekki að. 

Forráðamenn þessara fyrirtækja rækju síðan upp ramakvein ef efnt væri "bakkaveiða" á innan við einum tíunda hluta af heildarveiðinni vegna þess að við það myndi kvóti þeirra minnka um þennan litla hluta.

Það er athyglisvert að talsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem telur sig vera flokk einkaframtaksins, leggjast gegn strandveiðum, frjálsum veiðum á rækju og smá opnun á lokuðu kerfi framleiðslu landbúnaðarvöru og nota orðin skemmdarverk og jafnvel hryðjuvek um það að opna smá glugga fyrir einstaklingana. 


mbl.is 500 bátar farnir til veiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband