31.1.2011 | 15:03
Eins og gerst hefði í gær.
Ég var tíu ára þegar Glitfaxi fórst og man það eins það hefði gerst í gær. Síðasta stórslys á undan þessu var þegar 25 manns fórust í flugslysi í Héðinsfirði, en þá var ég aðeins sex ára en man það þó furðu vel, eins og aðra stóratburði, snjóflóðið í Goðdal, brunann við Antmannsstíg, deiluna um bein Jónasar Hallgrímssonar, flugslysið á Hellisheiði og andlát forseta Íslands.
Á þessum tímum urðu oft mannskæð slys og hið stærsta á sjötta áratugnum var þegar togarinn Júlí fórst með 30 manns. Leikin voru sorgarlög í útvarpi og fyrst eftir að flugvélar eða skip hurfu, beið þjóðin milli vonar og ótta. Þjóðin var helmingi fámennari en nú og þetta snart hana djúpt.
Fólk var gríðarlega viðkvæmt og ég man hve miklu titringi það olli, þegar fyrir misgáning var fluttur þáttur í útvarpinu kvöldið sem Giltfaxi fórst þar sem húsnæðraskólastúlkur sungu lagið "Vertu sæll, ég kveð þig kæri vinur..." ".... vertu sæll, við hittumst aldrei framar, aldrei aftur, / og ást mín er horfin með þér.
Ég man að foreldrar mínir táruðust þegar þetta var sungið og frétti af því að margir hefðu orðið sárir.
Slysið hafi óbeinar afleiðingar í innanlandsfluginu því að í ljósi hinna mörgu og mannskæðu flugslysa sem orðið höfðu á árunum 1947-51 var ákveðið að skipta upp flugleiðum innanlands á milli flugfélaganna tveggja þannig að hvort um sig hefði einokun á sinni flugleið.
Þetta held ég að hafi verið rangt og myndi ekki vera gert í dag, enda er miklu auðveldara að fylgjast með áætlunarflugi og hafa eftirlit með því með nútíma tækni en var árið 1951.
Flugfélag íslands fékk bestu flugleiðina, Reykjavík-Akureyri, í sinn hlut og Lotleiðamönnum fannst að þeir hefðu borið svo skarðan hlut frá borði, að þeir hættu innanlandsflugi í kjölfarið en einbeittu sér hins vegar að millilandafluginu með glæsilegum árangri.
Sjálfur finn ég sterka tilfinningu fara um mig enn í dag þegar ég minnist þessa dags hins mikla slyss þennan dag fyrir 60 árum.
Einhvers staðar vestan við Álftanes er flakið af Glitfaxa og er það skilgreint sem vot gröf.
Það þýðir að samkvæmt íslenskum lögum ríkir á því svonefnd grafarhelgi allt til ársins 2126.
Vonandi verður hún virt til þess tíma og helst eitthvað lengur en það.
Ef það finnst einhvern tíma í framtíðinni verður hugsanlega hægt að finna út hvað olli því að flugvélin lenti í sjónum.
Löngu eftir slysið varð sonur aðstoðarflugstjórans samstarfsmaður minn uppi á Sjónvarpi og ég sendi honum og öðrum núlifandi aðstandendum mínar dýpstu kveðjur.
Það er eins og þetta hafi gerst í gær.
![]() |
Glitfaxi hefur aldrei fundist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.1.2011 | 14:13
Bjóðum honum að koma til Íslands.
Ég efast um að í Danmörku hafi verið hægt að fara út af heimili sínu og horfa á handboltaleik annars staðar. Handboltinn er að vísu íþrótt, sem á uppruna sinn í Danmörku, en ekkert land í heiminum líkist Íslandi hvað snertir gildi þessarar íþróttar fyrir þjóðina og þjóðarstoltið.
Ef danska landsliðið stendur undir þeim framtíðarvæntingum, sem til þess eru gerðar, mun þetta heimilisvandamál dönsku hjónanna, sem sagt er frá í tengdri frétt, blossa upp aftur og aftur.
Bjóðum þeim aðstoð til að flytja til Íslands þar sem fjölskyldur, ættir og fyrirtæki hjálpast að við að gera öllum kleift að fylgjast með handbolta.
![]() |
Fékk ekki að horfa á handboltann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.1.2011 | 14:02
Tími Mubaraks er liðinn.
Í maí næstkomandi verður Hosni Mubarak 83ja ára ef hann lifir svo lengi. Tími hans er liðinn og endalokin nærri.
Ef hann hefði sýnt stjórnvisku og hyggindi hefði hann verið farinn frá völdum fyrr við friðsöm valdaskipti.
En hann, eins og ótal einvaldar í mannkynssögunni, hefur skort kjark og framsýni.
"Það lafir meðan ég lifi." Þessi orð Loðvíks 15 Frakkakonungs hafa löngum verið höfð sem dæmi um skammsýni, kjarkleysi og eigingirni.
Hegðun Mubaraks minnir á þetta. Fyrirrennari hans, Anwar Sadat, var hugrakkur maður svo af bar og galt fyrir það með lífi sínu.
Örlög hans hafa hvílt eins og skuggi yfir Mubarak og vafalaust átt þátt í að hann hikaði við að slaka á klónni. Nú er hætt við að þetta muni koma honum í koll og hann þurfa að gjalda dýru verði þá firringu og spillingu sem ævinlega fylgir langvinnu alræði.
Það er ómögulegt fyrir Bandaríkjastjórn að binda trúss sitt lengur við 83ja ára gamlan einvald og þá firringu og spillingu sem fylgir alræðisstjórn.
Tími Mubaraks er óhjákvæmilega liðinni og vegna kjarkleysis hans og skammsýni ríkir nú hættuleg óvissa um það sem tekur við.
![]() |
Fjöldinn streymir inn í Kaíró |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)