Fögnuður með óbragði í munninum.

Víst er það  fagnaðarefni að harðstjórn Muammars Gaddafis sé endanlega úr sögunni en það sem sést hefur og frést hefur af drápinu á honum sýnir viðbjóðslega, fordæmanlega og óréttlætanlega villimennsku, meiri en sést hefur við hliðstæðar aðstæður, sem ég hef rakið í pistli hér á undan.

Vonandi tekur ekki villimennska á borð við þetta við hjá nýjum valdhöfum í Líbíu.


mbl.is Þjóðarleiðtogar fagna falli Gaddafis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóð við stóru orðin, því miður.

Muammar Gaddafi klifaði á því að hann og hans menn myndu berjast til síðasta blóðdropa gegn uppreisnarmönnum.

 Tvisvar eða þrisvar bauðst hann samt til að deila völdum með uppreisnarmönnum og fullyrti að þjóðin myndi rísa upp gegn þeim og hvatti hana til þess.

Hvort tveggja var annað hvort gert af hreinni örvæntingu eða algerri firringu nema hvort tveggja væri.

Misjafnt er hvernig einvaldar og helstu handbendi þeirra taka falli sínu. Chausescu Rúmeníuforseti reyndi að flýja en náðist og var drepinn ásamt Elenu konu sinni eftir stutt og afar ómannúðleg réttarhöld.

Saddam Hussein Íraksforseti skreið niður í rottuholu eftir að stríðið tapaðist, fannst um síðir og var drepinn eftir réttarhöld.

Martin Bormann var staðgengill Hitlers en hafði þegar látið sig hverfa áður en Hitler útnefndi eftirmann sinn, sem var Dönitz flotaforingi.

Hermann Göring var dæmdur til dauða en tókst að taka inn blásýruhylki rétt rétt fyrir aftökuna og snuða böðulinn um verkið.

Mussolíni reyndi að flýja með hjákonu sinni Clöru Pettachi en náðist og þau bæði voru skotin og síðan hengd upp á fótunum á torgi í Milano þar sem múgurinn svívirti líkin.

Hér er aðeins verið að rekja nokkur dæmi frá síðustu öld um afdrif harðsvíraðra einvalda og sést af upptalningunni að það er viðburður ef einhver þeirra sleppur við líflát.

Þeir sem reyna að flýja þegar öll sund eru að lokast verða oft hræðilegum örlögum að bráð eins og Mussolini og Clara Pettachi.

Hitler og Göbbels vissu þetta og tóku því eigið líf sjálfir. Göbbels drap börn sín öll og var það einhver harmrænasti atburðurinn sem tengist dauða illmenna.

Gaddafi hlýtur að hafa vitað að hann yrði ekki tekinn neinum vettlingatökum af uppreisnarmönnum ef hann næðist á lífi og afdrif Osama Bin Laden hafa varla verið uppörvandi fyrir hann hvað snerti aðferðir Bandaríkjamanna gagnvart þeim sem þeir telja óvini sína.

Hann ákvað því að standa við stóru orðin um síðustu blóðdropana sem skástu lausnina þegar allt annað þryti.  En í því efni var hann aðeins að hugsa um sjálfan sig og enga aðra.

Því að verst var, að þessi vonlausa og langdregna mótstaða hans kostaði þúsundir manna lífið.

Í manntafli, sem er í grunninn andleg íþrótt með mjög hernaðarbundinni hugsun, gefa menn skákina þegar það blasir við að frekari mótstaða er þýðingarlaus.

Það hefði Gaddafi átt að gera.

 

 

 

 


mbl.is Staðfesta dauða Gaddafis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur gerst áður.

Mjög fer eftir orðalagi spurninga hvort fólk gefur jákvætt svar við fylgi við ný framboð. Gallup hefur þann háttinn á að gefa svarendum þrjá valmöguleika um það hve líklegt það sé að viðkomandi styðji framboð.

Síðan tíðkast venjulegar skoðanakannanir um fylgi við flokka og kemur þá oftast út mun lægri tala en ef spurt er um hvort "til greina komi" að kjósa nýtt framboð.

Í hefðbundinni skoðanakönnun um fylgi framboða í upphafi kosningabaráttunnar 1987 fékk Borgaraflokkurinn 27% fylgi, en 10,9% í kosningunum.

Svipað var uppi á teningnum hjá Bandalagi jafnaðarmanna og Þjóðvaka þegar þau framboð komu fram.

Í febrúar 2003 kváðust 27% aðspurðra það koma til greina að kjósa nýtt þverpólitískt grænt framboð og svipuð tala kom upp í janúar 2007 varðandi tvö hugsanleg ný framboð, grænt framboð og framboð aldraðra.  

Þegar svarendur fengu að flokka fylgi sitt í þrjá mismunandi sterka flokka, líklegt - frekar líklegt - mjög líklegt komu hins vegar upp mun lægri tölur fyrir líklegt eða frekar líklegt.

En auðvitað fer það mjög eftir aðstæðum og málflutningi flokkanna, sem fyrir eru, hve vel nýjum framboðum tekst að halda á upprunalegu fylgi sínu.


mbl.is Þriðjungur gæti hugsað sér að kjósa Guðmund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...fullan skáp af engu...

Þegar Jónína Ben ætlar nú að selja af sér spjarirnar minnir það á konuna hér forðum, sem stundi: "Æ, ég á fullan skáp af engu til að fara í."
mbl.is Jónína Ben og Gunnar í Krossinum selja fötin sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband