Stóð við stóru orðin, því miður.

Muammar Gaddafi klifaði á því að hann og hans menn myndu berjast til síðasta blóðdropa gegn uppreisnarmönnum.

 Tvisvar eða þrisvar bauðst hann samt til að deila völdum með uppreisnarmönnum og fullyrti að þjóðin myndi rísa upp gegn þeim og hvatti hana til þess.

Hvort tveggja var annað hvort gert af hreinni örvæntingu eða algerri firringu nema hvort tveggja væri.

Misjafnt er hvernig einvaldar og helstu handbendi þeirra taka falli sínu. Chausescu Rúmeníuforseti reyndi að flýja en náðist og var drepinn ásamt Elenu konu sinni eftir stutt og afar ómannúðleg réttarhöld.

Saddam Hussein Íraksforseti skreið niður í rottuholu eftir að stríðið tapaðist, fannst um síðir og var drepinn eftir réttarhöld.

Martin Bormann var staðgengill Hitlers en hafði þegar látið sig hverfa áður en Hitler útnefndi eftirmann sinn, sem var Dönitz flotaforingi.

Hermann Göring var dæmdur til dauða en tókst að taka inn blásýruhylki rétt rétt fyrir aftökuna og snuða böðulinn um verkið.

Mussolíni reyndi að flýja með hjákonu sinni Clöru Pettachi en náðist og þau bæði voru skotin og síðan hengd upp á fótunum á torgi í Milano þar sem múgurinn svívirti líkin.

Hér er aðeins verið að rekja nokkur dæmi frá síðustu öld um afdrif harðsvíraðra einvalda og sést af upptalningunni að það er viðburður ef einhver þeirra sleppur við líflát.

Þeir sem reyna að flýja þegar öll sund eru að lokast verða oft hræðilegum örlögum að bráð eins og Mussolini og Clara Pettachi.

Hitler og Göbbels vissu þetta og tóku því eigið líf sjálfir. Göbbels drap börn sín öll og var það einhver harmrænasti atburðurinn sem tengist dauða illmenna.

Gaddafi hlýtur að hafa vitað að hann yrði ekki tekinn neinum vettlingatökum af uppreisnarmönnum ef hann næðist á lífi og afdrif Osama Bin Laden hafa varla verið uppörvandi fyrir hann hvað snerti aðferðir Bandaríkjamanna gagnvart þeim sem þeir telja óvini sína.

Hann ákvað því að standa við stóru orðin um síðustu blóðdropana sem skástu lausnina þegar allt annað þryti.  En í því efni var hann aðeins að hugsa um sjálfan sig og enga aðra.

Því að verst var, að þessi vonlausa og langdregna mótstaða hans kostaði þúsundir manna lífið.

Í manntafli, sem er í grunninn andleg íþrótt með mjög hernaðarbundinni hugsun, gefa menn skákina þegar það blasir við að frekari mótstaða er þýðingarlaus.

Það hefði Gaddafi átt að gera.

 

 

 

 


mbl.is Staðfesta dauða Gaddafis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ekki sýnist mér hann hafa staðið við stóru orðin skv. þessari frétt

http://www.dv.is/frettir/2011/10/20/sidustu-ord-gaddafis-ekki-skjota-ekki-skjota/

allt svolítið óskýrt ennþá

rafngudmundsson (IP-tala skráð) 20.10.2011 kl. 17:15

2 Smámynd: Óskar

Málið er að Gaddafi var hvorki betri eða verri en aðrir leiðtogar í þessum heimshluta.  Ef eitthvað var þá hafði almenningur í Líbýu það meiraðsegja mun betra en í flestum nágrannalöndunum, sjálfsagt olíunni að þakka.

Einmitt olíunnar vegna ákváðu Vesturlönd að skipta sér af, gripu tækifærið þegar uppreisnin gegn Gaddafi hófst.  Þetta er í raun lítt dulbúinn olíuþjófnaður eins og í Írak og rán á eðalsteinanámum í Afganistan sem ekkert er fjallað um í fjölmiðlum.  

Það eru harðstjórar viða í veröldinni miklu verri en Gaddafi var.  Þar má nefna Lukashenko i Hvíta Rússlandi, Assad í Sýrlandi, og brjálæðingurinn í Norður Kóreu.  Það sem þessi lönd eiga hinsvegar sameiginlegt er að þar er lítið sem ekkert af olíu!

Óskar, 20.10.2011 kl. 19:07

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það grátlegasta við harðstjóra heimsins er það að ef þeir makka rétt við nógu voldugt ríki eins og Bandaríkin fá þeir stuðning stórveldisins að launum, og virðist litlu skipta hve spilltur og grimmur harðstjórinn er.

Kínverjar myndu varla þurfa annað en að lyfta litla fingri til að fella harðstjórnina í Norður-Kóreu og sama á við um marga spillta og grimma bandamenn annarra stórvelda eins og Bandaríkjanna.

Ómar Ragnarsson, 20.10.2011 kl. 20:19

4 identicon

Olíuauður Líbýu er engin ósköp, - en þó 1-2% af heimsframleiðslu ef ég man rétt.

Og Gaddi kallinn var búinn að spila hinn týpíska diktator svolítið lengi. Hjálpa til með hryðjuverk, freta eldflaugum að Ítalíu, eiga öfluga leynilöggu, stinga undan fé og þar fram eftir götunum.

Farið hefur fé betra, en hvaða forystusauður kemur í staðinn?

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.10.2011 kl. 10:00

5 Smámynd: el-Toro

Jón Logi.  þetta er rangt hjá þér.  lestu þér betur til

el-Toro, 21.10.2011 kl. 16:34

6 Smámynd: Jón Logi Þorsteinsson

Hvaða atriði er rangt?

Jón Logi Þorsteinsson, 24.10.2011 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband