9.10.2011 | 19:57
Skjóta fyrst, spyrja svo.
Íbúar Hveragerðis verða að sætta sig við það í framtíðinni að vera vaktir jafnvel nótt eftir nótt af jarðskjálftum sem sumir hverjir eru meira en þriggja stiga.
Ástæðan er sú að fyrst var skotið og nú fyrst á að spyrja.
Þegar virkjanirnar voru settar í gang gerðu "öfgamenn" og "kverúlantar"athugasemd við það að mikið væri bruðlað með orkuna, - aðeins rúmlega tíu prósent hennar nýttist en upp undir 90% færu ónotuð út í loftið. Einnig gæti orðið vandamál þegar fram í sækti hvað yrði um allt affallsvatnið og það mál þyrfti að leysa áður en rokið væri af stað.
Þetta var afgreitt á sama hátt og svo margt annað í þessum bransa: Þetta verður leyst með nýrri tækni síðar með því að dæla vatninu aftur niður í jörðina.
Nú er verið að gera þetta og þá kemur það öllum í opna skjöldu að þessu fylgja hrinur jarðskjálfta af áður óþekktri tíðni og þar að auki stærri en nokkurn óraði fyrir.
Nú er óskað eftir rannsókn, en í raun er lang líklegast að rannsókn á skjálftavirkninni verði aðeins sóun á fjármunum og að þetta sé allt samana búið og gert.
Hér, eins og ævinlega, verða hagsmunir stóriðjunnar hafðir í fyrirrúmi.
Sú hugsun að stóriðjan hafi forgang er svo inngróin að þegar íbúar í Vogum tregðast við að fá stórar háspennulínur við bæjardyr sínar er þeim hótað með því að þeir og aðrir á Suðurnesjum skuli borga með hækkuðu rafmagnsverði þann viðbótarkostnað, sem hljótist af því að leggja línurnar í jörð.
Engum dettur í hug að það væri eðlilegra að stóriðjan, sem kaupa á raforkuna, borgi fyrir þetta.
Nei, alls ekki kemur til greina að snerta hið lága orkuverð til hennar.
Í Helguvík má sjá eitt magnaðasta dæmið um það hvernig fyrst var skotið og síðan spurt.
Rokið var í miklar framkvæmdir við að reisa álver áður en búið var að útvega orku og semja um hana og raflínur við alls tólf sveitarfélög.
Síðan eru þeir, sem vilja ekki viðhafa svona vinnubrögð, sakaðir um að "vilja ekki atvinnuuppbyggingu og framfarir," "vera á móti rafmagni" og "vilja fara aftur inn í torfkofana.".
Aðeins þremur kílómetrum frá austurbakka Mývatns á að reisa 30 sinnum stærra jarðvarmaorkuver en þar er núna. Affallsvatnið frá þessu litla orkuveri er þegar komið í Grjótagjá og rennur í átt að vatninu.
En það er greinilega búið að ákveða að virkja þarna, því að það er komið inn í Rammaáætlun og ráðamenn tala um þetta eins og orðinn hlut.
Engum virðist hafa dottið í hug að affallsvatnið gæti stórskaðað hið einstæða vatn Mývatn, sem er aðdráttarafl fyrir tugþúsundir ferðamanna.
Nei, þarna er sagt eins og syðra: Þetta verður leyst með niðurdælingu. Svæðið verður vaktað og fylgst með, - eftir að virkjunin tekur til starfa.
En Bjarnarflag er fjórfalt nær hótelunum við Mývatn en Hellisheiðarvirkjun er frá Hveragerði.
Er sjálfgefið að hótelgestirnir og íbúarnir sætti sig við að verða ekki svefnsamt nótt eftir nótt?
Ekkert af þessu vita menn, vegna þess að stóriðjan á Bakka á að hafa forgang og valta yfir allt.
Þegar ég minnist á þetta hér í pistlunum vekur það nákvæmlega engin viðbrögð enda er þetta bara "röfl hjá öfgamanni, sem er á móti atvinnuuppbyggingu og framförum og vill að við förum aftur inn í torfkofana. "
![]() |
Vilja rannsaka skjálftavirkni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.10.2011 | 16:15
Lendir alltaf á almenningi.
Fyrir 100 árum stefndi í óhjákvæmlega heimsstyrjöld sem háð yrði vegna hagsmuna valdagírugra heimsveldisssinna í stjórnmálum og fjármálum.
Valdsmenn höfðu komið sér upp alveg nýjum möguleikum tl þess að búa til allt að tífalt stærri heri en áður höfðu þekkst, og í löndum um allan heim smöluðu ráðamenn ungum mönnum í blóma lífsins í milljónatugatali til þess að þeim yrði slátrað í stríði, sem átti að verða "stríðið, sem endar öll stríð", en varð í staðinn forleikur að enn verra stríði tuttugu árum síðar.
Þessi ungu menn voru hluti af því, sem kallað er alþýða, almenningur eða þjóð og fórnir hins tilgangslausa stríðs lenti á þessum hluta almennings og þar með á alþýðunni í meira mæli en dæmi voru um áður.
Í síðari heimsstyrjöldinni var blóðbaðið síðan með loftárásatækni fært út til allra aldurflokka þjóðanna, allt frá kornabörnum til gamalmenna. Enn og aftur var það almenningur sem afleiðingar stríðsins lentu á.
Fjármálastefna og hervæðing Þýskalands frá og með 1934 byggðist á þeirri forsendu að hernema önnur lönd og færa þau undir yffirráð þýsku stjórnarinnar svo að hægt væri að mergsjúga þau og fjarmagna hið nýja heimsveldi germanskra ofurmenna.
Öðruvísi var ekki hægt að standa undir hinni dæmalausu hervæðingu. Þarna ráku hinir þýsku valdamenn stefnu, sem frá upphafi hlaut að bitna á almenningi í mörgum löndum þegar upp yrði staðið en gagnast auðræðinu og fáræðinu, valdastéttinni og stórfyrirtækjunum.
Nú er að skella á óhjákvæmlegt hernaðarástand í fjármálum heimsbyggðarinnar vegna þess að náð hefur verið hámarki nýtingar olíunnar og önnur auðlindanýting mun á hverju sviðinu eftir annað ná hámarki á fyrri hluta þessarar aldar.
Leiðin liggur aðeins niður á við og allar hinar takmörkuðu neyðarreddingar sem verða einkenni lungans af þessari öld, munu eins og fyrri daginn bitna á almenningi.
Það sést best á viðfangsefni leiðtoga Þýskalands og Frakklands á fundi þeirra í dag, sem er að þýskur almenningur fyrst og fremsat verði látinn borga brúsann fyrir björgun bankanna í Frakklandi og fjármálakerfis fleiri þjóða ESB.
Hvar sem litið verður í heiminum verður það hinir varnarlausu milljarðar alþýðufólks, sem fjármálakreppa af völdum auðlindakreppu mun bitna harkalega á.
Því miður virðist ekkert hafa breyst síðustu 100 árin í þessu efni.
Í stað beinnar hervæðingar er komin ný tegund hervæðingar, "fjárvæðing" þar sem almenningi verður að vísu ekki gert að fórna lifi og limum heldur lífskjörum og eigum.
Ísland var fyrsta landið sem fékk að finna af þessu smjörþefinn, en áður en lýkur mun engin þjóð heims sleppa við þetta nýja stríð.
Í aldarbyrjun var sagt að á þessari öld myndu stríð við hryðjuverkamenn taka við af stríðum síðustu aldar.
En hið nýja auðlindakreppustríð á eftir að verða stríð okkar aldar og því miður er hætt að það muni framkalla hefðbundin vopnuð stríð þar sem beitt verði allt frá byssuhólkum tll gereyðingarvopna.
![]() |
Merkel og Sarkozy funda um skuldakreppuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2011 | 01:58
Tákn mótsagnanna.
Sú var tíð að í íslenska Kanaútvarpinu var eitt vinsælasta lagið "The green berets", spilað í síbylju til dýrðar sérsveitum Bandaríkjahers í Vietnamstríðinu og til að efla móralinn í herstöðvum Bandaríkjamanna.
Textinn fjallaði um hin hugrökku og dáðríku hreystimenni, sem skipuðu úrvalssveitir hugsjónamannanna sem fórnuðu lífi sínu fyrir baráttuna við hina illu kommúnista.
Þetta var þrusugott lag og enn í dag flýgur það stundum mér í hug að gera íslenskan texta við það.
En þá vaknar erfið spurning: Væri slíkt viðeigandi?
Ástæðan er sú að það skilja himinn og haf , annars vegar það álit sem Jón Væni (John Wayne) og skoðanabræður hans höfðu á þessum sérsveitium og birtist í þessu góða lagi, og - hins vegar það hræðilega óorð sem ýmsar gerðir þessara sveita komu á þær þegar leið á stríðið.
Í huga mér syngur enn laglínan, sem var nokkurn veginn með þessum texta: "These brave men, - Americas best!"
Þegar fjölmiðlun, umfjöllun og umræða um Vietnamstríðið magnaðist á síðustu árum sjöunda áratugarins kom í ljós, að það væri líka hægt að syngja: "....Americas worst".
Líklegt er að eðli þessa hræðilega stríðs hafi verið slíkt, að enginn leið hafi verið fyrir sérsveitir af þessu tagi að komast hjá því að drýgja ódæði, rétt eins og óvinurinn.
Í lokin fékk heitið The Green Berets svo slæman blæ á sig, að hætt var að spila dýrðaróðinn í Kanaútvarpinu.
Og heitið "The green berets" var þar með komið með í flokk með Gestapo, SS, STASI og öðrum illræmdum heitum í orðabókinni.
En þótt menn geti haft það álit að Grænhúfan sé tákn hins illa, breytir það sennilega litlu um það að grænhúfa Jóns væna feli í sér peningaverðmæti sem magnaður gripur.
Líklegast er það sama að segja um öskubakka, sem ég á, og gerður var af Íslendingi, sem fór ásamt öðrum Íslendingi á kostnað Heinrichs Himmlers yfirmanns SS-sveitanna til Dachau 1938 og nam þar mótasmíði fyrir höggmyndagerð, en Himmler var mikill áhugamaður um höggmyndalist. ´
Í Dachau, þar sem þessir Íslendingar voru á vegum Himmlers að leggja grunn að íslenskri höggmmyndagerð, voru einar illræmdustu fangabúðir nasista.
Maður ímyndaði sér síðar meir sem unglingur, þegar maður horfði á þennan óhuganlega öskubakka á heimili foreldanna og vissi orðið um tilurð hans, að öðru megin við fangelsismúrin hefðu verið Gyðingar í hlekkjum að höggva grjót, og hinum megin við vegginn tveir sérvaldir Íslendingar að vinna úr því.
Þessi íslenski mótasmiður var hreinn öðlingur og góður heimilisvinur á bernskuheimili mínu sem hann heimsótti oft. Hans mun ég ævinlega minnist ævinlega mikilli hlýju og þakklæti fyrir ótal góðar stundir þegar hann tefldi við föður minn og ég sá um að spila viðeigandi jassmúsík á plötuspilaranum.
En hann og faðir minn, þá kornungir menn, áttu það til að gantast með ýmsa hluti í miklum hálfkæringi og 1948 gaf hann föður mínum stóran kringlóttan öskubakka í afmælisgjöf, þar sem myndarlegt merki SS, hauskúpa og krosslagðir leggir, tróndi yfir þveran bakkann.
Svona getur heimurinn nú verið lítill, að rekja megi einn óvenjulegasta og hugsanlega verðmætasta heimilisgrip minn óbeint til Himmlers og SS-sveitanna.
Þessi bakki, eins og Grænhúfan, eru vitni um tákn og gripi, sem geta falið í sér hrikalegar mótsagnir og verið verðmæt fyrir vikið "for good or worse" eins og Kaninn orðar það.
Í hvert skipti sem ég horfi á öskubakkann birtist hann mér sem áminning um það, hve stutt getur verið á milli góðs og ills í lífi mannsins.
![]() |
Metfé fyrir alpahúfu John Wayne |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2011 | 00:50
Horft til himins.
Á leiðinni frá Bjarnargili í Fljótum til Reykjavíkur í kvöld var oft magnað að horfa til himins þegar rofaði til á milli snarpra skúra.
Tunglskinið, sem var sérstaklega fallegt þegar sást til tunglsins á milli snarpra skúra, sló bjarma á hvít fjöll og vota vegi, og sjónarspil skúraskýjanna var mikilfenglegt. Einnig brá fyrir fallegum norðurljósum, og í Hrútafirðinum mátti sjá ferðafólk standandi við veginn horfandi til himins með myndavélar á lofti.
Það sá norðurljósin, tunglið og hraðferð misbjartra skúraskýja, en ekki sáum við hjónin neitt stjörnuhrap, þótt vera kunni að einhverjir aðrir hafi séð það.
Nútímafólk missir af því að upplifa náttúruna og veröldina án ljósagangs og hávaða af mannavöldum.
Helga, konan mín, hefur óskiljanlega góða heyrn, svo góða, að síðustu nótt varð hún andvaka í sveitinni, af því að þögnin var svo mikil og það var orðið langt síðan hún hafði upplifað svo mikla þögn. Síðan byrjaði að rigna með dropahljóði og þá sofnaði hún vært.
Svona erum við orðin samdauna hávaðanum í borginni.
Iðunn og Friðrik, dóttir okkar og tengdasonur og fjölskylda þeirra, unnu þrjú ár sem kennarar í Vík í Mýrdal og þau voru á einu máli um þá miklu, dýrmætu og óvnæntu upplifun sem það veitti þeim að standa úti á kyrri vetrarnóttu og sjá stjörnugeiminn í fyrsta sinn ótruflaðan í stað þess að hann ýmist sæist ekki eða væri stórlega deyfður vegna borgarljósanna, sem þau höfðu alist upp við.
![]() |
Hundruð ljósa á himni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)