Þegar 35 hnútar urðu 85.

Sumarið 1990 stóð þannig á að ég var með tvær flugvélar á Akureyrarflugvelli, TF-FRÚ og TF-GIN, sem stóðu stutt frá hvor annarri.

Ég ók þaðan vestur til Blönduóss vegna leiðinlegs veðurs og batt báðar vélarnar kyrfilega niður. 

Spáð var suðvestan átt, sem er oft leiðinleg og byljótt á Ákureyri, og fylgdi með í flugvallarspánni að mestu vindhviður gætu orðið 35 hnútar. 

Þegar ég var á Blönduósi fékk ég símtal frá flugturninum á Akureyri þess efnis að FRÚ-in, sem var þá af gerðinni Dornier 27B, hefði losnað í 85 hnúta hviðu og fokið á TF-GIN. 

Mér brá auðvitað og flýtti mér til Akureyrar og hugsaði með mér að það væri afar óvenjulegt að flugvél einhvers fyki á aðra flugvél sem hann ætti. 

Einnig átti ég erfitt með að skilja hvernig flugvélin hefði getað losnað, jafnvel þótt hviðan, sem var svona illvíg, hefði orðið 50 hnútum meiri en spáð var. 

Mér varð rórra þegar ég sá hve óhemju heppinn ég hafði verið, notið láns í óláni. 

GIN-ið var nær óskemmt og Dornierinn í raun óskemmdur, því að lítill járnkrókur, sem stóð niður úr vængnum og var til þess ætlaður að bundið væri í hann, hafði hreinlega rifnað úr vængbitanum, án þess að vængurinn skemmdist nokkuð.

Dornier-vélin var með afar stóra vængi með gríðarlegan lyftikraft og þarna kom sá kraftur heldur betur í ljós. 

Það er einkum við fjöll og í vestlægum áttum, sem orðið getur byljótt, svo byljótt að Veðurstofan getur ekki spáð fyrir um það. Það lærði ég af þessari reynslu og einnig því þegar eitt sinn kom 65 hnúta hviða á Reykjavíkurflugvelli þegar spáð mest 25 hnútum. 

 

 


mbl.is Reyndi að skríða út um framgluggann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Katla gýs bara einu sinni..."

Guðný Jenny Ásmundsdóttir hefur hugsanlega þurft að hugsa sig aðeins um þegar hún átti aðeins um tvennt að vlja, starfið eða fara sem markvörður á HM í Brasilíu. 

Erfitt val en þó augljóst: Annars vegar hugsanlega eina tækifærið í lífinu til að upplifa þátttöku í heimsmeistaramóti eða hins vegar starf, sem er þess eðlis, að meiri líkur séu en minni sé á því að svipað bjóðist aftur. 

Svona val þarf þó ekki að vera svona auðvelt, þótt annar möguleikinn felist í því að upplifa eitthvað, sem aðeins gefst einu sinni á ævinni. 

Þegar aðeins innan við hálftími var þangað til ég skyldi leiða elstu dóttur mína upp að altarinu, var ég enn að störfum niðri á fréttastofu Sjónvarpsins. 

Ólafur Sigurðsson, fréttamaður, spurði mig sposkur hvort ég væri virkilega svo mikill vinnufíkill að ég ætlaði að klúðra því að mæta uppábúinn í tæka tíð í brúðkaupið. 

Ég svaraði því til að kirkjan væri aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá Sjónvarpshúsinu og að ég yrði enga stund að fara í smókinginn. 

Hann vissi hvað hugsanlegt Kötlugos myndi hafa mikla þýðingu fyrir mig og spurði í glettni, hvað ég myndi gera ef tilkynning bærist einmitt núna um að Kötlugos væri að hefjast. 

Ég svaraðii snöggt: "Það er auðvelt val. Katla gýs bara einu sinni á ævi minni en ég á fjórar dætur." 

Auðvitað sagði ég þetta í hálfkæringi af því að mér fannst svarið ögrandi og skemmtilegt þótt ég meinti ekkert með því. 

Það er nefnilega aðeins einu sinni á ævinni sem maður leiðir í fyrsta sinn dóttur sína upp að altarinu. 


mbl.is Valdi HM frekar en starfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. nóvember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband