Þegar 35 hnútar urðu 85.

Sumarið 1990 stóð þannig á að ég var með tvær flugvélar á Akureyrarflugvelli, TF-FRÚ og TF-GIN, sem stóðu stutt frá hvor annarri.

Ég ók þaðan vestur til Blönduóss vegna leiðinlegs veðurs og batt báðar vélarnar kyrfilega niður. 

Spáð var suðvestan átt, sem er oft leiðinleg og byljótt á Ákureyri, og fylgdi með í flugvallarspánni að mestu vindhviður gætu orðið 35 hnútar. 

Þegar ég var á Blönduósi fékk ég símtal frá flugturninum á Akureyri þess efnis að FRÚ-in, sem var þá af gerðinni Dornier 27B, hefði losnað í 85 hnúta hviðu og fokið á TF-GIN. 

Mér brá auðvitað og flýtti mér til Akureyrar og hugsaði með mér að það væri afar óvenjulegt að flugvél einhvers fyki á aðra flugvél sem hann ætti. 

Einnig átti ég erfitt með að skilja hvernig flugvélin hefði getað losnað, jafnvel þótt hviðan, sem var svona illvíg, hefði orðið 50 hnútum meiri en spáð var. 

Mér varð rórra þegar ég sá hve óhemju heppinn ég hafði verið, notið láns í óláni. 

GIN-ið var nær óskemmt og Dornierinn í raun óskemmdur, því að lítill járnkrókur, sem stóð niður úr vængnum og var til þess ætlaður að bundið væri í hann, hafði hreinlega rifnað úr vængbitanum, án þess að vængurinn skemmdist nokkuð.

Dornier-vélin var með afar stóra vængi með gríðarlegan lyftikraft og þarna kom sá kraftur heldur betur í ljós. 

Það er einkum við fjöll og í vestlægum áttum, sem orðið getur byljótt, svo byljótt að Veðurstofan getur ekki spáð fyrir um það. Það lærði ég af þessari reynslu og einnig því þegar eitt sinn kom 65 hnúta hviða á Reykjavíkurflugvelli þegar spáð mest 25 hnútum. 

 

 


mbl.is Reyndi að skríða út um framgluggann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband