Útsölur með jeppadekk og stigbretti ? Leynilögreglugáta.

Það er vinsælt að lesa sakamálasögur um hátíðarnar. Nú hefur ein lítil og nett leynilögreglusaga bæst við sem allir þeir, sem lesa blogg mitt, geta fylgst með í að ráða gátuna, sem ekki þarf að kaupa eða fá gefins eins og Arnald og Yrsu.

Fyrri hluti sögunnar er á undan þessum pistli, og fjallar um stuld á 20 ára gömlum Toyota 4runner jöklajeppa með tilheyrandi upplýsingum og myndum.  IMG_2306IMG_2308IMG_2313P5070029

Nú er málið að byrja að skýrast þótt það sé ekki upplýst og hér má meðal annars sjá þá miklu breytingu sem hefur orðið á þessum jeppa á innan við sólarhring.

Vegna ábendinga úr síma og í athugasemdum við pistilinn um stuldinn, kom í ljós að hinn stolni jeppi var á Norðurslóð úti við sjóvarnargarðinn í Örfirisey beint norður af HB Granda og eru myndirnar teknar fyrr í kvöld. IMG_2309

IMG_2303Búið að taka af honum fín nær óslitin 38 tommu jeppadekk á felgum og setja ræfilsleg jepplingadekk undir í staðinn.

Ný kosta dekkin og felgurnar um hálfa milljón, - tjón mitt minnsta kosti ríflega helmingurinn af þeirri upphæð.  

Búið að saga af honum jöklajeppastigbrettin báðum megin og stela þeim.  Annað var alveg nýtt.

Hvort um sig kostar um 60-70 þúsund krónur ásett.

Búið að taka úr honum útvarpstæki.  Samtals tjón: Ekki undir 400 þúsundum.

Búið að taka af honum númerin.

Bílstjórasætið var það framarlega að sá sem sat síðastur undir stýri hefur verið lágvaxinn, varla hærri en 1,65.

Búið að stela af honum því litla bensíni sem á honum var, en eftir að þjófar stálu af honum bensíni á bílasölunni um daginn með því að brjóta upp hlífina yfir bensínlokinu, passaði ég mig á því að hafa eins lítið bensín á honum og unnt var.  

Af upplýsingum í athugasemdum við fyrri bloggpistilinn má ráða að bílnum var stolið eftir klukkan átta í gærkvöldi og hefur ekki komið út í Örfirisey fyrr en eftir síðasta él í dag, því að undir bílnum eru för eftir hann sjálfan og annan jeppa sem hefur líkast til dregið hann síðasta spölinn, líkast til á sömu dekkjunum og stolið var undan honum ef marka má förin í snjónum.

Þó er ekki útilokað að bílnum hafi verið ekið í förin á fremri bílnum en það sem bendir til dráttar síðasta spölinn var það, að þótt bíllinn væri opinn og hægt að starta honum, gekk það illa vegna bensínleysis og / eða óhreininda í bensíninu og varð ég frá að hverfa.

Eftir að bíllinn var skilinn þarna eftir kom moksturtæki og ruddi að honum snjó vinstra megin. Stjórnandi tækisins virðist ekki hafa séð neitt athugavert við ástand hins númerslausa  og nær hjólalausa bíls við kantinn á Norðurslóðinni.  

Nú verður fróðlegt að sjá hvaða ályktanir og hvaða upplýsingar er hægt að kreista út úr þessu.

Nokkrar tillögur:

1. tilgáta:

 Ef bíllinn hefur verið dreginn út á Norðurslóð eru vitorðsmennirnir minnsta kosti tveir. Ég á eftir að fara og mæla förin eftir 38 tommu dekk sem eru undir förunum af dekkjaræflunum, en mér sýnist að það séu sömu dekkin og stolið var.

Þjófurinn þurfti að losa sig við stolna bílinn sem fyrst eftir að hann var búinn að hirða það bitastæðasta úr honum. Til þess þurfti að setja undir hann dekkjaræfla og koma honum helst nógu langt í burtu frá aðsetursstað sínum til þess að erfiðara væri að rekja slóðina.

Það bendir til þess að jeppinn, sem dekkin áttu að fara á, hafi verið notaður í dráttinn og hin jepplingadekkin hafi verið áður undir honum. Ground Hawg dekkin eru ekki algeng og varla tilviljun að farið er það sama.

Bílnum hefur verið stolið í myrkri áður en síðasta stóra élið féll og honum ekið inn undir þak, þar sem skipt var í rólegheitum um dekk, stigbrettin söguð af og númerin líka.

Síðan var bíllinn dreginn, að minnsta kosti síðasta spölinn út á Norðurslóð, því að vélin hefur ekki gengið að gagni í lokin.

Stigbrettunum var stolið til að setja á annan jeppa, hugsalega þann sama og dekkin voru sett á.

Spurning: Er þjófurinn að breyta svipuðum jeppa í jöklajeppa?  Ef það er Hilux, eru stigbrettin of stutt en þó brúkleg. Samt áberandi stutt. Ef það er tveggja manna Toyota, Willys eða bíll sem er ennþá styttri en 4runnerinn, sem er frekar stuttur á milli hjóla, er hægt að stytta stigbrettin en spurning hvernig gangi að láta þau passa í festingarnar.

Ef hann er að breyta 4runner sem er mun minna keyrður eða yngri en minn (minna en 234 þúsund kílómetrar) passa stigbrettin eins og flís við rass. 

Spurning: Eru einhver vitni að því þegar jeppinn var dreginn?

2. tilgáta:

Þjófurinn stundar svona þjófnaði og er í sambandi við aðra, sem geta nýtt sér það að vera í svartamarkaðsverslun með jeppabreytingahluti sem eru yfirleitt talsvert dýrir. Því eldri sem jepparnir eru, því erfiðara er að rekja feril allra hlutanna og erfiðara að sjá út grunsamleg atriði, af því að breytingarnar og jepparnir eru af svo fjölbreyttum toga.

Dekkin fara undir einn jeppa og stigbrettin undir aðra.  

Hann stelur bílnúmerum til þess að villa um fyrir lögreglunni og öðrum.

3. Hér á landi er að myndast skipulögð glæpastarfsemi í kringum jöklajeppa sem byggist á því sem sagt er hér að ofan um mikla starfsemi á þessu sviði sem snertir margskonar bíla.

Ýmislegt er sérkennilegt. Til dæmis að vera að hafa fyrir því að stela svona litlu bensíni ef það hefur verið gert. Einnig það að hafa getað ræst bílinn með lykli í stað þess að tengja fram hjá. Nema að bílnum hafi verið ekið langa leið, til dæmis til Hafnarfjarðar eins og ábending hefur komið fram um. Sjá P.S. hér á eftir.

Það er dýrt að breyta jeppum og því talsverðir fjármunir í taflinu. Mér er kunnugt um að útlendingar sem hér hafa verið í nokkur ár, hafi margir orðið hugfangnir af jeppasportinu, og ég hef átt viðskipti við sómamenn af erlendu bergi brotna.

En við vitum líka að rétt eins og hjá okkur Íslendingum sjálfum er þar misjafn sauður í mörgu fé, og kannski hafa einhverjir af þeim, sem hafa hreiðrað um sig í undirheimnum, séð tækifæri í svartamarkaðnum í jeppamennskunni.

Vegna þess að þessi blái breytti 4runner var líkast til eini bíllinn af þessu tagi á landinu með þessum lit og vel útlítandi, þótt ekinn sé 234 þúsund kílómetra á 20 árum, gæti verið meiri möguleikar en ella að einhverjir hafi veitt honum eftirtekt á síðasta ferðalagi hans.

Og ef einhver verður var við nýleg negld grófmynstruð 38 tommu Ground Hawg dekk undir jeppa af svipaðri gerð eða stærð og 4runnerinn er og þar að auki með stigbrettum, þar sem annað er alveg nýtt en hitt með lítils háttar beyglu aftarlega, þá getur það varla verið tilviljun.

Að ekki sé nú talað um ef svona dekk og stigbretti eru saman á útsölu þessa dagana í takt við allar útsölurnar.

Ég þakka þeim sem hafa gefið mér þær upplýsingar sem hafa þokað málinu áfram í þessari raunverulegu leynilögregluþraut, sem ekki er seld í bókabúðum.   

 

P. S. Nýjasta í málinu:

Þegar ég fór og sótti Toyotuna í kvöld kom í ljós að hægri afturrúðan var brotin og þannig hafði þjófurinn getað opnað bílinn.  Hann gaf sér tíma til að taka þurrkublöðin af honum. IMG_2314

IMG_2316Þurft hefur góða rafknúna vélsög til að saga í sundur sterklega bitana sem héldu stigbrettunum, sjá myndir, þar sem farið eftir sögina er gulleitt að sjá.

Á kílómetramælinum mátti sjá að honum hafði verið ekið 35 kílómetra í leiðangrinum og þess vegna hefur hann líkast til orðið bensínlaus.

Ég setti bensín og ísvara á bílinn og eftir það gekk hann eins og klukka.  

 


mbl.is Útsölurnar hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best að stela á jólanótt ? Toyotan horfin !

Eg veit ekki hvernig það er á Akureyri, samanber tengda mbl.frétt,  en hér í Reykjavík gætu jólanótt, páskadagur og sunnudagurinn um verslunarmannahelgina verið hentugustu dagarnir fyrir bílþjófa. p5070028.jpg

Ástæðan er sennilega sú að um jól og páska er mest ró og friður og um verslunarmannahelgina er afar rólegt í Reykjavík enda beinist löggæslan mest að miklum verkefnum utanbæjar. p5070029.jpg

Ástæðan þess að ég er að spá í þetta núna er að í gær eða fyrradag var stolið skásta bílnum mínum, þeim eina sem eitthvert verðmæti var í, af stæði við bílasölu við Bíldshöfða, bláum Toyota 4runner jöklabíl, árgerð 1992, með númerinu TB 594, sem meðfylgjandi mynd er af þegar ég hef fengið tíma til að setja hana inn á síðuna. 

4runnerinn var á 38 tommu dekkjum af Ground Hawg gerð með grófu mynstri, sjá meðfylgjandi mynd þar sem hann stendur hjá minnsta jöklajeppa á Íslandi, sem ég nota helst ef ég get, en dugar hins vegar ekki ef ég þarf að hafa með mér mannskap í jöklaferð.

Líklega er enginn annar bíll af þessari gerð með þessum lit og breyttur fyrir jöklaferðir á landinu, - auðþekkjanlegur bíll.  img_2301.jpg

Líklega hafa það verið dekkin og felgurnar sem hafa freistað þjófanna, því að dekkin voru nær óslitin og negld og kosta ný um 400 þúsund krónur. 

Bílinn átti að selja á 690 þúsund krónur.  

Ef einhverjir hafa orðið varir við þennan bíl eða dekkin af honum á ferli síðan í fyrradag væri gott að fá upplýsingar um það.  img_2303.jpg

Ég keypti þennan bíl fyrir ári af fenginni reynslu af gosinu á Fimmvörðuhálsi, en þangað hafði ég farið í fréttaferð ásamt fréttamanni og myndatökumanni frá Sjónvarpinu á 39 ára gömlum Range Rover jöklabíl með Nissan Laurel dísilvél, og enda þótt sá gamli sé afar duglegur jöklabíll, er kalt í honum og hávaðasamt og krafturinn í antikvélinni mætti vera meiri. 

Toyotuna ætlaði ég að eiga til að geta gripið í hann ef ég þyrfti að fara í jöklaferð með mannskap, sem bjóða mætti upp á betri kjör en í nær fertugum fornbíl.

Toyotan kom í góðar þarfir í sumar þegar við Helga fórum upp á Sauðárflugvöll og Helga dró tvo bilaða jeppa, sem þar voru, til byggða, því að hún var sjálfskipt og því þægilegur dráttarbíll. 

Að öðru leyti var þessum bíl ekki ekið neitt nema aðeins liðkaður 2-3 kílómetra á tveggja vikna fresti. 

Ég vissi að nú á útmánuðum myndi ég hins vegar þurfa að selja jeppann til þess að geta klárað myndina stóru "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars" og þess vegna var hann bíll til sölu á JR bílasölunni og stóð meira að segja yst úti við Bíldshöfðann til þess að síður væri hægt að stela honum af því hann blasti við öllum sem eiga leið um götuna. 

Þessi bílþjófnaður gat varla komið á verri tíma fyrir mig. 

Ég veit að verslunarmannahelgin er varasöm fyrir bílaeigendur í Reykjavík því að fyrir nokkrum árum var brotin rúða í bíl mínum til þess að stela honum eða dótinu úr honum þar sem hann stóð upp við útvarpshús, en þjófarnir fældust vegna þess að þarna leggja leigbílstjórar bílum sínum. 

Áður hafði verið brotist inn í sama bíl þar sem hann stóð inni í læstum  bílakjallara Útvarpshússins og stolið úr honum dýrri myndavél !

 

P.S. að kvöldi 27. desember.

Nú hefur jeppinn komið í leitirnar og farin af stað framhalds- leynilögreglusaga, sjá næsta blogg.


mbl.is Róleg jól hjá slökkviliðinu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margra ára baráttumál.

Baráttan fyrir stofnun eldfjallagarðs, jarðminjagarðs eða eldfjallaþjóðgarðs á Reykjanesskaga hefur staðið í nokkur ár. img_0995.jpg

2007 var haldin ráðstefna um þetta suður frá þar sem Ásta Þorleifsdóttir lýsti kynnum sínum af því hvernig þessum málum var háttað á Hawai. 

Í Eldfjallaþjóðgarð þar koma þrjár milljónir manna árlega og flestir fara yfir þver meginlönd, hálft Kyrrahafið og síðan á milli eyja til þess að komast á staðinn. 

img_0927.jpg

Bendi á að skoða má betur það sem sést á myndinum hérna með því að tvísmella á viðkomandi mynd. 

Ég átti þess kost í Silfri Egils að ræða þetta mál til að vekja á því athygli en róðurinn hefur verið þungur vegna einhliða áherslu á að virkja jarðvarmasvæði skagans sundur og saman og ganga hart fram í rányrkju á orkunni sem þarna er. 

Nú síðast er ásókn í virkjun í Eldvörpum til að koma álveri í Helguvík af stað og láta menn sig það engu varða að Eldvörp og Svartsengi eru með sama jarðvarmahólfið eða varmageymi, - og virkjun í Eldvörpum mun því aðeins flýta fyrir því að öll orkan í hólfinu verði tæmd. img_1005.jpg

Eldvörp eru fimm kílómetra löng gígaröð sem á enga hliðstæðu fyrr en komið er austur að Lakagígum.

Segja má að Eldvörp séu vasaútgáfa af Lakagígum, en gígaraðir Íslands eru eitt aðal sérkenni okkar einstæða eldfjallalands. 

Flestar þeirra eru þó myndaðar áður en ísöld lauk. Þær, sem mynduðust eftir ísöld eru flestar á svæðinu fyrir suðvestan og norðan Vatnajökul. 

Þess vegna er svo dýrmætt að eiga jafn aðgengilega gígaröð ósnortna og Eldvörpin eru í stuttri fjarlægð frá mesta þéttbýlissvæði landsins. 

Á meðfylgjandi loftmyndum er horft úr lofti eftir gígaröðinni, fyrst til norðurs yfir norðurhluta þeirra. 

Síðan er horft til suðurs yfir suðurhlutann, og sést þar borhola og borplan, sem illu heilli hefur verið gert þar en er þó hátíð miðað við það sem þarna myndi verða ef virkjað yrði með öllum mannvirkjum, sem slíku fylgja, borholum, vegum, gufuleiðslum, húsum og háspennulínum

Læt fylgja með eina mynd inni á milli af slíku af Kröflusvæðinu og neðar tvær myndir frá Krísuvíkursvæðinu, sem líka er sagt frá í fjölmiðlafréttum að nánast sé búið að kveða upp virkjanadóm yfir. 

Eldvörpin eru í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá helsta alþjóðaflugvelli landsins, og samt ætla menn að eyðileggja þau með virkjun sem er hrein rányrkja og í algeru ósamræmi við gort okkar af "endurnýjanlegum og hreinum orkugjafa" og "sjálfbæra þróun." 

Við Eldvörp liggur hin forna gönguleið Árnastígur og skammt frá þeim í Sundvörðuhrauni eru einstæðar rústir, að öllum líkindum felustaður Grindvíkinga þegar Tyrkjaránsmenn gerðu þar strandhögg. 

Svæðið býður ósnortið upp á hreint ævintýraland fyrir ferðamenn ef hugsunin er aðeins sú að græða peninga en vel er hægt að búa svo um hnúta að halda raski af þeim í skefjum og nýta sér reynslu t. d. frá Yellowstone. 

Í áætlunum um endingu jarðvarmavirkja er reiknað með 50 ára endingu. img_0955.jpg

Nokkrir jarðfræðingar hafa þó dregið í efa að endingin verð svo löng, og að ætla sér, ofan á það að hraða því að tæma þarna alla orku, svo að hún endist aðeins í örfáa áratugi, að umturna þessu svæði með virkjanamannvirkjum getur ekki flokkast undir annað en sams konar en enn verri græðgi, skammsýni og ósvífni í garð komandi kynslóða og einkenndi margt af því sem skóp Hrunið á sínum tíma. 

Menn virðast ekki ætla að limg_0959.jpgæra neitt heldur bara færast í aukana. 

Fjölmiðlar gera ekki neitt í því að sýna hvað stendur þarna til, hvorki frá Eldvörpum né öðrum virkjanasvæðum. 

Aldrei sýndar brúklegar myndir af þessum svæðum, - raunar aldrei sýndar neinar myndir. 

Í Hruninu var peningum eytt, - en með Eldvarpavirkjun á bæði að ræna peningum af börnum okkar og barnabörnum og eyðileggja náttúruverðmæti þar á ofan fyrir öllum kynslóðum sem á eftir okkur koma. 

Barátta Sigríðar í Brattholti gegn virkjun Gullfoss stóð í nokkur ár en síðan kom 30 ára hlé. 

En í Krísuvík, árið 1949, hóf Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur nútíma náttúruverndarbaráttu og 100 ára afmæli hans verður 4. janúar næstkomandi. 

Áform um stórfelllda umturnun Krísuvíkursvæðisins vegna virkjana eru kapituli út af fyrir sig. 

Ákvörðun Grindavíkurbæjar um jarðminjagarð er fagnaðarefni og við hæfi að hana ber nokkurn veginn upp á afmæli hins stórmerka jarðfræðings og brautryðjanda. 


mbl.is Fagna stofnun jarðminjagarðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er forsagan ?

Hver er forsaga afstöðu Íslendinga til ríkja Ísraels og Palestínumanna síðustu 65 ár?

Íslendingar skipuðu sér í fararbrodd þeirra þjóða innan Sþ sem stóðu að þeim Salómonsdómi 1948 að skipta Palestínu á milli Gyðinga og annarra, sem áttu heima í landinu. 

Samúð þjóða heims var mikil með Gyðingum eftir Helför nasista á hendur þeim og enda þótt Gyðingar hefðu beitt hryðjuverkum þegar þeir þrýstu á um að fá stofnað eigið ríki í Landinu helga, bar Thor Thors sendiherra Íslands hjá Sþ tillögu varðandi stofnun tveggja ríkja sem var samþykkt og Ísraelsríki stofnað 1948. 

Má segja að Íslendingar hafi verið í hópi guðfeðra Ísraelsríkis. 

Íslendingar hafa alla tíð verið í góðum tengslum við Ísraelsmenn og buðu til dæmis Ben Gurion forsætisráðherra þeirra hingað til lands þegar á sjöunda áratugnum. 

Síðar kom Golda Meir líka til Íslands. 

Íslendingar voru Ísraelsmönnum velviljaðir í styrjöldunum 1948, 1967 og 1973 þegar allir hinir arabísku nágrannar þeirra sóttu að þeim. 

Í sex daga stríðinu 1967 hernámu Ísraelsmenn vesturbakka Jórdanár og hafa viðhaldið því hernámi síðan. 

Á þeim 45 árum, sem síðan hafa liðið, hafa Ísraelsmenn stofnað landnemabyggðir í hinu hernumda landi og alls hálf milljón Gyðinga hefur komist þar inn, þvert ofan í alþjóðalög og samþykktir Sameinuðu þjóðanna. 

Auk þess er unnið skipulega að því í Jerúsalem að ná eignum Palestínumanna úr höndum þeirra og var aðferðinni lýst býsna vel í þættinum "60 míntur" á sínum tíma. 

Ekki er hægt að sjá hvernig það geti flokkast undir Gyðingahatur að gagnrýna þetta framferði Ísraelsmanna, heldur er einfaldlega verið að halda því fram í fullu samræmi við feril málsins frá upphafi, að Ísraelsmenn fari eftir samþykktum Sameinuðu þjóðanna. 

Heldur er ekki hægt að flokka það undir Gyðingahatur þótt Íslendingar séu á ný í fararbroddi við það sama verk og þeir unnu að í upphafi fyrir 65 árum að í landinu verði tvö sjálfstæð ríki.

Forsetafrú okkar er Gyðingur en gera verður greinarmun á þjóðerninu og því að vera Gyðingatrúar en í okkar landi ríkir trúfrelsi og hvorki Múslimar né Gyðingartrúarfólk eiga að þurfa að óttast neitt af okkar hálfu. 

Að vísu hefur það breyst síðan 1948 að Ísraelsríki verður meira en tvöfalt stærra en það var eftir skiptinguna í upphafi þannig að erfitt er að sjá að Íslendingar hafi með stuðningi við stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna hallað á Ísraelsmenn með afstöðu sinni. 

Íslendingar eru friðsöm þjóð. Hvorki Gyðingar né Palestínumenn, sem hér búa, ættu að þurfa að vera í felum eða óttast andúð í okkar landi. 


mbl.is Efast um ótta gyðinga hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband