Ég gefst upp.

Ég gefst upp. Í fyrra gerði ég svolítinn skurk í því að fjölmiðlar losuðu sig við hið hvimleiða orðalag "bílvelta varð". Það bar örlítinn árangur í fyrstu en nú er fjölmiðlafólk komið í sama farið og fyrr í þessu efni og nokkrum öðrum þar sem virðist ekki nokkur leið að gera málfar einfaldar og rökréttara.

"Bílvelta varð" er tvisvar sinnum lengra orðalag en "bíll valt." 

"Bíll valt" er fallegra, rökréttara og helmingi styttra en "bílvelta varð".

Nú hafa birst margar fréttir í röð af því að bílar hafi oltið en ekki örlar á viðleitni til að orða þetta, þótt ekki væri nema tilbreytninnar vegna, öðruvísi en "bílvelta varð". Þetta er orðin fréttasíbylja: "Bílvelta varð." "Bílvelta varð". Bílvelta varð." 

Í annarri frétt í dag er þessu að vísu snúið við: "...svo varð bílvelta..." 

Ef um væri að ræða málfar á enskri tungu væri auðvelt að kippa þessu í lag. Það vill enginn vera lélegur í ensku.

En íslenskan virðist ekki njóta þeirrar virðingar í augum margra sem hin yfirþyrmandi enska tunga og snobb fyrir henni hefur áunnið sér. 

Það er flott, "gorgeous", að tala góða ensku en virðist vera álitið hallærislegt að gera sömu kröfur um notkun íslensks máls.

Hér með lofa ég því að minnast aldrei framar á "bílvelta varð" eða "...svo varð bílvelta."  Ég gefst upp.  


mbl.is Bílvelta við Hólmavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...svo að ekki verður betur gert..."

Ég er ekki einn um það að halda því fram að Kristinn Sigmundsson sé besti söngvari sem Ísland hefur alið og hef heyrt því haldið fram að hann sé ekki aðeins klassa ofar en aðrir, heldur tveimur klössum.

Heimildarmynd Páls Steingrímssonar um hann var löngu tímabær og honum og aðalkvikmyndatökumanninum, Friðþjófi Helgasyni, til mikils sóma. 

Ég hef kynnst Kristni nokkuð vel og hann er að öllu leyti í sérstökum metum hjá mér sem persóna og listamaður. 

Fyrir meira en áratug þegar fjölmiðlar eltu Kristján Jóhannsson verðskuldað til þekktra óperuhúsa, var það viðburður ef svo mikið sem minnst var á Kristin. 

Einu sinni kom lítil frétt í útvarpsfréttum klukkan fjögur þar sem sagt var frá því að í einu allra virtasta tónlistartímariti Evrópu hefði birst dómur um uppfærslu Töfraflautunni eftir Mozart sem Kristinn tók þátt í. 

Orðrétt sagði svo um Kristin:  "Sigmundsson söng hlutverk Sarastros þannig að betur verður ekki gert." 

Ég efast um að nokkur íslenskur söngvari hafi fengið svo góðan dóm en fréttin sú arna var aðeins sögð einu sinni og kom ekki í kvöldfréttum eða neinst staðar annars staðar. 

Ummæli nokkurra af þekktustu kunnáttumönnum erlendum um Kristin eru á eina lund: Hann er afburðamaður í listgrein sinni. 

Læt hér fylgja með eina sanna sögu af Kristni. Ég bað hann um að syngja lagið "Flökkusál" með félögum úr Fóstbræðrum fyrir samnefndan sjónvarpsþátt um Fjalla-Eyvinda fyrr og nú.

Á frummálinu heitir lagið "Wandering star" og var sungið með afar djúpri og rámri rödd Lee Marvins í samnefndri mynd. 

Kristinn sagðist verða í veiðitúr daginn fyrir upptökuna, sem var ákveðin klukkan þrjú í húsi FÍH.  Hann kvaðst vera tímabundinn og bað um að öll uppstilling yrði klár klukkan þrjú.

Ég ákvað að koma aðeins síðar til að trufla ekki Kristin við undirbúning söngsins og kom tíu mínútum yfir til að sjá hvernig gengi, því að venjulega taka svona upptökur talsverðan tíma, jafnvel klukkustundir. 

Þegar ég kom var mér sagt að Kristinn hefði komið klukkan þrjú, sungið lagið í einum rykk og farið.

Ég hlustaði á upptökuna þar sem Kristinn söng ævintýralega dimmum rómi og algerlega óaðfinnanlega. 

Ég var afar leiður yfir því að hafa ekki einu sinni kastað kveðju á þennan mikla söngvara og hafði símasamband við Kristin til að biðja hann afsökunar. Ég hefði búist við því að upptakan myndi taka mun lengri tíma og spurði hann hvort það væri satt að hann hefði sungið lagið í einum rykk og farið.

"Já," svaraði Kristinn. "Ég kom þreyttur heim seint í nótt úr veiðitúrnum og ákvað að sofa vel út og stilla vekjaraklukkuna þannig að ég færi nánast beint í hljóðverið. Þetta gerði ég til þess að röddin væri eins lág, djúp og gróf og unnt væri og ekki farin að slípast og verða mýkri." 

Ég gat ekki leynt undrun minni og sagði, sem satt var, að þetta væri alveg dæmalaust. "Hvernig má þetta verða?" spurði ég.

"Elsku Ómar minn. Mitt starf snýst um að hafa unnið heimavinnuna sína áður en farið er að syngja. Þegar ég er kominn á óperusviðið þýðir ekkert að stoppa í miðjum klíðum og biðja um að fá að byrja aftur. Mitt starf er "one take", nokkuð sem ég er að gera dögum saman  og ég gerði þetta þannig að sjálfsögðu í dag."   

 


mbl.is Mér finnst ég ekki hafa neina veikleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Litli bróðir úti á Atlantshafinu."

Það kemur ekki á óvart að norskir áhorfendur hafi reynst íslenska landsliðinu vel í leiknum við Svartfelllinga í gær. Þeir hafa löngum litið með velþóknun á landnám Norðmanna og mikil tengsl landanna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og stundum eignað sjálfum sér fullmikið af því sem Íslendingar gerðu á þeim tíma, landafundi og skrif Snorra Sturlusonar.

Þetta getur stundum komið spaugilega út. Fyrir allmörgum árum kom sú staða upp á stórmóti í handbolta að Íslendingar og Norðmenn spiluðu úrslitaleik um það hvort liðið kæmist áfram. 

Ég hlustaði á lýsingu Norðmannanna og þeir voru alveg hroðalega hlutdrægir og oft ósanngjarnir í garð íslenska liðsins, - töluðu til dæmis alltaf um "Kúbverjann" þegar Duranona skoraði, en hann átti stórleik í íslenska liðinu. 

Þannig gekk þetta þangað til um fimm mínútur voru eftir af leiknum og útséð um að Norðmenn gætu unnið upp mikinn markamun, sem orðinn var. 

Þá gerðist það skyndilega að norsku þulirnir fóru að tala afar vinsamlega um íslenska liðið og hældu því á hvert reipi. Duranona hætti að vera Kúbverjinn og varð skyndilega einn af hinu frábæra víkingaliði "frænda okkar og bræðra úti á Atlantshafinu" ! 

Voru norsku þulirnir þegar yfir lauk komnir í hástemmdan gír yfir því hve mikill heiður það væri fyrir norrænar þjóðir að íslenska liðið héldi áfram. 


mbl.is Þjálfari Svartfellinga: Vanmátum ekki íslenska liðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert viðtal.

Margt athyglisvert kom fram í viðtali Egils Helgasonar við Evu Joly í Silfrinu, ekki aðeins það að mikilvægt sé að einhverjar ákærur komi fram hjá sérstökum saksóknara.

Þegar önnur kona, Louis Crossley, var hér á landi 2005, hvatti hún græningja til að láta til sína taka hvar sem því yrði við komið og alls ekki hræðast að fara inn á svið stjórnmálanna. 

Það var á þessum forsendum sem Íslandshreyfingin - lifandi land fór fram í kosningunum 2007 þótt fyrirfram væri vitað að kosningalögin væru litlum framboðum mjög andsnúin og að hin framboðin myndu hafa yfirburði í aðstöðu og fjármagni einmitt á þeim tíma sem lítið virtist vera hægt að gera nema með miklum tilkostnaði og auglýsingamennsku. 

Í umræðum fyrir kosningarnar í fjölmiðlum tókst að koma á framfæri sjónarmiðum sem annars hefðu lítt eða ekki heyrst. 

Athyglisvert gæti verið fyrir einhvern stjórnmálafræðing að kanna hvaða áhrif þetta hafði á málflutning hinna framboðanna. 

Þau reyndu að gefa kosningaloforð í umhverfis- og náttúruverndarmálum þangað til tvær vikur voru til kosninga. 

Þá sýndist þeim þetta hafa borið þann árangur að Íslandshreyfingin næði ekki 5% lágmarkinu og settu fram heilsíðuauglýsingar í blöðunum þar sem skyndilega var ekki minnst á umhverfismál !  

Joly upplýsti að kosningaumhverfið í Frakklandi væri mjög fjandsamlegt litlum framboðum og að hún væri nokkuð ánægð með það að fá um 5% fylgi í skoðanakönnunum, vegna þess að þátttaka hennar væri viss undirstaða undir því að reyna að ná eyrum þjóðarinnar. 

Joly lýsti ágætlega hinni banvænu blöndu stjórnmála og viðskipta sem skapaði heimskreppuna. 

Meðal annars það hvernig sterkt fjármálafyrirtæki í Bandaríkjunum, sem bandarískur öldungadeilarmaður hefði rannsakað í athyglisverðri skýrslu, gæti andað rólega, því að enginn pólitískur vilji væri fyrir því að fara ofan í saumana á því máli. 

Ástæðan væri stuðningur fyrirtækisins við Obama í síðustu kosningum og loforð um stuðning í næstu kosningum. 


mbl.is Verða að fara að ákæra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þokumst í átt frá brandaranum mikla.

Það var einn af grátbroslegustu bröndurum allra tíma þegar Ísland lenti efst á lista yfir minnst spilltu þjóðfélög heims á sínum tíma. Það var vegna þess að svo virtist sem einkenni fámennisþjóðfélags fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsla væru ekki sett inn í formúluna sem notuð var.

Pólitísk spillling hefur verið landlæg hér alla tíð með tilheyrandi helmingaskiptum og hrossakaupum í banvænni blöndu stjórnmála og viðskipta sem náði hámarki í einkavinavæðingu flokkanna á bankakerfinu fyrir áratug sem leiddi til Hrunsins. 

Annar brandari á sínum tima var sá þegar við voru sett efst í flokk þeirra landa þar sem umhverfismál væru í bestu ástandi. Þar var greinilega einblínt á löggjöf, sem var sveigð eftir þörfum að vilja ráðamanna, svo að meira að segja var því lofað fyrirfram í dæmalausu plaggi sem var sent helstu stóriðjufyrirtækjum heims. 

Einnig kom í ljós þegar mér tókst að hefja út úr umhverfisráðuneytinu upplýsingaskjalið, sem sent var til hinna erlendu matsaðila, að í mjög mikilvægum dálki, "ástand jarðvegs og gróðurs" sendi Ísland inn þessa tvo bókstafi: "NA", þ. e. upplýsingar eru ekki fyrir hendi. 

Þetta var gert þótt Ólafur Arnalds hefði nokkrum árum fyrr fengið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nákvæmlega þetta, að vinna bestu upplýsingar um ástand gróðurs og jarðvegs sem fyrirfundust á byggðu bóli ! 

Önnur lönd sem sendu inn "NA" voru til dæmis Úkraína og fleiri Austur-Evrópulönd sem voru með allt í steik á þessu sviði ! 

 


mbl.is Ísland 13. minnst spillta ríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband