Værum við enn í svart-hvítu ?

Það, að sjónvarpsútsendingar náist ekki á 80 sveitabæjum leiðir hugann að því þegar ákveðið var að fara úr svart-hvítri dagskrárgerð og fréttamyndum í litasjónvarp fyrir um 35 árum.

Þetta vakti mótmæli margra, sem töldu að hér væri röng forgangsröðun viðhöfð, - fyrst ætti að klára að koma útsendingum sjónvarpsins til allra sveitabæja á landinu áður en farið væri út í litvæðinguna.

Einnig heyrðust þau rök að litasjónvarp gerði fólk afkáralega rautt og fjólublátt í framan.

Hið síðarnefnda byggðist á misskilningi varðandi litasamsetninguna, því að alþingismaðurinn, sem hélt þessu fram, miðaði við sjónvarpssendingar í Bandaríkjunum í upphafi sjónvarps þar, en ekki við litasamsetninguna í PAL-kerfinu, sem við þekkjum vel að er í góðu lagi. 

Í byrjun notuðu Bandaríkjamenn hárrauðan lit sem einn af þremur grunnlitum útsendingarinnar en í PAL-kerfinu er rauði grunnliturinn heldur ljósari af því að það gefur betri möguleika á að ná fram réttum húðlit fólks þótt hann geti gert erfitt að skila hárrauðum lit í örfáum tilfellum. 

Gaman er að spila aftur rökræðurnar um þetta í Kastljósi á sínum tíma. Þá kom fram hjá framkvæmdastjóra Sjónvarpsins að svo firna dýrt yrði að setja upp sendistöðvar sem næðu öllum sveitabæjunum að það væri ekki raunhæft. 

Sú spurning vaknar því hvort við værum ennþá með svart-hvítar útsendingar ef kröfum þeirra hefði verið sinnt, sem ekki vildu litasjónvarp fyrr en sjónvarpssendingum á alla sveitabæi landsins.

Það hefur nefnilega ekki tekst enn. 

Hitt hlýtur að vera sanngirnismál að þeir, sem eiga lögheimili og búa á þessum 80 sveitabæjum sleppi við að borga fyrir þjónustu sem þeir geta sannanlega ekki fengið. 

 


mbl.is Um 80 sveitabæir ekki með RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnumst gylliboðanna 1945.

1945 vildu Bandaríkjamenn leigja Keflavíkurflugvöll, Skerjafjörð og Hvalfjörð til 99 ára til þess að hafa þar herstöðvar.

Þetta virtist vera mikið gylliboð. Fyrirsjáanlegt var að gjaldeyririnn sem Íslendingar höfðu safnað erlendis, myndi aðeins endast í örfá ár (sem og varð), að efnahagssamdráttur yrði í Evrópu næstu árin með tilheyrandi höftum og atvinnuleysi (sem og varð) og að með tryggri atvinnu Íslendinga, umsvifum við þessar þrjár herstöðvar og tekjur í kringum þær myndi þjóðinni vel borgið fjárhagslega. 

Aðeins Jónas frá Hriflu og nokkrir aðrir vildu ganga til samninga við Bandaríkjamenn um framtíðaraðstöðu þeirra hér,  en að öðru leyti voru allir stjórnmálaflokkarnir sammála um að hafna því. 

Minnt var á að 99 ára leiga jafngilti landaafsali til allrar framtíðar.

Nú heyrast raddir um það að Huang Nabo taki Grímsstaðajörðina á leigu til 99 ára. Það jafngildir í raun að selja honum jörðina. 

Allir flokkar eru sammála um að útlendingar megi ekki eignast meirihluta í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hið sama ætti að gilda hið minnsta varðandi eignarhald á auðlindunum og stórum bújörðum eða þann möguleika að útlendingar eða íslenskir stóreignamenn eignist smám saman meirihluta jarða í heilu sveitunum og þar með sveitirnar sjálfar. 

Ef um leigu er að ræða þarf tímabilið að vera miklu styttra en 99 ár, helst ekki meira en 30 ár með möguleika á endurnýjun en þó ekki skyldu til þess. 

Ég minni á næsta bloggpistil minn á undan þessum pistli.

Við hann má bæta að Huang Nubo hefur upplýst í viðtali við danskt blað að forseti Íslands og utanríkisráðherra hafi greint honum frá hugsanlegum breytingum á hafísnum á norðurslóðum sem muni gerbreyta legu Íslands varðandi sjóflutninga.

Þetta mun varla hafa dregið úr áhuga hans á að fjárfesta í uppbyggingu í ferðaþjónustu á þeim hluta landsins sem kann að fá stóraukið vægi á næstu áratugum.  


mbl.is Hurð skall nærri hælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðausturland: Land möguleikanna ?

Allar götur frá landnámi hefur suðvesturhluti Íslands verið þungamiðja búsetu og valds. Meginástæðan var lengst af sú að Suðurlandsundirlendið og Borgarfjörður mynduðu saman stærstu og blómlegustu landbúnaðarhéruð landsins og að austasta brúklega höfnin á þessu svæði var við Eyrarbakka.

Á suðaustanverðu landinu var hafnleysi fjötur um fót og mesta hraungos Íslandssögunnar hafði sent hraunbreiður niður undir sjó í Álftaveri og Meðallandi. 

Þingvellir voru af samgöngulegum ástæðum valdir sem löggjafarstaður á öxlinum Borgarfjörður-Suðurland. 

Síðar kom Skálholt sterkt inn en á nítjándu öld tók Reykjavík við fyrra hlutverki Þingvalla.

Á stríðsárunum var talið nægja að ráða yfir höfnunum við sunnanverðan Faxaflóa og Eyjafjörð til þess að halda yfirráðum yfir öllu landinu, og gerð flugvallanna í Reykjavík og á Miðnesheiði tryggði enn frekar sess höfuðborgarsvæðisins sem nú nær sem atvinnusvæði upp í Borgarfjörð, suður á Suðurnes og austur að Þjórsá. 

En opnun siglingaleiða og hugsanlegur fundur olíulinda fyrir norðaustan land munu geta breytt þessu ástandi verulega. Þá mun norðaustanvert landið fá stóraukna þýðingu og verðmætin liggja í sjávarjörðum og flugvallarstæðum. 

Nú þegar er kominn alþjóðlegur flugvöllur á Egilsstöðum sem tiltölulega auðvelt er að stækka með því að lengja flugbrautina. 

Hins vegar er það galli að brautin er aðeins ein og kann að reynast nauðsynlegt að koma upp öðrum stórum flugvelli með flugbraut sem liggur frá suðaustri til norðvesturs. 

Slík flugvallarstæði er að finna norðan við Þórshöfn á Langanesi og - merkilegt nokk, við Grímsstaði á Fjöllum. Grímsstaðir liggja að vísu ekki nálægt sjó en eru miðja vegu á milli Akureyrar og hugsanlegrar stórhafnar við Bakkaflóa, rétt eins og Þingvellir eru á línunni Borgarfjörður-Suðurland. 

Það voru eingöngu samgöngulegar aðstæður sem réðu því að Þingvellir urðu fyrir valinu sem þingstaður en ekki það að þar væri blómleg byggð. 

Á sama hátt geta Grímsstaðir orðið heppileg samgöngumiðstöð af því að vegna viðkvæms lífríkis og einstæðrar náttúru Mývatns getur samgöngumiðstöð með stórri byggð ekki risið þar. 

Grímsstaðir liggja á krossgötum því að þaðan liggja leiðir vestur til Akureyrar, austur til Vopnafjarðar og Egilsstaða og ferðamannaleið suður á norðurhálendið. 

Grímsstaðir hafa líka þann kost að vera við jaðar norðuröræfanna en ekki inni á þeim. 

Að sitja við kort og skoða samgönguleiðir og byggðir á Norðausturlandi er svipað og að koma að skákborði þar sem enginn taflmaður hefur ennþá verið hreyfður en hugsanlegt að upp komi sú staða að leika þurfi þeim í skák, þar sem þarf að vera búið að hugsa marga leiki og marga möguleika fyrirfram.


mbl.is Írar horfi til Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband