Minnumst gylliboðanna 1945.

1945 vildu Bandaríkjamenn leigja Keflavíkurflugvöll, Skerjafjörð og Hvalfjörð til 99 ára til þess að hafa þar herstöðvar.

Þetta virtist vera mikið gylliboð. Fyrirsjáanlegt var að gjaldeyririnn sem Íslendingar höfðu safnað erlendis, myndi aðeins endast í örfá ár (sem og varð), að efnahagssamdráttur yrði í Evrópu næstu árin með tilheyrandi höftum og atvinnuleysi (sem og varð) og að með tryggri atvinnu Íslendinga, umsvifum við þessar þrjár herstöðvar og tekjur í kringum þær myndi þjóðinni vel borgið fjárhagslega. 

Aðeins Jónas frá Hriflu og nokkrir aðrir vildu ganga til samninga við Bandaríkjamenn um framtíðaraðstöðu þeirra hér,  en að öðru leyti voru allir stjórnmálaflokkarnir sammála um að hafna því. 

Minnt var á að 99 ára leiga jafngilti landaafsali til allrar framtíðar.

Nú heyrast raddir um það að Huang Nabo taki Grímsstaðajörðina á leigu til 99 ára. Það jafngildir í raun að selja honum jörðina. 

Allir flokkar eru sammála um að útlendingar megi ekki eignast meirihluta í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hið sama ætti að gilda hið minnsta varðandi eignarhald á auðlindunum og stórum bújörðum eða þann möguleika að útlendingar eða íslenskir stóreignamenn eignist smám saman meirihluta jarða í heilu sveitunum og þar með sveitirnar sjálfar. 

Ef um leigu er að ræða þarf tímabilið að vera miklu styttra en 99 ár, helst ekki meira en 30 ár með möguleika á endurnýjun en þó ekki skyldu til þess. 

Ég minni á næsta bloggpistil minn á undan þessum pistli.

Við hann má bæta að Huang Nubo hefur upplýst í viðtali við danskt blað að forseti Íslands og utanríkisráðherra hafi greint honum frá hugsanlegum breytingum á hafísnum á norðurslóðum sem muni gerbreyta legu Íslands varðandi sjóflutninga.

Þetta mun varla hafa dregið úr áhuga hans á að fjárfesta í uppbyggingu í ferðaþjónustu á þeim hluta landsins sem kann að fá stóraukið vægi á næstu áratugum.  


mbl.is Hurð skall nærri hælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bandaríkjamenn hafa treyst stöðvar sínar
í Ástralíu, Indlandi og Japan.
Þetta er svar þeirra við auknum umsvifum Kínverja;
hugsanlegri ógn úr austri eða af hendi konunga
"...sem koma úr austri." (sbr. Opinberunarbókina 16:12)

Jónas frá Hriflu er sannanlega sá garpur sem Íslandssagan
geymir enn hvað best og ekki að ástæðulausu því áhrif
hans og framsýni spannaði nærfellt heila öld.

Ekki þarf að minna á að þrátt fyrir leigu til 99 ára
voru ákvæði í Varnarsamningnum um endurskoðun
og á það reyndi að lokum.
Leiga og sala tæpast lögð að jöfnu. 

Húsari. (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 16:12

2 identicon

„Ekki þarf að minna á að þrátt fyrir leigu til 99 ára....“

Eitthvað hefur Húsari mislesið bæði varnarsamninginn og ekki síður pistil Ómars.  Tilboði Bandaríkjamanna um leigu á landi til 99 ára var nefnilega hafnað af öllum stjórnmálaflokkum.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 16:19

3 identicon

Útlendingar eiga bara ekki að eiga land á Íslandi, púnktur og pasta.

Þetta er ekkert flókið dæmi, ef menn hugsa sig vel um.  Hr. Njósnari Kínverska Kommúnistaflokksins, heðan af kallaður Núbo. Þarf ekkert að kaupa jörð, til að geta sett þar á fót eitt eða neitt.  Til eru handbærar leiðir, til að framkvæma þetta, og er gert gegnum Íslenskt fyrirtæki.  Ef Núbo, hefði "hagnað" í huga, færi hann þessar leiðir.

Mr. Núbo er meir í mun að verða sér úti um jörð, en að hagnast á einhverju.  Og hvað ætlar hann að gera þar, setja upp hótel uppi á öræfum? Alveg blöskrar mér að fólk haldi þetta raunverulegt dæmi hjá kallinum.  Ég er alveg viss um, að hann gæti fengið nógu marga Kínverja til að koma þangað ... góða samherja kínverska kommúnistaflokksins, til að láta þetta líta raunverulega út.  En eru menn bara með fulla fimm? Dettur einhverjum heilvita manni í hug, að það sé þetta sem fyrir honum vaki?

Eins og ég segi, ef það væri þetta sem fyrir honum vakir ... færi hann í gegnum Kínversk-Íslenska sem væri Íslenskt fyrirtæki, og ætti þar 49% hlutafjár og gæti látið fyrirtækið eignast jörðina. 

Er þetta það sem maðurinn er að gera? Nei.

Og golf völl? sko, ef menn hefðu farið að setja upp gólf völl fyrir 20 árum síðan væri þetta fín hugmynd ... en golf er í dag, á niðurleið ... eða eru menn svo illa gefnir að þeir haldi að þetti verði Iceland Open, sem verði haldið þar í hríðarbil og illviðri?

Ísland á með lögum að bggja ... ekki með undanþágum fyrir vini og vandamenn.  Það eru slíkar undanþágur sem komu Íslendingum í bobbann.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 16:44

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Eignarhald og sjálfstæði eru tvær hliðar á sama teningnum. Það eiga allir að hafa jafnan lögvarinn rétt til að eignast eitthvað, hvort sem það er á landi eða í sjó. Allir landsmenn skulu vera jafnir fyrir lögum, segir stjórnarskráin.

Ég las síðasta pistilinn þinn. Þú hefur mikla þekkingu á svo mörgu, og meðal annars þessu landssvæði, og möguleikunum sem þar er að finna í framtíðinni. Ekki hef ég vit á flugsamgöngu-möguleikum, en það hefur þú. Þess vegna trúi ég að þú hafir rétt fyrir þér, þangað til annað kemur í ljós. Enginn hefur alltaf rétt fyrir sér, því það er ekki mannlegt.

Það þarf að ræða þessi mál mikið, og taka tillit til ólíkra sjónarmiða og skoðana allra, og muna að gagnrýna af heiðarleika og til gagns fyrir allan almenning.

Eftir því sem ég velti fleiri sjónarhornum fólks fyrir mér, og áhrifum af hlýnuninni, þá verður mér betur ljóst að Grímsstaðir á Fjöllum verður orðin sólar-paradís eftir einhver ár, með sama áframhaldi á hlýnun í norðri. Það hlýnar væntanlega ekki bara sjórinn, heldur veðráttan á landi líka?

Er þetta ekki rökrétt ályktun?

Ég hef ekki vit á þessu, en held samt að svona hljóti þetta að verða.

En það þarf að stíga varlega til jarðar í þessu máli eins og öðrum, og rökræða heiðarlega eftir bestu þekkingu, getu og vilja, og hlusta á allar hliðar málanna.  

Vegaslóðin verður til meðan við göngum ótroðnar slóðir, og farsælustu lausnirnar verða til meðan við rökræðum af heiðarleika og virðingu.

Við verðum að standa saman í þessari vegferð, ef við eigum að ná farsælum árangri fyrir heildina. Og til að ná að standa saman, þurfum við að læra að virða ólík sjónarmið, og rökræða þau af yfirvegun og tillitssemi, óháð pólitískum flokka-sjónarmiðum.

Flokkur réttlætis tæki tillit til ólíkra aðstæðna og réttlátra, ólíkra sjónarmiða almennings, en er sá flokkur til? Höfum við eitthvað betra markmið en réttlæti á þessum erfiðu tímum, og reyndar alltaf? Þurfum við að fara eftir fallinni hugmyndafræði  pólitískra tortímingarafla heimsins, spyr sá sem ekki veit?

Það er mjög erfitt lærdóms-verkefni fyrir þjóð, sem þekkir best þá fortíð að flýja undan eldgosum, harðindum, fátækt og sjúkdómum, að læra eitthvað annað en skyndi-neyðarlausnir undir gríðarlegu fátæktar-kuldavosbúðar-álagi. Það er ekki langt síðan almenningur á Íslandi stóð í slíkum sporum. Það er hægt að læra umburðarlyndi og rökræður, ef vilji er fyrir lýðræði og réttlæti hjá þessari þjóð. 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.12.2011 kl. 16:46

5 identicon

Sæll Ómar

Mig langar til þess að viðra aðeins skoðanir mínar á jarðamálunum, sem nú eru í umræðunni. Ég vonast til þess að þú getir tekið þetta upp á nýjum þræði, þ.e. ef þér finnst þetta áhugavert.

Í mörg ár hafa þessi mál verið mér ofarlega í huga en því miður hefur mér fundist að fáir hafi haft nokkurn áhuga á þessu, a.m.k. ekki stjórnmálamenn. Ég fékk óbragð í munnin þegar athafna(glæpa?)mennirnir í Lífsval ehf. voru að kaupa jarðir út um allt land fyrir sitt illa fengna fé, ef eitthvað var þá greitt út. Þeir komu oft við á vinnustað mínum á Borgarnesi.

Það er ekkert óeðlilegt að útlendingum sé/verði meinað að kaupa risajarðir á Íslandi. Þetta er sjálf höfuðauðlindin og hún er metin á nánast ekki neitt hér á Íslandi og eru þessar upphæðir aðeins skiptimynt fyrir auðmenn og auðhringi. Það sama á við um íslenska “athafnamenn” sem vilja jarðirnar fyrir leikvöll fyrir sig og vini sína.

Ég er landfræðingur að mennt og hef unnið mikið við kortagerð og skipulagsvinnu á Vesturlandi, en einnig komið að afmörkun stórjarða á Vesturlandi. Ekki voru það geðugustu menn sem ég hef hitt, þessir svokölluðu landeigendur stærstu jarða landsins, sem eru, vel á minnst, að langmestu óbyggðir og öræfi. Kalmanstunga á Hvítársíðu nær t.d. yfir um 700 ferkílómetra lands, að mestu hálendi, hraun og eyðisandar. Sem sagt, eign allra Íslendinga, ekki satt? Ég held reyndar að engin réttsýnn maður viðurkenni jarðamörk þessara jarða, nema auðvitað einhverjar höfðingjasleikjur (þar fór Óðinn Sigþórsson fremstur í flokki, sá sem kærði stjórnlagaþingið).

Eigandi Kalmanstungu kannaðist ekki við marga af stöðunum í "landinu sínu" þegur við skoðuðum loftmyndirnar með honum. Hann hafði þó hátt um það að Eiríksjökull væri stærsta þúfan í landinu sínu. Hrokinn og frekjan var algjör.

Margar aðrar risajarðir eru til á landinu, t.d. Úthlíð í Biskupstungum, Brú á Jökuldal, Húsafell, Reykjahlíð í Mývatnssveit o.s.frv. Það sem allar þessar risajarðir eiga sameiginlegt, er sú staðreynd að aðeins lítill hluti þeirra er á láglendi, en langstærsti hluti þeirra eru óbyggðir og öræfi sem landeigendur hafa engin not fyrir. Fyrir utan það að rukka þá sem vilja veiða fiska í heiðavötnum sem þeir telja að heyri undir sig, nú eða rukka þá sem skjóta gæsir langt upp á fjöllum. Það eru gæsirnar þeirra.

Ég er þó aðeins náttúruunnandi og veiði ekkert, nema þá helst fisk með litlu drengjunum mínum. Þó er vissara, þegar maður er í útilegu lengst uppi á fjöllum, að vera viss um fjallavatnið sé ekki í einkaeigu einhvers bónda. Til dæmis er Langisjór, sem er í u.þ.b. 700 metra hæð yfir sjó, leigður út til einhverra veiðimanna á Suðurnesjum, af bóndanum sem telur fjallavatnið fagra heyra undir sig. Þar, á eyðisöndunum, rakst ég einu sinni á rollur sem voru að éta síðustu gróðurleifarnar, eflaust í eigu sama bóndans. Þar komum við að næsta þjóðþrifamáli, sem er bann við lausagöngu sauðfjár. Það mál, er mikilvægasta hagsmunamál íslenskrar náttúru. Það veit ég sem náttúrufræðingur og allir þeir sem koma að landgræðslu. Það er eitt af stóru málunum sem aldrei má tala um.

En látum það bíða í bili, nú eru jarðasölurnar í sviðsljósinu.

Ég hef beðið eftir þessu augnabliki í mörg ár, þ.e. kaupum útlendinga á einni af risajörðum landsins, með hnút í maganum. Ég veit hvað þær (jarðirnar) eru margar og ég hef hitt nokkra af eigendunum. Þeir telja öræfi og eyðidali vera eign sína og selja þetta bara ef þeir fá nógu mikinn pening. Ég hef lengi talað fyrir því að það þurfi að fara fram heildarendurskoðun á stærstu jörðum Íslands, þar sem svo margar þeirra eru að mestum hluta óbyggðir. Mest af tali mínu hefur þó verið bundið við eldhúsborðið.

Þessir svokölluðu landeigendur vitna í Landnámu þegar efast er um réttmæti þess að þeir eigi heiðalönd og fjallavötn, en mannréttindadómstól Evrópu þegar talað er um að skila landinu aftur til réttmætra eiganda, þ.e þjóðarinnar.

Það besta af öllu er þó það, að jarðaeigendur borga engin lóðagjöld fyrir jarðir sínar. T.d. er land Gilsbakka á Hvítársíðu u.þ.b. 6600 hektarar, þ.e. um 66 ferkílómetrar. Sú jörð er engin öræfajörð, heldur er hún stútfull af hlunnindum. Lóðamat fyrir þetta land er rúmar tvær milljónir samkvæmt FMR, þetta er jörð sem myndi seljast fyrir mörghundruð milljónir, ef ekki milljarð. Ein af bestu jörðum landsins.

Lóðamat/jarðamat Kalmanstungu er einnig í kringum 2 milljónir.

Sem sagt, jarðir landsins eru einskis virði samkvæmt FMR og landeigendur borga ekkert fyrir þessa auðlind, þó hlunnindin geri þá marga að ríkum mönnum. Við hin getum þó þakkað fyrir það að mega ferðast um jörðina, þ.e. göngufólki er heimil för um landið. Þvílíkir höfðingjar.

Þessi barátta er rétt að hefjast og mun eflaust oft verða vælt um hin heilaga eignarétt, jafnvel þó verið sé að tala um eignarétt á einhverju sem viðkomandi á ekkert tilkall til.

Sjálftökusamfélagið er ekki bundið við síðustu tvo áratugi. Það hófst um leið og menn settust að á eyjunni fögru.

Svona til að botna þetta, þá lifi ég eftir þeirri lífsspeki að engin eigi land. Hugmyndin eru í raun fáránleg. Við höfum einungis tímabundin umráðarétt yfir því. Slíkar skoðanir mega hinsvegar ekki fara hátt í því frekju- og peningasamfélagi sem við búum í.

Kveðja,

Stefán Þórsson, landfræðingur

Stefán Þórsson (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 17:16

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Landeigendur eru eins misjafnir og þeir eru margir en það má til sanns vegar færa að við sjálfir, Íslendingar, höfum því miður reynst fullfærir um að fara illa með landið og hefur ekki alltaf þurft þátttöku útlendinga í því.

Jarðvegur og gróður eru til dæmis ákaflega illa farinn á Hólsfjöllum af völdum ofbeitar og þurfti ekki útlendinga, hvað þá Kínverja til þess.

Þess ber þó að geta að blaðinu hefur verið snúið við á undanförnum árum en hin hræðilegu rofabörð á stórum svæðum beggja vegna Jökulsár á Fjöllum bera æpandi vitni um það sem á undan hefur gengið.

Þetta breytir þó ekki því meginatriði í mínum huga að auðlindir okkar og land megi ekki renna úr greipum okkar til útlendinga.   

Ómar Ragnarsson, 5.12.2011 kl. 18:43

7 identicon

Atlantshafssáttmálinn(Norður-Atlantshafssamningur)var undirritaður
í Washington, D. C., 4. apríl 1949.
Sáttmálinn tók gildi hinn 24. ágúst 1949 (fullgildingardagur), þegar öll
aðildarríki höfðu staðfest hann.

Varnarsamningurinn milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins var undirritaður hinn 5. maí 1951.

Margur leit svo á að hér væri einn og sami hluturinn á ferðinni
en leiktjöld önnur en í upphafi var lagt af stað með.

 

 

 

Húsari. (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 18:43

8 identicon

Takk fyrir svarið Ómar.

Jú, vissulega eru landeigendur misjafnir eins og annað fólk. En hvað finnst þér um hinar fráleitu eignakröfur/jarðamörk á öræfajörðunum, eins og ég kom inná í textanum áðan?

Finnst þér í takt við nútímann að heiðalönd og eyðidalir séu í einkaeigu?

Kveðja,

Stefán Þórsson

Stefán Þórsson (IP-tala skráð) 5.12.2011 kl. 19:43

9 identicon

Það er morgunljóst að verðmat á landi er út úr kú.

Þetta gefur færi á því að landeigendur geta legið á landi í nágrenni þéttbýlis, borgað því sem nær engin gjöld af eigninni en síðan selt landið á hundraðföldu því verði sem fært er til bókar í opinberum pappírum.

Danir hafa annan hátt, verðmeta land í samræmi við raunvirði. Þetta veldur því að eigandi lands sem orðið er vænlegur kostur undir þéttbýli þarf að greiða af því mikinn eignaskatt ef landið er metið mjög verðmætt. Slíkir landeigendur hafa því hag af því að selja landið fljótlega eftir að verðið hækkar til að losna undan eignaskattgreiðslum.

Þetta er mjun heilbrigðari samfélagssáttmáli en hér erí gildi.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 08:30

10 identicon

Sunnanvindur, ég svara þér.

Það er afar erfitt að bera saman Danskar og Íslenskar aðstæður hvað varðar land.

"Landeigendur" sem "liggja" á landi í nágrenni þéttbýlis geta þá að þínu mati verið hrekktir á brott af því að þéttbýlið er að þenjast út. Skattaðir á braut eða út í horn?

Ég sé ekkert heilbrigði í því, en vissulega er tækifæri til að skoða byggðarstefnu Dana og búskaparstefnu, sem var flott fyrir 20 árum eða svo, - veit bara ekki hvert ESB hefur fært hana.

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 08:45

11 identicon

Danirnir eru að beita skattkerfinu til að tryggja eðlilegan framgang samfélagsins. Þeir hafa búið þétt um aldir og kunna þetta.

Það er ekkert eðlilegt að landeigendur komist í sjálftöku á fé vegna þess að samfélagið er að þróast. Í því dæmi sem ég setti upp er ekki verið að hlunnfara landeigandann sem hefur af þessu ásættanlegan arð.

Það er hinsvegar búið að koma í veg fyrir sjálftökuna sem virðist æsti draumur margra mörlanda.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 10:39

12 identicon

Danir hafa nú ekki verið að auka sinn mannfjölda síðustu áratugina líkt og Íslendingar, - þ.e.a.s. í prósentum. Aðeins frjósamari en Svíar og Þjóðverjar, og svo í sama innflutningspottinum hvað varðar Arabaríki.

Landeigendur á Íslandi eru margir stórskuldugir, og ekki á það bætandi, ef að stórskuldug byggðarbóla í grennd á að spóla yfir þá metnum skattskuldum.

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.12.2011 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband