Vandi á höndum.

Síðan Hæstiréttur Íslands tók til starfa fyrir rúmum 90 árum og allt til ársins 2009, hafa aðeins ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki , eða Framsóknarflokki skipað dómara þar.

Þetta er með hreinum ólíkindum og manni verður jafnvel hugsað til Sovétríkjanna sálugu þar sem það var skylt, að dómarar væru í Kommúnstaflokknum. 

Aðrir flokkar hafa að vísu verið í stjórnarsamvinnu eða samsteypustjórnum með þessum tveimur flokkum í alls 48 af þessum árum en ævinlega beygt sig fyrir kröfum hægri flokkanna um að þeir fengju dómsmálaráðuneytið. 

Þetta ástand, nær níu áratuga einokun tveggja flokka á dómsmálaráðuneytinu, hefur ekki aðeins verið á ábyrgð þeirra tveggja flokka, heldur líka hinna flokkanna, sem aldrei höfðu bein í nefinu eða áhuga á því að breyta þessu ástandi. 

Minnihlutastjórnir Alþýðuflokksins 1959-60 og í rúma þrjá mánuði yfir áramótin 1979-80, breyttu engu um þetta ástand, því að þessar stjórnir sátu svo stutt. 

Nú kemur það allt í einu inn á borð innanríkisráðherra úr röðum VG að ráða þrjá dómara á einu bretti. 

Ég minnist þess hve maður varð oft vonsvikinn, þegar vinstri flokkarnir komust í stjórn eftir að hafa gagnrýnt harðlega pólitískar ráðningar að þeir tóku upp sama háttinn. 

Afsökunin var hugsanlega sú, að vegna þess hve vinstri stjórnir sætu samtals styttra en hægri stjórnir, þá þyrfti að taka rækilega til hendi til þess að vega upp á móti slagsíðunni sem myndast hefði. 

Þetta fannst mér ævinlega vera aumingjaleg rök og ónýt og nú vona ég að eftir níu áratuga gamalt ástand verði ekki freistast til að reyna að "vega upp á móti" neinu, heldur ráðið á fullkomlega faglegan hátt í þessar þrjár stöður. 

 


mbl.is Þrjú hæstaréttardómaraembætti auglýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleit hækkun.

Rétt í kjölfar þess að starfsmenn við loðnubræðslur urðu að sætta sig það að ekki væri aðstaða fyrir þá að krefjast launahækkunar kemur ákvörðn Kjararáðs eins og köld vatnsgusa framan í þjóðina.

Hægt er að benda á ótal svið opinberrar þjónustu og starfa hjá fyrirtækjum þar sem fólki hefur bæði verið sagt upp og þeir, sem eftir voru, hafa orðið að taka á sig bæði launalækkun og aukið starfsálag. 

Viðbótarlaun hvers hæstaréttardómara nema um hálfum launum þúsunda fólks, sem tók á sig launalækkun í kjölfar Hrunsins. 

Nær daglega berast fréttir um ævintýralega fjármagnsflutninga þeirra, sem voru í aðstöðu til að stunda milljarða tilfærslur rétt fyrir Hrun, og það virðist sem hugsunarhátturinn, sem leiddi til Hrunsins, hafi síður en svo látið undan. Því miður. 


mbl.is BSRB átelur launahækkun dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn meira utangarðs.

Framfarirnar í kjölfar aukinnar fjarskiptatækni, svo sem á netinu, eru næsta byltingarkenndar og fela í sér miklar framfarir. Að sama skapi verður allstór þjóðfélagshópur, sem ekki nýtur þessara framfara, æ meira utangarðs.

Þarna er einkum um að ræða gamla fólkið og mjög fátækt fólk sem á erfitt eða ómögulegt með að komast inn í þetta himnaríki fjarskiptanna. 

Rafræn þjónusta og samskipti færast sífellt í vöxt og valda því oft á tíðum, að fólk verður algerlega afskipt á ýmsum sviðum þegar önnur samskipti í gamla stílnum eru lögð niður. 

Ég er að uppgötva það fyrir alvöru þessa dagana að ástæðan fyrir því að ég fæ með reglubundnu millibili innheimtuseðla frá Intrum, sem nú heitir Mótus, frá ákveðinni stofnun í Reykjavík er sú,  að í gangi er einhvers konar sjálfvirk innheimta á gjöldum, sem ég fæ aldrei að vita hver eru og fæ aldrei neina tilkynnningu senda um að ég skuldi nýja og nýja skuld, heldur eingöngu innheimtuseðil frá Motus. 

Þó telst ég vera sæmilega tengdur á netinu. 

Mér verður hugsað til þeirra sem hafa enga nettengingu og eru ekki á facebook. Þetta fólk verður smám saman algerlega utanveltu í þjóðfélaginu og missir mannréttindi í raun. 

Það er dapurlegt, því að einmitt þetta fólk þarf kannski mest á því að halda að vera í sambandi við ættingja sína, vini og þjóðfélagið í heild.


mbl.is Nýir möguleikar á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband