Í hlekkjum hugarfarsins.

Baldur Hermannsson gerði fyrir um tveimur áratugum merkilega sjónvarpsþætti sem báru nafnið "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins". Þeir ollu miklum deilum, enda fór Baldur stundum glannalega langt í framsetningu sinni, stundum jafnvel of langt. 

En grunnhugsun þáttanna var að mínum dómi rétt: Ríkjandi valdastétt á Íslandi hélt þjóðinni öldum samana í helgreipum hlekkja hugarfars, sem íslenskur aðall, stórbændur og embættismenn, stóðu dyggan vörð um til að viðhalda jafnvel meiri forréttindum en danskur aðall hafði í sínu landi. 

En hlekkir hugarfarsins voru, eru og verða til á öllum tímum. 

Stjórnmálamenn og hagspekingar heimsins eru fastir í hlekkjum hugarfarsins, sem skapað hefur velsæld og auð hjá mörgum þjóðum þótt meirihluti mannkyns hafi farið á mis við það.

Þessi velsæld hefur byggst á því að ganga í skefjalausu bruðli á auðlindir jarðarinnar og halda uppi stöðugum og endalausum hagvexti sem töfralausn og undirstöðu "hinna amerísku lífshátta", sem allar þjóðir þrá að tileinka sér.

Nú síðustu ár hafa Kínverjar tileinkað sér þetta hugarfar og stefna að því að verða mesta efnahagsveldi heimsins. 

Krafan um sífellt meiri hagræðingu, sem byggist á endalausum tækniframförum, felur í sér þá mótsögn að færri störf þarf í framleiðslu og þjónustu sem aftur leiðir til þess að störfum fækkar og atvinnuleysi eykst. 

Vaxandi atvinnuleysi þýðir vaxandi óhamingju, ójöfnuð, glæpi, óróa og ófrið. 

Nú stefnir óhjákvæmilega í hrun þess sem þetta hugarfar hefur skapað. Hámarki olíualdarinnar hefur verið náð og leiðin getur aðeins legið í eina átt: Nður á við. Þeim mun meira sem verður reynt að dæla úr þverrandi olíuforða jarðar, því hraðara verður hrunið.

Fyrir hvert tonn af olíu, sem finnst í nýjum olíulindum, minnkar forði þekkts orkuforða núverandi olíulinda um minnst sex tonn. 

Æ dýrara verður auk þess að vinna olíuna úr nýju lindunum. 

Eina þjóðin, sem virðist ætla að reyna að minnka skellinn þegar olíulindir hennar þverra, eru frændur okkar, Norðmenn.  Þeir leggja 70% olíuteknanna fyrir til þess að eiga til mögru áranna á sama tíma sem þjóðir heims keppast við að auka skuldabyrðar sínar til þess að viðhalda neyslunni, sem knýr átrúnaðinn mikla, hagvöxtinn. 

Kínverjar hafa að vísu veitt gríðarlegum fjármunum til Vesturlanda í formi lána og fjárfestinga, en að öðru leyti sigla þeir sömu siglingu og aðrir, fastir í hlekkjum hugarfars hins takmarkalausa framleiðsluvaxtar og bruðls með auðlindir.

Við Íslendingar eigum þrátt fyrir allt meiri möguleika en flestar aðrar þjóðir til þess að breyta orkunotkun okkar yfir í iinnlenda og hreina orkugjafa, en erum að miklu leyti líka fastir í hlekkjum hugarfaris græðgi, skammsýni og tillitsleysis gagnvart komandi kynslóðum, - hugarfarinu sem leiddi til Hrunsins og virðist ætla að halda velli. 


mbl.is Áhyggjur af atvinnuleysinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alhæfingar eru varasamar.

Alhæfingar eru oft varasamar en eiga samt ekki að koma í veg fyrir að rætt sé um meginlínur ákveðinna mála eins og kvótakerfið.

Nokkrar staðreyndir varðandi það verður ekki komist hjá að ræða og kryfja til mergjar.

Hér skulu aðeins nefnd þrjú atriði, sem komið hafa fram á síðustu dögum í viðtölum við Kristin Pétursson og Kristin H. Gunnarsson, en athyglisvert er að báðir hafa verið þingmenn fyrir "kvótaflokkana tvo" sem stundum eru kallaðir svo, og atriðin, sem Kristinn nefnir, komu upphaflega á hans borð þegar hann var fulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn í nefnd sem endurskoðaði kvótakerfið. 

1. Leiguliðar veiða 40% aflans en eigendurnir gera það ekki heldur græða á því að verðinu á kvótanum er haldið svimandi háu. Það er aðeins stigsmunur  en ekki eðlismunur á þessu og því þegar 90% bænda voru leiguliðar en 10% bænda áttu allar jarðirnar með tilheyrandi misskiptingu og ranglæti. 

2.  Verð á kvóta hefur margfaldast á 15 árum og hefur orðið þrisvar til fjórum sinnum hærra en í nágrannalöndunum. 

3.  Framleiðni, miðað við vinnuafl, hefur aukist um 40% í fiskvinnslunni á sama tíma og hún hefur staðið í stað hjá útgerðinni, þrátt fyrir allt talið um þá hagræðingu, sem kvótakerfið eigi að hafa í för með sér. Útgerðin er líka miklu meira skuldsett en fiskvinnslan. 

Að sumu leyti er nú í gangi svipuð þróun og fyrir einni öld þegar útgerðin fluttist frá úteyjum og útskögum allt í kringum landið og inn til fjarðanna. 

 Munurinn er hins vegar sá að stórfelld búseturöskun nú veldur miklu meira tjóni en flutningur frumstæðra og ódýrra verstöðva fyrir öld auk þess sem bruðl með orku og hugsanleg spjöll á lífríkinu við hafsbotninn eru ekki tekin með í reikninginn.

Þótt einhver útgerðarfyrirtæki séu vel reknir bústólpar í sjávarbyggðum er óþarfi að reka upp ramakvein yfir því þótt hugað sé að augljósum göllum og misfellum núverandi kerfis.
mbl.is Talað til útgerðar eins og glæpamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfilegu fíkniefnin verst og skaðlegust.

Það er viðurkennt í röðum þeirra, sem fást við að hjálpa fíkniefnaneytendum til þess að vinna bug á fíkn sinni, að nikótín sé erfiðasta fíkniefnið við að fást.

Svo erfitt er það viðfangs, að þegar fólk, sem reykir, reynri að hætta neyslu annarra fíkniefna, er því ráðlagt að geyma það að reyna að hætta reykingunum, því að bæði sé það svo erfitt og einnig geti það gert það of erfitt að hætta neyslu annarra efna.

Reykingar Obama Bandaríkjaforseta eru dæmi um það að fíkniefni fara ekki í manngreinarálit, gáfur, staðfesta og aðrir frábærir eiginleikar segja ekkert fyrirfram um það hvernig viðkomandi einstaklingi muni ganga að umgangast fíkniefni. 

Meira að segja getur viðkomandi gengið misvel að fást við þau. Þannig þekkti ég á árum áður náið mann, sem gat aldrei hætt að drekka áfengi, þótt hann færi í meðferð, en gat reykt eða reykt ekki hvenær sem honum sýndist og átti aldrei í minnstu erfiðleikum með að ráða við það. 

Tölurnar tala sínu máli: 8% þeirra sem neyta hass, missa stjórn á því, 12-13% áfengisneytenda, 18% kókaínneytenda, 23% heróínneytenda og 33% nikótínneytenda. 

Nýleg rannsókn sem ber saman það tjón, sem fíkniefni valda, hefur leitt í ljós að vegna útbreiðslu sinnar og annarra áhrifa sé áfengið mesti skaðvaldurinn. 

Fróðleg niðurstaða: Leyfilegu fíkniefnin, áfengi og nikótín, eru verst viðfangs og skaðlegust. 


mbl.is Obama hættur að reykja, segir forsetafrúin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband