Ég er sloppinn, - í bili.

Mér varð það á um daginn að blogga um það að fréttamenn megi ekki segja að milljarðarnir hverfi, þótt Björgólfur Thor hafi sagt það sjálfur í myndinni "Guð blessi Ísland."

Mér varð það líka á að kalla Pálma Haraldsson Pálma í Fons, en Svavar Halldórsson var kærður fyrir að gefa í skyn að þetta væri samgróið fyrirbæri. 

Nú hefur Svavar verið sýknaður, en Hæstiréttur á eftir að fjalla um málið og rétt eins og nú um daginn, varðandi Stjórnlagaþingkosningarnar,  er ég viðbúinn úrskurði á báða vegu, þótt mér finnist sjálfum sektardómur ekki standast fremur en ógilding kosninganna í janúar. 

Ég á það sameiginlegt með Svavari að fyrir 12 árum var þess krafist að ég yrði rekinn frá Sjónvarpinu og sömuleiðis fréttastjóri minn og útvarpsstjóri. Fór fram ítarleg rannsókn á kæruefninu. 

Ákæruatriðið á hendur mér var öllu alvarlegra en á hendur Svavari, því að verði María Sigrún Hilmarsdóttir og útvarpsstjórinn dæmd núna, er þar aðeins um að ræða sektardóm en ekki missi atvinnunnar eins og krafist var á sínum tíma á hendur mér og yfirmönnum mínum. 

Rannsóknin 1999 leiddi til sýknu og nú er að sjá hvort hið sama gerist aftur við endanleg lok þessa máls. 

Það ætla ég bara rétt að vona. 


mbl.is Pálmi tapaði meiðyrðamáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég er hér enn!" hrópaði Hitler í byrginu.

Síðustu mánuði og vikur seinni heimsstyrjaldarinnar stjórnaði Adolf Hitler ímynduðum herjum að stórum hluta úr byrgi sínu í Berlín.

Þegar hann og Göbbels fréttu af dauða Roosevelts forseta 12. apríl 1945 hrópaði Göbbels: "Þetta eru straumhvörf styrjaldarinnar!" 

Síðan hélt Hitler áfram að stjórna fundum með þeim sem voru með honum í byrginu og þegar Göring vildi reyna að ná friði við vesturveldin setti Hitler hann af og hélt áfram að stjórna til síðasta dags rúmum tveimur vikum síðar. 

Enginn þarf að efast um að í kringum Gaddafi séu ákafir stuðningsmenn og jábræður sem hjálpa honum til að viðhalda firringu sinni.

Slíkir fylgismenn villmannlegra harðstjóra eru uppi á öllum tímum og enn þann dag í dag finnast hópar manna sem dýrka Hitler, dást að afrekum hans og fegra gerðir hans á alla lund.

"Ég er hér enn!" hrópar Gaddafi hróðugur yfir því að hafa haldið völdum með því að ryðja burtu fólki sem ekki er þarna enn. Þetta er "gegt" eins og krakkarnir segja í skilaboðunum.  


mbl.is „Ég er hér enn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa aldrei upplifað Dynk.

Fossinn Dynkur í Þjórsá er eitt best varðveitta leyndarmál íslenskrar náttúru, enda full þörf á, ef fyrirætlanir um Norðlingaöldu eiga að ganga fram.

Forsenda fyrir virkjun Þjórsár fyrir ofan fossinn er sú að hann sé óþekktur og óaðgengilegur, enda hefur það þegar borið þann árangur að hópur um áhrif ferðamennsku á svæðið undir hatti Rammaáætlunar telur áhrifin lítil, vegna þess hve fáir hafi komið á svæðið fram að þessu!

Dynkur á fullu afli er að mínum dómi flottasti stórfoss Íslands vegna hins einstæða útlits síns, en hann er samansafn um tuttugu fossa á tveimur stöllum í sama fossstæðinu. 

Um 1920 voru uppi áætlanir um virkjun Gullfoss, sem hefðu valdið meiri umskiptum í þjóðhagslegu tilliti en nokkur önnur virkjanaframkvæmd, vegna þess að landið var vegalaust, að mestu leyti án rafmagns og meirihluti sveitabæja enn torfbæir. 

Nú malar Gullfoss meira gull en hann hefði gert ef hann hefði verið virkjaður. 

Þegar er búið að taka allt að 40% af afli Dynks í burtu með svonefndri Kvíslaveitu þannig að afl hans og hávaðinn, sem hann er kenndur við, njóta sín sjaldan. Dynkur og Gljúfurleitarfoss, sem er skammt fyrir neðan Dynk, eru hvor um sig jafnokar Gullfoss að stærð og möguleikarnir til að nýta sér það eru fyrir hendi og dreifa þar með betur en nú er ferðamannaumferð um þetta svæði.

En á það má ekki minnast, því að þá er hætta á því að þeim verði bjargað eins og Gullfossi á sínum tíma. 

Að lokum má geta þess að blaðamaður, sem hefur farið um allan heim til að skoða fossa og kom hingað til lands fyrir áratug, telur Hraunfossa í Borgarfirði merkilegustu fossa Íslands, einfaldlega vegna þess að engir aðri slíkir finnist í heiminum. 

Það þýðir hið sama og um Gullfoss, að stærðin er ekki aðalatriðið, heldur það hversu sérstætt náttúrufyrirbrigði eru. 


mbl.is Gullfoss með fallegustu fossum heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mest að þakka betri bílum.

Gróðærisbólan fyrir Hrunið var ekki alvond. Hún skilaði til dæmis miklu af nýjum bílum í umferðina, bílum sem voru mun öruggari en áður var.

Gott dæmi um aukið öryggi er hægt að sjá á YouTube þar sem sýndur er árekstur tveggja bíla af gerðinni Chevrolet. "YouTube. Crash test. 1959 Chevrolet Bel Air vs. 2009 Chevrolet Malibu".  

Annar nýr og miklu minni bíll en hinn gamli, sem er sannkallður dreki. 

Er skemmst frá því að nýi bílinn fer alla leið inn í miðjan þann gamla og hefði vafalaust steindrepið bílstjóra hans án þess að séð hefði að ráði á bílstjóra nýja bílsins.  

Þessi gríðarlega framför varðandi öryggi bíla er vafalaust aðalástæðan fyrir færri banaslysum en fyrr og raunar gæti árangurinn verið enn betri ef fólk notaði mikilvægasta öryggisbúnaðinn, bílbeltin. 

Eftir sem áður farast að meðaltali fimm í bílslysum árlega hér á landi vegna þess að bílbelti voru ekki notuð og vanræksla á notkun þeirra veldur tugum alvarlegra slysa, sem annars hefði verið hægt að komast hjá. 

Árið 1968 var dæmi um það hvað mikið forvarnarstarf og fræðsla getur skilað miklum árangri. 

Það ár var skipt úr vinstri umferð í hægri umferð með tilheyrandi miklu átaki í umferðarmálum. 

Óhætt er að fullyrða að aldrei í sögu bílsins á Íslandi hafi ökumenn hugsað jafn mikið um akstur sinn verið vakandi við hann en árið 1968. 


mbl.is Hvergi færri dauðaslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rubicon Atla og Lilju.

"Teningunum er kastað" mun Sesar hafa sagt þegar hann ákvað að halda með her sinn suður fyrir afmarkað valdsvæði sitt og stefna á Rómaborg.

Hann vissi að þótt þessi för hans yfir fljótið sýndist ekki mikill viðburður yrði ekki aftur snúið í komandi allsherjar uppgjöri hans við Pompeius og að yfirreiðin drægi langan dilk á eftir sér. 

Svo er að sjá sem svipað gildi um þau Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur. Úrsögnin úr þingflokknum sýnist hafa sett af stað atburðarás, sem gæti dregið talsverðan dilk á eftir sér. 

Hvort þau Atli og Lilja stefna á Rómaborg íslenskra valda þótt síðar verði, er hins vegar spurning, sem ekki er hægt að svara nú. 

 


mbl.is Rekin úr nefndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki á Húsavík?

Fróðlegt væri að fara ofan í saumana á því af hverju aflþynnuverksmiðjan, sem rís við Akureyri, er þar en ekki á Húsavík.

Talað er um 150 störf við verksmiðjuna, en Húsvíkingum finnst það líklega ekki nóg atvinnuuppbygging fyrir þá, 450 störf við 340 þúsund tonna álver hefur hingað til verið draumsýn þeirra auk virkjana upp á 650 megavött. 

Mér sýnist augljóst að 150 ný störf á fljótlegan hátt við aflþynnuverksmiðju hefði orðið mun betri kostur fyrir Húsvíkinga en flest annað.

Orsakirnar gætu verið aðallega tvær: 

Einblínt hefur verið á álver og það talinn kostur að mikil umsvif vegna virkjanaframkvæmda myndu fylgja því. Þessi umsvif eru hins vegar tímabundin. Ef þúsund manns fá tímabundið atvinnu við slíkar framkvæmdir verða þúsund manns atvinnulausir þegar þeim lýkur.

Húnvetningar þekkja þetta vel frá tímum Blönduvirkjunar og myndu áreiðanlega eftir á hafa kosið að eftir sæti fyrirtæki til frambúðar í héraði, sem nýtti orkuna. 

Álver hefur verið og er enn efst á forgangslista Húsvíkinga og því eðlilegt að aðrir fjárfestar leiti annað. 

Hin orsökin er alþjóðleg: Það er kostur í augum fjárfesta að öflugt og stórt samfélag sé í nánd við starfsemina þar sem velvilji er gagnvart starfseminni og ekkert annað í svo miklum forgangi, að hindra aðkomu fjárfestanna. 

Akureyri og svæðið frá Tröllaskaga austur í Bárðardal fellur undir hina alþjóðlegu skilgreiningu, sem notuð er um borgarsamfélag, "FUA", sem er skammstöfum yfir hugtakið "Functional Urban Area", "Virkt borgarsamfélag".

Með tilkomu Vaðlaheiðaganga yrði Húsavík við jaðar slíks samfélags. En Héðinsfjarðargöng voru sett framar í forgangsröðina. 

Aðeins tvö slík samfélög eru á Íslandi, Akureyri og Reykjavíkursvæðið. 

Öll orka meirihluta þingmanna Norðausturkjördæmis hefur farið í áldrauminn á Bakka og á meðan rís þegjandi og hljóðalaust verksmiðja við Akureyri, sem hefði haft alla þá kosti atvinnustarfsemi sem Húsvíkingar þurftu, svo framarlega sem tæknilega var mögulegt að hún risi þar. 

Mig að hinum yfirþyrmandi álversdraumi sé helst um að kenna að þetta gerist. 


mbl.is Vilja stækka verksmiðjuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. mars 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband