31.3.2011 | 23:40
Það kastar enginn lengra en hann hugsar.
"Það stekkur enginn lengra en hann hugsar" sagði Manga gamla við mig í sveitinni í gamla daga og það má yfirfæra á Þóri Guðmund Þorbjarnarson, sem því aðeins gat skorað hina einstæðu drauma-flautukörfu sína vegna þess að hann hafði áður hugsað þetta langt og æft sig í samræmi við það.
Stundum sér maður og heyrir ungt fólk, sem hefur þau áhrif á mann að maður hugsar með sér: Einhvern tíma á hann eða hún eftir að verða eitthvað!
Þetta getur stundum verið ungt barn en oftar unglingur og það er allur gangur á því hvort þetta rætist.
Eitt svona atriði má sjá í einum sjónvarpsþátta minna, sem var til sölu undir nafninu Stiklur í hitteðfyrra.
Það var þrettán ára stúlka, sem ég talaði við þar sem hún var að ganga Laugaveginn með bekkjarsystkinum sínum úr Kópavogi og ég hitti hópinn í Emstrum.
Hún sagðist heita Þorbjörg Marínósdóttir og eftir viðtalið sagði ég við sjálfan mig: Þetta er nafn sem ég ætla að muna. Nú þarf ég ekki að hafa fyrir því að muna eftir Tobbu Marínós.
![]() |
Skotið lengra en hjá LeBron |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 1.4.2011 kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.3.2011 | 12:10
Noregur, Danmörk og Svíþjóð á hverju ári.
Á Norðurlöndum búa nú um 25 milljónir manna. Indverjum einum fjölgar um þá tölu á einu ári og þremur mánuðum. Á hverju ári bætast við Indverja álíka margir og búa í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
181 milljón Indverja, sem bætast við á hverjum áratug samsvarar öllum íbúum Bretlands, Frakklands og Ítalíu.
Fræðimaðurinn Malthus spáði því á 18. öld að mannfjölgunin í heiminum myndi enda með ósköpum.
Hann sá hins vegar ekki fyrir að þegar þjóðir kæmust á ákveðið velmegunar- og mennta- og tæknistig og gerst hefur á Vesturlöndum síðustu áratugi, myndi fólksfjölgunin stöðvast án þess að það væri vegna fjölgunar dauðsfalla.
Nú horfa margir með velþóknun á bullandi hagvöxt, neyslu og útþenslu í þróunarlöndum á borð við Kína, Indland og Brasilíu.
Og hrakspár Malthusar þykja afsannaðar.
En gallinn er bara sá, að vafasamt er að þjóðirnar í þriðja heiminum muni ná að komast almennt á það velmegunar mennta- og tæknistig sem komist hefur á í okkar heimshluta.
Þessi þróun á Vesturlöndum hefur fyrst og fremst verið möguleg vegna nær endalausrar vaxtar á notkun jarðefnaeldsneytis sem ekki getur haldið áfram, heldur mun bruðlið með orkuna valda því að leiðin liggi hér eftir niður á við.
Þróunarlöndin munu því varla komast upp úr fari fátæktar, skorts og menntunarleysis yfirgnæfandi meirihluta íbúanna.
Það mun verða til þess að lögmál Malthusar taki gildi og að eina leiðin til þess að stöðva fólksfjölgunina sé sú að það gerist með stórfelldri fjölgun dauðfalla.
![]() |
Indverjum fer fjölgandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2011 | 11:30
Heimild í hæsta gæðaflokki til framtíðar.
Umfjöllun Kastljóssins í gærkvöldi og aldeilis einstakt viðtal um beiðni útlendra tíumenninga um íslenskan ríkisborgararétt á silfurfati með afbrigðum gegn því að þeir færi með sér 1700 milljarða inn í íslenskt hagkerfi á eftir að verða ein af dásamlegustu heimildunum um andrúmsloftið á Íslandi síðustu tíu árin.
Jónas Hallgrínsson notaði orðin "hnípin þjóð í vanda" um hugarástand þjóðarinnar á fyrri hluta 18. aldar.
Viðtalið í gær lýsti hugarástandi okkar á sinn hátt, því að þessi uppákoma hefði ekki verið hugsanleg nema vegna þess hvernig hér er í pottinn búið.
Þetta er svo magnað, vegna þess að það getur í senn verið dæmalaus farsi eða dæmalaus harmleikur, að svona kemur upp.
Hvers vegna koma erlend gagnaver eða erlendar lánastofnanir ekki hingað, nema að þessir tíumenningar standi að því?
Hvaðan koma þessir 1700 milljarðar sem allt í einu skjóta upp kollinum?
Ef þessir 1700 milljarðar eru til, hvaða trygging er þá fyrir því að þeir verði ekki síðar notaðir til þess að kaupa til dæmis allan íslenskan sjávarútveg eins og hann leggur sig? Tíumenningarnir verða jú íslenskir ríkisborgarar og mega valsa um í íslensku hagkerfi eins og þeim sýnist og munu eiga auðvelt með að réttlæta það að ganga á orð sín þess efnis að þeir hafi engan áhuga á því að eignast íslenskar auðlndir.
Hannes Smárason lýsti því vel í tímaritsviðtali hvernig hann á örfáum árum byggði upp peningaveldi upp á tugi og jafnvel hundruð milljarða króna með því að kaupa "hæfilega skuldsett fyrirtæki" fyrir lánsfé, gera þau skuldlaus og versla með þau á nýjum og nýjum kennitölum þar sem "viðskiptavild" þeirra ykist um tugi milljarða við hvern fjármálagerning.
Þetta þótti "tær fjármálasnilld".
Með hóp hinna nýju Íslendinga er frægur snillingur af þessu tagi, frægur fyrir yfirburða færni sína við að gera mönnum kleift að komast hjá því að greiða skatta og kann öll 2007-trixin öðrum mönnum betur svo orð fer af.
Vitum við mikið um hvað hann mun hafa uppi í erminni þegar hann er kominn með starfsemi sína í íslenskt skjól innan Schengen?
Hugarástand íslensku þjóðarinnar, sem er blanda af eymd og ágirnd, nagandi minnimáttarkennd og hroka, yfirlæti og draumórum í senn, endurspeglast nú hvað eftir annað í hinum ótrúlegustu uppákomum sem sýna, að öll þessi síðustu tíu ár hefur ekkert breyst hvað þetta varðar.
Drifkrafturinn er sá sami: "Take the money and run", skítt með afleiðingarnar síðar meir og hagsmuni komandi kynslóða.
![]() |
Umsóknirnar vekja ugg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)