Gaman að bjallan fór svo langt norður.

Endir Útsvars gat ekki verið meira spennandi og aðeins tvö stig skildu í lokin. Einhverjir hafa verið að tala um það að erfitt sé að keppa við mannval frá tveimur stærstu borgar/þéttbýlis-samfélögum landsins, Reykjavík og Akureyri.

Því að Akureyri fellur nú orðið undir alþjóðlega skilgreiningu borgar- eða þéttbýlis (urban) sem ber skammstöfunina FUA, Functhional Urban Area, en á slíku svæði þurfa að búa minnst 15 þúsund manns og ferðatími inn að miðju svæðisins sé innan við 45 mínútur. 

Mér þykir vænt um sigur Norðurþings, þótt hið stórgóða Akureyrarlið hefði líka átt skilið að sigra. 

Þegar ég fór af stað með spurningaþættina "Hvað heldurðu?" 1986 var markmiðið að laða fram skemmtilegt og klárt fólk frá hinum ýmsu byggðum landsins og nota svona keppni til þess að uppfylla þá mótsögn að keppni á milli byggða yki samheldni og kynni þeirra á milli.

Hvað eftir annað hafa keppendur frá tiltölulega fámennum byggðarlögum sýnt glæsilega frammstöðu í svona þáttum og í þetta skipti var gaman að bjallan fór svona langt í burtu frá þéttbýlissvæðinu við sunnanverðan Faxaflóa.

Ef ég man rétt þá réði misheppnuð spurning um Hamlet og hauskúpu úrsltum um það 1987 að Þingeyingar féllu úr keppni svo að nú var svo sannarlega kominn tími á það að þeir hefðu betur á tvísýnum endaspretti.

Til hamingju, Þingeyingar! 


mbl.is Norðurþing sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bláeygir gagnvart breyttu ástandi.

Ég ætlaði að blogga í gær um allar þær spurningar sem vöknuðu við sýknun ákærðs manns í alvarlegu árásarmáli. 

Þessum spurningum er varpað upp og gefin vísbending um svör sem mann grunaði að útskýrðu þetta mál:

1. Hér á landi hefur skapast það ógnarástand í glæpaheiminum að ofbeldismenn geti komist upp með verk sín með því að hóta fórnarlömbum sínum limlestingum ef þau kæra eða bera vitni alvarlegum afbrotamálum sem varða margra ára fangelsisrefsingu. 

2.  Íslendingar og lögreglan þar með eru enn algerlega bláeyg gagnvart þessu nýja og framandi ástandi ef marka má meðhöndlun þessa máls.

Við svo búið má ekki standa. 


mbl.is Fórnarlambi hótað margsinnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað hvort virkt eða ekki.

Menn geta deilt um það hvort bann á auglýsingum á áfengum drykkjum hafi áhrif á neyslu þeirra eða ekki. Það hefur verið niðurstaða alþjóðlegra rannsókna og viðurkennt af heilbrigðisstofnun Sþ að því aðgengilegri sem áfengi og fíkniefni eru og því meira sem þeim er haldið að fólki, því meiri sé neyslan.

En látum það liggja á milli hluta. Ef í gildi er bann við auglýsingum á áfengi verður það að vera þannig úr garði gert að ekki sé jafn hlægilega auðvelt að fara í kringum það og reynslan hefur sýnt.

Einna versta dæmið um það var þegar í einni slíkri auglýsingu var kneifaður léttur bjór í hippaumhverfi og beinlínis gert út á það á sérstaklega lúmskan hátt að sveipa dýrðarljóma andrúmsloft sem fylgir alhliða neyslu vímuefna. 


mbl.is Bannað að auglýsa léttbjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsönnun náttúrulögmála ?

Það hefur verið viðurkennt sem staðreynd að suðurströnd Íslands hafi færst langa leið út síðan ísöld lauk fyrir ellefu þúsund árum og sjórinn lék uppi við rætur Eyjafjalla, Síðunnar og Öræfajökuls.

Framburður jökulfljótanna og hamfarahlaup vegna eldgosa hafa verið ótrúlega afkastamikil eins og sést best á því að svo seint sem 1660 lék sjórinn við Skiphelli fyrir austan Vík og í gosinu 1918 færðist ströndin svo langt út að þar myndaðist nýr syðsti oddi landsins, Kötlutangi. 

Það þarf því svolítið mikið til að breyta þessari mynd á þann hátt að flak víkingaskips sé í Landeyjahöfn, hvað þá að þar séu munir úr Het Vapen Amsterdam, en þegar leitað var að því á Skeiðarársandi fyrir aldarfjórðungi var komið niður á flak togara, sem strandað hafði fyrir öld og var nú komið ótrúlega langt inn í land. 

Nema að staðreyndin sé sú að í dag sé 31. mars en ekki næsti dagur þar á eftir eins og allir hafa haldið. 


mbl.is Fornleifar í Landeyjahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband