"Tíma stórra vatnsaflsvirkjana er lokið."

Ofangreind orð mælti Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra Norðmanna, fyrir um fimm árum og í framhaldinu sögðu frændur okkar á Norðurlöndum: "Tími stórra vatnsaflsvirkjana á Norðurlöndum er lokð."

Í Noregi er álíka mikil orka óbeisluð í vatnsföllum að magni til og er óbeisluð á Íslandi. Árnar eru hreinar og tærar og ekkert set myndast í miðlunarlónunum, þannig að þessar virkjanir yrðu afturkræfar, ólíkt því sem yrði víða á Íslandi þar sem aurset jökulfljóta fyllir lónstæðin upp og eyðileggur miðlunarhæfni þeirra. 

Hinir norrænu ráðamenn gleymdu stóru atriði, þegar þeir töluðu um nýja tíma, og hefðu átt að orða setninguna svona: "Tíma stórra vatnsaflsvirkjana á Norðurlöndum er lokið, - nema á Íslandi, en þar ætla menn að virkja allt, meira að segja Dettifoss, aflmesta foss Evrópu."

Í Noregi er oft á tíðum orkuskortur. Samt eru ætla þeir að láta vatnsafl af sömu magnstærð og óvirkjað vatnsafl á Íslandi óvirkjað. Og það jafnvel þótt umhverfisáhrifin í Noregi yrðu brot af því sem þau yrðu á Íslandi. 

Norðmenn skortir orku til heimanota en Íslendingar hafa þegar virkjað fimm sinnum meiri orku en þeir þurfa til sinna heimanota. Upp undir 80% prósent orkunnar hér eru eyrnamerkt álverum í eigu útlendinga.

Við erum áratugum á eftir öðrum þjóðum í hugsunarhætti og viljum ekkert af þeim læra frekar en svo oft áður, svo sem eins og í bankabólunni stóru sem sprakk. 

Nú viljum við virkjanabólu sem verði enn stærri á þeim forsendum að hún springur ekki framan í húverandi kynslóðir, heldur kynslóðir framtíðarinnar. 

Og allur ávinningur mælist í því að skaffa 2% vinnuafls þjóðarinnar atvinnu í álverum og viðhalda virkjanaframkvæmdum, sem að vísu skapa störf á meðan á þeim stendur, en gera jafn marga atvinnulausa þegar ekkert verður lengur eftir til að virkja. 

Hvílík lausn á atvinnuvandanum til frambúðar! Hvílíkt tillitsleysi gagnvart afkomendum okkar! 

 


mbl.is Hætta stuðningi verði farið í virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eltingarleikur við aukaatriði.

Of oft draga menn fram aukaatriði þegar varpa á efa um færni einstakra manna. Eltingarleikur í fjölmiðlum um feril Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ber keim af þessu.

Eitt besta dæmið um þetta er sú árátta manna að draga menn í dilka á borð við "101 Reykjavík" eða "Lattelepjandi kaffihúsalið í 101 Reykjavík" og gera fyrrnefnd lýsingarorð af skammarheitum. 

Jón Sigurðsson og Fjölnismenn hefðu samkvæmt þessu verið taldir ónytjungar af því að þeir voru "vínsullslepjandi bjórkráalið í "101" Kaupmannahöfn" á sama tíma og landsmenn þeirra bjuggu í torfkofum i vegalausu landi. 

Búseta, umhverfi og menntun hafa að sjálfsögðu áhrif á fólk en þegar eingöngu er lagt mat á ágæti þess samkvæmt þessum mælikvarða en ekki eigin verðleikum er um ómálefnalega umfjöllun að ræða. 

Mig langar til að nefna tvö dæmi um það hve fáfengilegt það geti verið, þegar búseta, umhverfi og menntun eru gerð að aðalatriðum en ekki verðleikar mannanna, sem í hlut eiga. 

Mér er það minnisstætt að þegar ég og bekkjarfélagar urðum stúdentar hafði M.R. verið í rúma öld eini skóli landsins, sem útskrifaði nemendur eftir stúdentspróf. 

Við' vorum aðeins tæplega hundrað, og gömul hefð var fyrir því að stúdentar væru boðnir til æðstu valdamanna landsins á hinu veraldlega og andlega sviði. 

Þess vegna kom það í hlut Ólafs Thors forsætisráðherra og Sigurgeirs Sigurðssonar biskups að heilsa hinum nýju stúdentum. 

Aldrei var um það rætt á þessum árum að báðir þessir menn "skriðu" sem kallað var á stúdentsprófi, rétt náðu lágmarkseinkunn. 

Báðir höfðu sannað verðleika sína á annan hátt en með skólalærdómi. 

Jón Sigurðsson var ekki aðeins óumdeildur forystumaður í íslensku sjálfstæðisbaráttunni heldur veittu rannsóknir hans á sögu og menningu Íslendinga og Dana honum einstakan sess, svo dýrmætan fyrir Dani, að hann þáði hjá þeim laun fyrir störf sín á þessum vettangi. 

Er áreiðanlega einsdæmi að "herraþjóð" hafi haldið uppi helsta andófsmanni í sjálfstæðisbaráttu "undirþjóðar". 

Jón naut verðleika sinna en ekki háskólaprófa, því að hann lauk aldrei námi til fulls. Aldrei minnist ég samt þess að þá né síðar hafi menn verið að eltast við menntunarferil hans. 

Það voru aukaatriði rétt eins og prófgráður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru aukaatriði nú. 


mbl.is Sigmundur Davíð gerir grein fyrir námsferli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband