Borgarbörn fara mikils á mis.

Borgarbörn nútímans fara mikils á mis að upplifa það aldrei að standa undir heiðum næturhimni að vetrarlagi og sjá himingeiminn með öllum sínum óteljandi stjörnum hvelfast yfir sér.

Þegar ég var barn var ljósmagnið í Reykjavík, sem var á mörkum þess að vera borg eða bær, aðeins brot af því sem það er í dag, og ekki þurfti að fara langt, aðeins inn undir Elliðaár til að sjá vel til himins. 

Þegar komið var fram í lok september í sveitardvölinni var orðið vel dimmt um nætur og himinninn heiður og tær. 

Ég áttaði mig ekki á því hve mikils börn mín höfðu farið í mis fyrr en þau Iðunni og Friðrik fluttu  börnum sínum til Víkur í Mýrdal í tvö ár í upphafi kennaraferils síns.

Þegar þau komu til baka  var stjörnubjartur næturhiminninn í Vík og bjarminn af tunglskini yfir Reynisdröngum auk algerrar þagnar eftirminnilegasta upplifunin svo af bar.


mbl.is „Fegurð næturhiminsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandlifað.

"Það þarf sterk bein til þola góða daga" eða eitthvað á þá leið minnir mig að máltæki eitt hljóði.

Of mikil neysla á sykri og fitu hefur gert ofþyngd að einhverju erfiðasta heilbrigðisvandamáli okkar tíðar. 

En hve langt á að ganga í meinlætalifnaði og eftir hvaða mynstri? 

Ég er ekki viss um að orðið "fyllerísmenning" eigi alveg við það að gera sér dagamun eins og til dæmis einu sinni í viku varðandi ýmislegt. 

Nú er það einu sinni svo að annar frídagurinn um hverja helgi er skilgreindur sem nauðsynlegur hvíldardagur frá amstri hversdagsins og því getur varla verið óeðlilegt að á einn dag sé nældur merkimiði fyrir það að gera eitthvað sem gefur lífinu lit. 

Þegar ég fór í gegnum það nýlega hvað vægi þyngst í minni neyslu varðandi líkamsþyngdina kom fljótlega í ljós að það var súkkulaði.  Súkkulaði er nefnilega afar mikið lostæti en því miður er það óhollustan uppmáluð hvað það snertir, að 30% af þyngd þess er fita og í því auk þess hvítasykur sem er út af fyrir sig eitt versta fíkniefni samtímans. 

Langstærsti hluti súkkulaðineyslu minnar átti rót að rekja til menntaskólaáranna þegar það varð að tákni þess tíma að fara inn á "Skalla" og fá sér kók og prins. 

Við nákvæma greiningu á lífsvenjum mínum kom í ljós að ég át að meðaltali 20-30 Prins póló stykki á viku eða um eða yfir hundrað stykki á mánuði. 

Það þýddir að í þau 50 ár sem þetta hafði verið hluti af neyslumynstri mínu hafði ég innbyrt 50 þúsund stykki hið minnsta. 

Ég ákvað því að taka þetta af neyslulistanum að undanskildu því að hver sunnudagur væri "nammidagur", en aðeins þessi eini dagur og aðeins þetta eina Prins póló stykki. 

Af hverju að hafa þetta svona? Jú, ef maður getur fundið eitthvað til að hlakka til, þá finnst mér ekkert að því að finna eitthvað til þess. 

Ég hlakka alla vikuna til þess að fá mér eina kók í gleri og Prins póló einu sinni í viku. Tel það hvorki ýta undir "fyllerísmenningu" eða óhóf.  En miklu varðar að "nammidagurinn" sé aðeins einn en ekki tveir í röð.  Þar munar jú helmingi, ekki satt? 


mbl.is „Nammidagar ala á fyllerísmenningu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíklegt að þetta breyti neinu.

Staðbundnar aðstæður á ströndinni suður af Grundartanga valda því að hlutfall norðaustanáttar er þar óvenju hát. Þess vegna mátti gera ráð fyrir því fyrirfram að mengað loft frá verksmiðjunum legði í bæina á ströndinni.

Ég hef áður bloggað um það hvernig horft er í gegnum fingur sér varðandi reyk frá járnblendiverksmiðjunni og mér skilst að verksmiðjurnar sjálfar þarna sjái um mælingar á útblæstri. 

Hér hefur verið landlægt að sjá í gegnum fingur sé við ýmsa starfsemi sem veldur mengun.

Er Funamálið í Skutulsfirði gott dæmi um það og ólíklegt verður að telja að hagsmunir tiltölulegra fárra, sem búa í nágrenni við jafn stórar verksmiðjur og eru á Grundartanga verði taldir skipta nokkru máli, jafnvel þótt mengun muni reynast mun meir en reglur sögðu til um. 

Í Hvalfirði hafa verið stofnuð samtök sem nefnast Umhverfisvaktin og eiga þau mikinn rétt á sér. En félagsfólk úr röðum þeirra hafa kvartað í mín eyru yfir þöggun og tómlæti hvað varðar það þegar pottur er brotinn í ýmsum efnum á verksmikjusvæðinu. 

Það rímar við það sem ég margbloggaði um í vetur um það hvernig skipstjórar á risaskipum, sem þurfa að losa sig við úrgangsefni af skipunum eru í sjöunda himni yfir því að fá að haga sér að vild hér við land, eitt allra landa, vegna algers tómlætis Íslendinga. 

Þess vegnar er ólíklegt að nokkur dauð hross verði til að hagga við neinu þegar STÓR-iðjan er annars vegar. 


mbl.is Telur flúormengun orsök veikinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlar ranghugmyndir lífseigar.

Hinn eldvirki hluti Íslands hefur verið af dómbærum erlendum sérfræðingur dæmdur sem eitt af sjö mestu náttúruundrum Evrópu og í hópi 40 merkustu náttúruundra heims.

Frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone, sem dregur að sér tvær milljónir manna um sumartímann og þar af kemur helmingur frá öðrum heimsálfum en Ameríku, kemst ekki á blað. 

"Gullni hringurinn" Þingvellir - Gullfoss - Geysir nýtur ofuráherslu hér á landi. 

Finnar fengu að "stela" jólasveininum frá okkur og staðsetja í Rovianemi sem er lengra burtu frá helstu löndum Evrópu en Ísland og Lappland fær til sín fleiri ferðamenn um vetrartímann en koma allt árið til Íslands. 

Við höldum að íslenskar ferðaskrifstofur séu undirstaða ferðamennsku á Íslandi en fylgjumst ekkert með þeim hópi ferðamanna, sem fer sístækkandi og vill sjálfur upplifa land og þjóð í stað þess að vera í ferðamannahópum. 

Þetta fólk er á róli Lonely Planet og kemur hingað undir formerkjunum, "get your hands dirty and feet wet", að upplifa það að lifa af, (survival) og eignast persónuleg upplifunarævintýri. 

Tvær bílaleigur prófuðu fyrir nokkrum árum að leigja út Lödu Sport. Önnur þeirra gafst upp; leigendurnir komu til baka með húnana í höndunum og annað var eftir því. 

Hin seldi bílana ekki strax og er nú að endurnýja Lödu Sport bílaflota sinn.  Af hverju? Af því að það er ögrun og heillandi ævintýri að halda á fjöll á svona bíl. 

Sumir þeirra, sem gera það, komu til landsins sem "bakpokalýður" fyrir 25-30 árum og tóku svona jeppa á leigu af því að þeir voru langódýrastir. 

Nú koma þeir aftur en vilja endurlifa ævintýrin með þessum grófgerðu jeppum en ekki að setjast upp í nýjustu og best búnu jeppana. 

"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."  Þessu gleymum við og höldum að útlendingar horfi á landið okkar augum. 

Ef við gerum það verður markaðssetningin að stórum hluta röng. 


mbl.is Er markaðssetning Íslands röng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband