24.5.2011 | 22:28
Loftrými geta ekki opnað neitt.
Í fjölmiðlum og tilkynningum færist sífellt í vöxt að fjöll, svæði, hús og dalir séu að opna, en aldrei er sagt frá því hvað þessi fyrirbæri opni og hvað þessir dauðu hlutir geti yfirleitt opnað.
Nú hefur loftrými bæst við. Loftrými eru farin að opna eitthvað og loka einhverju. Ég get ekki séð að loftrými geti opnað neitt. Og ef það er eitthvað sem loftrými geta opnað væri gaman að vita hvað það er.
Minni síðan á bloggin á undan þessu um það að flugvöllum verði lokað í kvöld vegna öskufalls, sem enginn sér og þaðan af síður að það hafi komið fram á mælum í mælingaflugi yfir þessa flugvelli.
Raunar skiptir lokun vallanna sem betur fer ekki miklu máli á þessum tíma sólarhrings en í fyrramálið verður flogið mælingaflug yfir þá og vonandi að þá verði notkun flugvallanna ákveðin með tilliti til raunverulegs öskufalls sem sannanlega sé svo mikið, að skyggni fari niður í minna en þrjá kílómetra, en það benda mælingar í fyrradag til að séu mörk þess öskumagns í lofti sem þotuhreyflar þoli.
![]() |
Aftur lokað fyrir flug í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2011 | 21:20
"Það sem augað sér".

Á efstu myndinni hér á síðunni er horft úr flugvél yfir að grábrúnum öskuvegg sem liggur frá miðjum Vatnajökli til suðvesturs um Hreppa og niður með Þjórsá.
Yfir er blár himinn en nær okkur hreint loft, sem við fljúgum í en hefur samt verið dæmt fullt af ösku í tölvu í Bretlandi og flugvellir á þessu svæði hreina loftsins lokaðir allan þennan dag.
Eftir að lent var hófst mælingaflug frá Selfossi og hafði öskuloftið þá sigið niður Ölfusið og skyggni aðeins 2-4 kílómetrar.
Við þær aðstæður mældist öskumagnið þó vera innan þeirra marka sem framleiðendur þotuhreyflar hafa gefið upp sem hámark ösku, sem sogast mætti í gegnum hreyfilinn svo að flugið væri öruggt.
Ég var í þeirri einstöku aðstöðu í þessu flugi að sjá með eigin augum hvað svona öskumökkur þyrfti að vera þéttur til að fara fram úr þeim öryggismörkum sem framleiðendur þotuhreyfla setja.
Þegar horft er á myndina hér við hliðina þar sem blasir við tært loftið yfir Kerlingarfjöllum til vinstri og Hofsjökli til hægri. Við erum sem sé að horfa í átt að flugleiðinni Reykjavík-Akureyri, sem er lokuð vegna öskufalls !
Og skyggnið í gær yfir Kjöl og Langjökul var svo gott að það var meira en 100 km. Samt lokað vegna öskufalls !
Það þýðir að í raun er mannsaugað besta mælitækið, því að með því sést langar leiðir út fyrir mælingaferilinn, og var skyggnið á svæðinu, sem þotuflug var bannað
Lokaniðurstaða: Veðurspá fyrir sunnudaginn sýndi, að ekki var hætta á hröðum hreyfingum öskumassans sem hafði verið yfir austanverðu Suðurlandsundirlendinu langt fram eftir degi og með því að nota tvær litlar eins hreyfils flugvélar, sem hefðu verið á lofti til skiptis þann dag, hefði verið hægt að fylgjast náið með því hvort askan kæmi yfir flugvellina.
Nú í kvöld kom flugvélin TF-TAL úr flugi yfir flugvellina í Keflavík, Reykjavík og á Ísafirði og var enga ösku að finna í lofti yfir vestanverðu landinu.
Engu að síður hefur völlunum verið lokað nú vegna tölvuspár frá London.
Sem betur fer er lítið flug yfir nóttina en hins vegar er hætt við að þetta muni trufla það flug sem fer um Keflavíkurflugvöll fyrst á morgnana.
Á neðstu myndinni sést til suðausturs meðfram öskuveggnum sem liggur frá Vatnajökli niður í Flóa.
![]() |
Aska yfir Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2011 | 20:36
Katla má kyrr liggja mín vegna.
Ég hef löngum sagt frá því að ég hafi beðið eftir Kötlugosi síðan 1947 þegar amma mín Ólöf Runólfsdóttir sagði mér magnaðar sögur af gosinu 1918. Hún var frá Hólmi í Landbroti og gosið hafði mikil áhrif á líf Skaftfellinga enda öskufallið meira þá en í Grímsvatnagosinu nú.
Katla á enn meiri ítök í mér fyrir þá sök, að í kjölfar gossins og afleiðinga þess flutti amma til Reykjavíkur og þar kynntist hún öðrum Skaftfellingi, Þorfinni Guðbrandssyni frá Hörgslandi á Síðu, sem líka hafði flutt til Reykjavíkur.
Má því segja að Katla hafi leikið úrslitahlutverk í tilurð minni og því eðlilegt að hún og eldfjöll hafi á sér sérstakan blæ í mínum huga.
Næstkomandi laugardag stendur til að ég leiði dóttur mína, Ölmu, upp að altarinu til að giftast þar Inga R. Ingasyni og minnist ég hálfkærings svars míns, þegar ég var að vinna niðri í Sjónvarpi á giftingardegi elstu dóttur minnar, Jónínu og var enn ekki farinn á öðrum tímanum þótt athöfnin hæfist klukkan tvö.
Ólafur Sigurðsson starfsfélagi minn spurði mig af hverju ég væri ekki farinn, hvort starfið væri svona mikilvægt. "Ef Katla væri að byrja að gjósa, hvað myndurðu gera þá?"
"Því er auðsvarað", svaraði ég. "Það er aðeins eitt Kötlugos á ævinni, en hins vegar á ég fjórar dætur."
Auðvitað meinti ég þetta ekki en í hvert skipti sem ég hef átt leið framhjá Kötlu akandi eða fljúgandi í öll þessi ár hef ég gjóað til hennar augunum og sagt við hana í huganum: "Æ, úr því að þú átt eftir að gjósa hvort eð er, af hverju lýkurðu því ekki bara af núna? "
En nú er engin ástæða til þess að velta svona löguðu fyrir mér. Ég var í viðtali við þýska útvarpsstöð í gær og var spurður um viðbrögð fólksins fyrir austan.
Ég sagði að allt frá Móðuharðindunum hefðu Skaftfellingar verið þeir Íslendingar sem þurft hefðu að brynja sig mestu þoli og þrautseigju til að lifa af þær hörmungar sem íslensk náttúra gæti lagt á þjóðina, enda hefðu þær hvergi bitnað jafn hastarlega á fólki og fénaði og þar.
Þessi sálarhreysti hefði skilað þeim í gegnum Kötlugosin sem komu á eftir, hið síðasta 1918 og gefið þeim baráttuþrek og æðruleysi sem myndi skila þeim í gegnum það sem framundan er.
Og hér eftir mun ég ekki framar tala til Kötlu á annan veg en þann, að biðja hana vinsamlega að liggja nú kyrr því að nú sé nóg komið.
![]() |
Líkist Kötlugosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2011 | 12:46
Leitað að öskuskýinu í dag.
Nú síðdegis er ætlunin að fara í mælingaflug yfir flugvellina í Keflavík, Reykjavík og á Ísafirði og kanna öskumagnið í loftinu. Þetta verður gert á vegum Isavia og það eitt eru mikilsverð tíðindi.
Mælingarnar í gær og í fyrradag auk könnunar úr lofti á útbreiðslu öskuloftins með tilheyrandi ljósmyndatöku sýndu svo ekki verður um villst að fráleitt var að loka þessum flugvöllum.
Með því að Isavia tekur þessar sjálfsögðu mælingar að sér, sem byggðar eru á samstarfi í gerð mælitækja á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og háskólans í Dusseldorf, er notuð sú tækni og þau tæki sem fyrir hendi eru til þess að kanna ástand mála en láta ekki nægja tölvuspár frá London sem fjöldi jarðvísindamanna og flugmanna, sem þekkja til, gagnrýna nú harðlega.
Ég hef í athugasemdum við bloggpistla mína verið atyrtur fyrir þátttöku mína í þessu máli og fullyrt að ég sé í fífldirfsku að leggja til að lífi þúsund flugfarþega verði hætt vegna lítilfjörlegra hagsmuna og að átt hefði fyrir löngu að svipta mig flugréttindum vegna glæfralegs flugs míns við gjósandi eldstöðvar á Íslandi í næstum hálfa öld, alls við 23 eldgos !
Líklega þyrfti þá að bæta við flugréttindum flugmannanna RAX og Ólafs Sigurjónssonar í Forsæti í Flóa, auk Harðar Guðmundssonar, en þessir flugmenn hafa mikla reynslu af flugi vegna eldgosa.
En verkin sýna merkin.
Í fyrra bönnuðu nokkrir alvitrir fjarstaddir tölvuspekingar í London, sem aldrei hafa séð eldgos, allt flug á Íslandi í nokkra daga þar sem sól skein á bláum himni en leyfðu það síðan þegar í Reykjavík var mesta öskufall, öskumistur og svifryk, sem mælst hafði þar !
Niðurstaða þeirra jarðfræðinga og flugmanna, sem mesta reynslu hafa af eldgosum og flugi í nánd við þau er einföld: Sjónin er besta mælitækið og mælingar í gær og fyrradag leiða þetta vel í ljós.
Þegar veðurskilyrði eru lík þeim sem verið hafa yfir landinu síðustu daga að hægt hefur verið að horfa yfir landið og helstu flugleiðirnar og taka undir með Jónasi Hallgrímssyni: "Landið er fagurt og frítt / og fannhvítir jöklanna tindar./ Himinninn heiður og blár. / Hafið er skínandi bjart" er ansi hart að nákvæmar og dýrar mælingar þurfi til að leiða í ljós það sem er svo augljóst.
Og þegar talað eru um "lítilfjörlega hagsmuni" er það einkennilegur mælikvarði sem lagður er á 750 milljón króna beint tap fluglfélaga í fyrra auk tapsins af völdum annarrar röskunar og röngu orðspori landsins.
![]() |
Flugi aflýst til Bretlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)