4.5.2011 | 21:58
Drepa! Drepa !
Drápsfréttir eru tískuorð dagsins. "Ekki að hika við að dæma Mubarak" til dauða er sagt um fyrrverandi forseta Egyptalands og "í samræmi við bandarísk gildi" að drepa hinn vopnlausa Osama bin Laden.
"Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" hljómaði lögmál í fornöld sem enn virðist eiga sér öfluga talsmenn hjá þjóðum sem segjast hafa nútíma mannréttindi í hávegum.
Ég fylli hóp þeirra manna sem telja, að manndráp sé aldrei réttlætanlegt geti menn komist hjá því.
Í báðum fyrrnefndum tilfellum, Osama bin Laden og Mubarak, er um að ræða tvo kosti og í hvorugt skiptið dráp nauðsynlegt. Ef menn trúa því að bin Laden hefði getað sprengt sjálfan sig í loft upp um leið og þá sem komu að honum, hefði hann hvort eð er gert það áður en hann var skotinn.
En líkurnar á því að hann gerði það voru sáralitlar. Menn eins og bin Laden, sem víla ekki fyrir sér að senda aðra í opinn dauðann, eru sjaldnast það hugaðir að fórna lífi sínu.
![]() |
Gæti verið dæmdur til dauða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.5.2011 | 20:02
Óreiðan í skipulagsmálunum.
Ekki þarf annað en að líta á kort, sem sýnir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til að sjá hvílíka óreiðu skipulag þessa svæðis býður upp á.
Tjónið af völdum þessa skrímslis má vafalaust telja í hundruðum milljarða króna frá því að þau grundvallarmistök voru gerð á miðjum sjötta áratugnum að sameina ekki Reykjavík og Kópavog.
Það var skólabókardæmi um skaðlega skammsýni og sérhagsmunahyggju íslenskra stjórnmálamanna.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík máttu ekki til þess hugsa að "kommarnir" í Kópavogi yrðu teknir inn, því að þá væri hætta á að missa meirihlutann í Reykjavík.
Á sama hátt fengu sósíalistarnir í Kópavogi grænar bólur við tilhugsunina að missa sinn meirihluta þar ef þeir sameinuðust "íhaldsbænum" Reykjavík.
Óreiðan stingur í augu á svo mörgum stöðum og mörgum sviðum að allt of langt mál væri að telja það allt upp.
Góð dæmi eru byggðamörk Reykjavíkur og Kópavogs sem eru hreinn brandari á köflum og einnig það hvernig Mosfellsbær aðskilur Kjalarneshluta Reykjavíkur frá meginborginni.
Nefna má að til þess að aka á milli húsa, sem liggja 100 metra frá hvert öðru á mörkum Salahverfis í Kópavogi og Seljahverfis í Breiðholti, þarf að fara nærri fjögurra kílómetra aksturleið í heilan hring!
Höfð voru uppi fögur orð á tímabili um samræmingu í skipulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en þau voru gersamlega svikin svo að ekki stóð steinn yfir steini eins og kom vel fram í fróðlegum þáttum Hjálmars Sveinssonar um þau mál í útvarpinu.
Fyrir löngu hefði verið átt að sameina öll sveitarfélögin milli Kúagerðis og Kjalarnestanga undir einn hatt þar sem einstök hverfi á borð við Grafarvog-Grafarholt, Árbæjarhverfi og Breiðholt hefðu álíka mikla stjórn eigin mála innan hverfis og Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður.
Heildarskipulagið væri hins vegar algerlega í höndum sameiginlegrar yfirstjórnar.
Það er enn hægt að gera þetta ef vilji fyrir umbótum af þessu tagi er fyrir hendi. Að vísu erfitt að bæta fyrir mistök í skipulagsmálum sem erfitt er að leiðrétta.
En viljinn til þess arna er nákvæmlega enginn. Þess vegna gerist ekki neitt.
![]() |
Erfitt að skilja Kjalarnes frá Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2011 | 08:52
Smá tilfæringar.
Fréttin af vefást mannsins í Ontario-fylki í Kanada á sér hliðstæður á Íslandi.
Þegar ég var barn leigði maður utan af landi herbergi hjá foreldrum mínum. Hann kom eitt sinn til mömmu og bað hana um að gefa sér mynd af henni.
Hann færðist undan þegar hún tregðaðist við og spurði um ástæðuna en loksins stundi hann upp: "Ég er með kærustu hér í Reykjavík en foreldrar mínir vilja endilega að ég sendi mynd af henni til þeirra. "
"Af hverju gerir þú það þá bara ekki?" spurði mamma. "Af því að hún er svo ljót", svaraði hann, - "þess vegna væri betri fyrir mig að senda þeim mynd af þér."
Þekktur bóndi við Ísafjarðardjúp hér fyrr á tíð var í bréfaskiptum við stúlku í Hálsasveit í Borgarfirði og sýndi hverjum sem var fyrir vestan mynd, sem kærastan hafði sent honum af sér.
Loks kom að því að þau mæltu sér mót í fyrsta sinn, og skyldi stefnumótið verða í Borgarnesi.
Þar hittust þau og komu síðan vestur. Sáu menn þá að stúlkan var alls ekki sú sama og myndin hafði verið af og var maðurinn inntur eftir því hvernig á því stæði. Hann svaraði því til að hún hefði sent honum mynd af systur sinni, sem var talsvert fallegri.
"Af hverju sagðirðu henni þá ekki upp þegar þú komst að hinu sanna í Borgarnesi" var spurt.
"Æ," svaraði ungi bóndinn, "hún hafði komið svo langa leið."
Sjálfur hafði hann þó farið margfalt lengri leið á stefnumótið.
Hjónaband þeirra varð, þrátt fyrir þetta, langt og farsælt.
![]() |
Versta stefnumót í heimi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)