Smá tilfæringar.

Fréttin af vefást mannsins í Ontario-fylki í Kanada á sér hliðstæður á Íslandi.

Þegar ég var barn leigði maður utan af landi herbergi hjá foreldrum mínum. Hann kom eitt sinn til mömmu og bað hana um að gefa sér mynd af henni. 

Hann færðist undan þegar hún tregðaðist við og spurði um ástæðuna en loksins stundi hann upp: "Ég er með kærustu hér í Reykjavík en foreldrar mínir vilja endilega að ég sendi mynd af henni til þeirra. "

"Af hverju gerir þú það þá bara ekki?" spurði mamma. "Af því að hún er svo ljót", svaraði hann, - "þess vegna væri betri fyrir mig að senda þeim mynd af þér." 

Þekktur bóndi við Ísafjarðardjúp hér fyrr á tíð var í bréfaskiptum við stúlku í Hálsasveit í Borgarfirði og sýndi hverjum sem var fyrir vestan mynd, sem kærastan hafði sent honum af sér. 

Loks kom að því að þau mæltu sér mót í fyrsta sinn, og skyldi stefnumótið verða í Borgarnesi. 

Þar hittust þau og komu síðan vestur. Sáu menn þá að stúlkan var alls ekki sú sama og myndin hafði verið af og var maðurinn inntur eftir því hvernig á því stæði.  Hann svaraði því til að hún hefði sent honum mynd af systur sinni, sem var talsvert fallegri. 

"Af hverju sagðirðu henni þá ekki upp þegar þú komst að hinu sanna í Borgarnesi" var spurt. 

"Æ," svaraði ungi bóndinn, "hún hafði komið svo langa leið." 

Sjálfur hafði hann þó farið margfalt lengri leið á stefnumótið. 

Hjónaband þeirra varð, þrátt fyrir þetta, langt og farsælt. 


mbl.is Versta stefnumót í heimi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo er búið að semja fjári gott lag um þetta. Snillingurinn Rupert Holmes sagði frá þessari sögu svona: http://www.youtube.com/watch?v=Fsj2wdFDmLk

Kristján (IP-tala skráð) 4.5.2011 kl. 13:37

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta gerðist hér á Reyðarfirði fyrir um 15-20 árum.

Einhleypur miðaldra karl, frekar undarlegur í háttum og útliti, (sem alls ekki var að hjálpa honum í samskiptum við hitt kynið) sendi mynd af kunningja sínum til stefnumótafyrirtækis í útlöndum. Í meðmælabréfi sínu með myndinni, sagðist maðurinn eiga mikið undir sér og væri stórbóndi og að auki með fyrirtæki.

Vissulega bjó maðurinn á bóndabæ í nágrenni Reyðarfjarðar, en enginn var búfénaðurinn og húsakosturinn ekki upp á marga fiska. Fyrirtæki hans var einhver vísir að bílaparta og hjólkoppasölu og draslið lág eins og hrávið um allar koppagrundir við bæinn.

Einn viðskiptavinur stefnumótasíðunnar, ung og falleg kona, sem bjó hinu megin á hnettinum, leist vel á karlinn og úr varð að hún lagði í langferð til að búa með draumaprinsinum.

Þessi hugljúfa ástarsaga endaði um leið konan leit öll herlegheitin augum og ekkert hefur til hennar spurst á Austurlandi, eftir að hún yfirgaf karlinn með pjönkur sínar og pistla, fáeinum dögum eftir að hún kom.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2011 kl. 14:09

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

pinkla

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2011 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband