Vetur og sumar bresta á

Í október í fyrra brast veturinn á á nokkrum dögum einmitt á þeim tíma sem í almanakinu stendur að vetur sé að ganga í garð. Þar á undan hafði verið einmuna hlýindatíð og hitatölurnar með tveimur tölustöfum. 

Svipað gerist nú, nema að þetta bar ekki alveg upp á sumardaginn fyrsta.

Fyrir nokkrum dögum var miðbærinn alveg steindauður þegar farið var um hann en í fyrradag iðaði allt af lífi. 

Þegar ég var í Yellowstone í Klettafjöllunum í lok september 2008 las maður úr veðurupplýsingum að veturinn kæmi þar á einni til tveimur vikum á sama tíma á hverju hausti. 

Það gekk eftir.  

Nú er það ekki aðeins sumarið sem brestur hér á með meginlandssvip, eins og Einar Sveinbjörnsson bendir á, heldur brast veturinn á í fyrrahaust á svipaðan hátt.  


mbl.is Man ekki önnur eins umskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað mega eftirhermur þá segja ?

Eftirhermur lifa fyrst og fremst og nærast á því að herma eftir fólki, sem er áberandi í þjóðfélaginu og allir þekkja. Líf þessa fólks og það, að það sé áfram áberandi, er því mikið hagsmunamál fyrir eftirhermur og skemmtikrafta. 

Eitt sinn, þegar Hannibal Valdimarsson sat í sminkherbergi í sjónvarpinu fór ég að gantast með þetta og sagði að kannski kæmi að því að ég og fleiri keyptum okkur líf- og gengistryggingu fyrir helstu persónurnar, sem við lifðum og nærðumst á. 

Ég man að Hannbal fannst þetta ekki fyndið og ég sá strax af hverju - hann hafði nýlega orðið aldursforseti Alþingis. 

Stundum hverfa persónur það mikið úr umræðunni að það hið hefur ekki sama gildi að herma eftir því og áður var. 

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra varð það mikill happafengur fyrir mig að geta "grafið hana upp" ef svo má að orði komast, dustað af henni rykið, sem sest hafði á hana frá því fyrir 15 árum, og gera mér mat úr því að hún hafði þeyst fremst fram á orrustuvöll stjórnmálanna. 

Sér þessa stað á tónlistarspilaranum hér til vinstri á bloggsíðunni. 

Ég hitti Jóhannes Kristjánsson eftirhermu fyrir skömmu og hann ljómaði yfir því að Ari Teitsson var orðinn varaformaður Stjórnlagaráðs og Þorvaldur Gylfason áberandi. 

En frægðin er fallvölt og því verða eftirhermur að sæta því að taka við áföllum af því tagi, að þeir, sem helst er hermt eftir, eigi sér blómaskeið umtals, sem geta stundum orðið endasleppt. 

Hugmyndin um að tryggja sig fyrir slíku gengur ekki upp og varla heldur sú ætlan Nicolette Sheridan að fá bætur fyrir að handritshöfunar skrifuðu konuna, sem hún lék, út úr þáttunum með því að láta hana deyja. 

Flosi heitinn Ólafsson sá húmorinn í því að hann var æ ofan í æ látinn leika menn, sem voru drepnir, og fann það góða út úr því þegar þessar persónur voru drepnar snemma í leikritunum því að þá var hann fyrr laus úr vinnunni, - það er að segja ef hann þurfti ekki að koma fram í framkallinu í lokin. 


mbl.is Vill endurlífga Edie Britt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkt ástand.

Ástandið í Írak fyri 2003 var sjúkt. Grimmur einvaldur hélt öllu þjóðfélaginu í heljargreipum og skirrðist einskis til að halda völdunum. Hann sæti þar líkast til enn að völdum ef hann hefði ekki farið út af þeirri braut sem Bandaríkjamenn ætluðu honum að feta með því vera mótvægi við Írani og þyggja fyrir vopn og stuðning.

Raunar fór Saddam ekki út af sporinu hvað það varðaði að hann væri að koma sér upp gereyðingarvopnum, því engin slík fundust í landinu eftir innrásina í það. 

Hefði hann verið "þægur" að öllu leyti hefðu Bandaríkjamönnum verið slétt sama um ógnarstjórn hans, - aðalatriðið að olían streymdi frá landinu öruggt og jafnt. 

Innrásin í Írak var gerð á þeim forsendum að "koma á frelsi og friði" og stöðva illvirki Saddams Husseins. 

En mannfórnirnar, sem þetta hefur kostað, eru vafalítið miklu meiri en orðið hefðu ef Saddam hefði ríkt áfram.  Þær taka engan endi enda er það sjúkt ástand að erlendur her sitji þar til eilífðarnóns.

Bandaríkjamönnum sjálfum myndi ekki þykja það eðlilegt ástand ef nokkurra milljón manna arabískt herlið hersæti landið og ráðskaðist með hvaðeina sem því þóknaðist. 


mbl.is Mannskæð fangauppreisn í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband