Til sóma fyrir þjóðina.

Ég var skráður inn í Fram áður en ég fæddist og er því eins gróinn Framari og hugsanlegt er. Í frjálsum íþróttum keppti ég fyrir ÍR.

Af þessu leiddi að KR var óhjákvæmilega helsti mótherjinn, íþróttafélag sem öll hin félögin setja efst á andstæðingalistann, enda hefur KR verið stórveldi í íþróttum svo lengi sem ég man eftir og enn meira stórveldi fyrr á árum en nú.

Að því sögðu sný ég nú við blaðinu og óska KR-ingum til hamingju með glæsilegan árangur, ekki aðeins í Evrópukeppninni, heldur líka í Íslandsmótinu.

Það fer ekki á milli mála að við, sem elskum að vera á móti KR, verðum að viðurkenna að þeir eru með besta knattspryrnulið landsins, sem varpar ljóma á okkur erlendis.  

 


mbl.is KR sló Zilina út úr Evrópudeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrafntinnusker eru ekki "við Mýrdalsjökul.

Staðurinn, sem maður var sóttur til nú síðdegis er í frétt mbl.is sagður vera "við Mýrdalsjökul. 

Það er afar lang sótt. Mýrdalsjökull er um 30 kílómetra í burtu frá staðnum og Tindfjallajökull miklu nær.

Ef slysstaður vestur af Hrafntinnuskeri er "við Mýrdalsjökul" eru Geysir og Gullfoss "við Gullfoss" og Leirársveitin "við Reykjavík".

Þessi ábending kann að þykja tittlingaskítur en aðalsmerki góðrar blaðamennsku er að vera rétt og nákvæm og auk þess er það allt of algengt að blaða- og fréttamenn virðist ekki líta á landakortið þegar þeir skrifa fréttir sínar heldur annað hvort fara með rangt mál eða lepja upp rangar upplýsingar.


mbl.is Þyrla send eftir manni við Mýrdalsjökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, gamli "sveitungi".

Hjarta mitt tekur alltaf kipp þegar ég heyri eitthvað fréttnæmt úr Langadalnum þar sem ég var í sveit fimm ógleymanleg sumur á aldrinum 9-14 ára. Talan 14 fylgir þarna með, því að ég varð 14 ára gamall í lok síðustu sveitardvalarinnar.

Af því að hinir eldri frá þessum árum frá 1950-54 eru gengnir eru það afkomendur þeirra sem maður reynir að fylgjast með úr fjarlægð eins og ættmennum sínum.

Fyrstu áratugina eftir að ég hætti að vera í sveit í Hvammi hafði ég gaman af að hitta kýrnar, sem voru afkomendur kúnna sem ég annaðist þarna á sumrin og sjá "ættarsvipinn" á þeim.

Yfirleitt giskaði ég rétt á hver væri ættmóðir hverrar.

Nú sé ég að Hilmar Frímannsson frá Fremstagili hefur verið ráðinn slökkviliðsmaður á skemmtilegan hátt og óska honum til hamingju með starfið með ósk um farsæld í því sem og öðru sem hann tekur sér fyrir hendur.  


mbl.is Nýr slökkviliðsstjóri í Austur-Húnavatnssýslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei. En við brugðumst þeim fyrir stríð.

Það er afar langsótt að Íslendingar hati Gyðinga þótt við styðjum ekki allt sem þeir eru að gera. Það er eins og það megi ekki anda á þá án þess að þeir fari af hjörunum og saki okkur um hroka og hatur.

Varla ber það vott um hatur að fulltrúi Íslands bar upp tillöguna um viðurkenningu á Ísraelsríki hjá Sameinuðu þjóðunum árið 1948.

Varla bar það vott um hatur á Gyðingum hvernig við buðum snemma Ben Gurion forsætisráðherra þeirra hingað til lands og veittum honum fyllsta sóma.

Margskonar önnur samskipti má nefna sem dæmi um velvild Íslendinga við Ísraelsmenn.

Afar langsótt er að núa núlifandi Íslendingum það um nasir að skáld orti sálma fyrir 350 árum um krossfestingu Krists og nefndi þá sem að henni stóðu.

Skoðanir Bobby Fishers komu máli hans ekkert við. Við veittum honum landvist á sömu forsendum og hefðu átt að gilda þegar Gyðingar reyndu að komast til Íslands undan oki nasista.

Þá brugðumst við hælisleitendum, sem margir voru hámenntað fólk sem sárlega vantaði í íslenskt þjóðlíf.

Í staðinn fengu norskir skógarhöggmenn forgang!

Þessi framkoma okkar var okkur til skammar en benda má á að við vorum ekki eina þjóðin sem brást Gyðingum þótt það sé svo sem engin afsökun.

 

 

 

 


mbl.is Hata Íslendingar gyðinga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband