Til hamingju, gamli "sveitungi".

Hjarta mitt tekur alltaf kipp þegar ég heyri eitthvað fréttnæmt úr Langadalnum þar sem ég var í sveit fimm ógleymanleg sumur á aldrinum 9-14 ára. Talan 14 fylgir þarna með, því að ég varð 14 ára gamall í lok síðustu sveitardvalarinnar.

Af því að hinir eldri frá þessum árum frá 1950-54 eru gengnir eru það afkomendur þeirra sem maður reynir að fylgjast með úr fjarlægð eins og ættmennum sínum.

Fyrstu áratugina eftir að ég hætti að vera í sveit í Hvammi hafði ég gaman af að hitta kýrnar, sem voru afkomendur kúnna sem ég annaðist þarna á sumrin og sjá "ættarsvipinn" á þeim.

Yfirleitt giskaði ég rétt á hver væri ættmóðir hverrar.

Nú sé ég að Hilmar Frímannsson frá Fremstagili hefur verið ráðinn slökkviliðsmaður á skemmtilegan hátt og óska honum til hamingju með starfið með ósk um farsæld í því sem og öðru sem hann tekur sér fyrir hendur.  


mbl.is Nýr slökkviliðsstjóri í Austur-Húnavatnssýslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ég held að Hilmar sé nú frá Breiðavaði þar sem faðir hans var bóndi en Hilmar býr nú á Blönduósi. Valgarður Hilmarsson föðurbróðir hans var hins vegar lengst af bóndi á Fremstagili.

Guðmundur St Ragnarsson, 21.7.2011 kl. 16:59

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og þarna held ég að þú hafir rétt fyrir þér Guðmundur. En líklega hefur nú Ómar vitað þetta líka því ekki eru nú margir honum kunnugri í sveitum þessa lands.

Árni Gunnarsson, 21.7.2011 kl. 18:16

3 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Eitt sinn var hlöðubruni að Tindum í Svínavatnshreppi. Það kom fyrir ef bændur hirtu djarft að það hitnaði í heyjum sem gat leitt til bruna. Slökkvuliðið á Blönduósi kom og slökkti eldinn. Þegar það lá fyrir stóð maður einn, þar hjá, sem ég kann ekki að nefna og reykti síkarettu. Veit hann þá ekki fyrr en hann fær vatnsgusu yfir sig og verður ævareiður og spyr  slönguhaldara, sem var Ólafur Sigurjónsson frá Rútsstöðum, fari ég rétt með, hvað þetta eigi að þýða?

Þá segir Ólafur; ,, Nú, ég sá þarna eldsglóð og þorði ekki annað en að slökkva hana" og hló ógurlega, með bakföllum, eins og honum var lagið.

Vorið 1961 17. maí brann bærinn í Stóradal í Svínavatnshreppi. Var þá gert hreppsútkall og hlupum við Syðri-Löngumýrarmenn yfir hálsinn snemma morguns.

Það var sárt að sjá þennan fallega og tignarlega burstabæ brenna til kaldra kola. Ég hafði oft gist þar þegar ég var að hitta vini mína þar. Bærinn bar vottum um ríkidæmi og var afar rúmgóður. Þar brann mikið bókasafn. Engir möguleikar eða úrræði voru til á staðnum til slökkvistarfa eða slökkvulið í sveitinni og því brann allt sem brunnið gat, en allt fólk bjargaðist.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 21.7.2011 kl. 18:31

4 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

 

Myndin

Þegar Björn á Ytri-Löngumýri bóndi og alþingismaður, varð fimmtugur, lét hann taka af sér mynd og gaf sveitungum sínum.

Stóradalsbærinn brann til kaldra kola 17. maí 1961 og bjargaðist heimilisfólkið naumlega úr brunanum. Sáralitlu af innbúi var bjargað.

Eitt sinn var Björn gestkomandi hjá Hönnu Jónsdóttur í Stekkjardal en hún átti heima í Stóradal þegar bærinn brann.

Hanna lýsti þannig atvikum er þau fóru úr bænum þegar þau urðu reyksins var. Fyrir ofan hjónarúmið var fagurlega útskorinn hilla og á henni var myndin af Birni og askja með ættarskartgripum hennar.

Og er þau sitja þarna yfir kaffibolla segir Hanna " Og í fátinu gríp ég myndina af Birni en skil skartgripina eftir ". Þá segir Björn af bragði,

" Það var rétt af þér Hanna mín að taka myndin, hún er verðmæt ".

Heimild: Hanna Jónsdóttir húsfreyja Stekkjardal

Þorsteinn H. Gunnarsson, 21.7.2011 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband