Þjóðarlöstur.

Íslendingar henda sígarettum, flökum, papparusli og hverju sem er út um bílglugga á ferð hvar og hvenær sem er.

Ef haldin er útisamkoma verða stundum margir ferkílómetrar þaktir af rusli á undraskömmum tíma. 

Þetta er eðlilegt. Þetta þykir nefnilega sjálfsagður hlutur og ef minnst er á sektir líkt og víða erlendis, allt upp í 120 þúsund krónur fyrir sígarettustubbinn eða karamellubréfið, er litið á slíkt sem kúgun og ófrelsi.

Einn helsti kostur Íslendinga er að vísu umburðarlyndi, sem kemur til dæmis fram í Gleðigöngunni, en sú tegund umburðarlyndisins, sem felst í kæruleysi og skeytingarleysi er sennilega versti ókostur okkar. 

Þess vegna líðst þessi yfirgengilegi sóðaskapur og eins og að reyna að stökkva vatni á gæs að reyna að stemma stigu við honum. 


mbl.is Yfirgengilegur sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af grundvallaratriðum froðubólunnar.

Allt of hátt gengi íslensku krónunnar og háir vextir ásamt tilbúnum fjármunum í viðskiptavild og gervigróða gerðu það að verkum að fjármagn sogaðist til landsins.

Af þessu súpum við seyðið á margan hátt. 

Sjávarútvegurinn og útflutningsgreinarnar töldu sig verða að taka lán til þess að standast hina skökku gengisskráningu og fyrir bragðið situr sjávarútvegurinn uppi með 500 milljarða skuldir. 

Mikið af þessum skuldum fór í að fjármagna fjárstreymi út úr greininni til brasks og bílífis út um allar koppagrundir. 

Makalaust er að lesa eftir á það hástemmda lof sem ausið var á þessa geggjun sem spannst upp í það að Íslendingar væru ríkasta þjóð í heimi með bestu lífskjörin og efnahagskerfi, sem stæði öllum framar, væri "íslenska efnahagsundrið".  Ofan á allt átti að vera hér ein minnsta spilling í heimi! 

Í raun var alger andstæða á ferðinni, mesta blekkingarbull, sem um getur á byggðu bóli. 


mbl.is Ofmetnasti gjaldmiðillinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru 24 þúsund kílómetrar ekki nóg?

Hvergi í nokkru vestrænu landi eru að finna jafn langa og marga vegaslóða og á íslandi, miðað við stærð landsins. Ekki er vitað nákæmlega hve þeir eru langir samtals en lægsta ágiskunartala, sem ég hef heyrt, er um 24 þúsund kílómetrar.

Til samanburðar má nefna að í grennd við Moab, Mekku torfæruaksturs í Bandaríkjunum, er stór þjóðgarður, Canyonland eða Giljaland, sem hefur sérhæft sig í að þjóna eigendum aldrifsbíla. 

Þeir stæra sig af því að 1600 kílómetrar af merktum vegaslóðum séu í þjóðgarðinum. 

Algert bann liggur við því að fara ekki út fyrir þessa slóða og liggja háar sektir við, enda þykja 1600 kílómetrar kappnóg. 

Hér á landi virðast hins vegar 24 þúsund kílómetrar ekki nægja og í sumar hef ég séð ljót dæmi um utanvegaakstur sem virðist ævinlega algerlega tilefnislaus og heimskulegur. 

Einnig hef ég séð ljót för, sem komu þegar menn fóru greinilega inn á leiðir á meðan þær voru enn lokaðar vegna aurbleytu. 

Ég hef komið á fundi um þessi mál þar sem einstakir menn hafa haldið því fram að allar göngugötur og kindagötur landsins eigi að vera til afnota fyrir vélhjól. 

Svo er að sjá að þeim nægi ekki 24 þúsund kílómetrar, heldur líkast til tvöfalt meira. 


mbl.is Utanvegaakstur með ólíkindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband