22.8.2011 | 20:29
Létt á þrýstingi Þráins?
Þrýstingur Þráins Bertelssonar á lausn á málum Kvikmyndaskólans sem hann sætti sig við hefur byggst á því að ef hann styðji ekki ríkisstjórnina missi hún meirihluta, sem nauðsynlegur er til að koma fram lögum, t. d. fjárlögum.
Nú er spurningin hvaða áhrif yfirlýsingar og gjörðir Guðmundar Steingrímssonar hafa á þetta.
![]() |
Ekki skilyrðislaus stuðningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2011 | 19:38
Draumaprinsessa í álögum.
Frá því að ég byrjaði að fylgjast ákaft með stjórnmálum fyrir 60 árum hefur draumaflokkurinn minn veirð frjálslyndur, víðsýnn, raunsær, grænn, lýðræðissinnaður umbótaflokkur.
Ýmsir forystumenn Framsóknarflokksins hafa í gegnum tíðina sýnt góða hluti, sem mér hefur líkað vel. En alltaf hékk eitthvað annað líka á spýtunni sem eyðilagði fyrir þessu.
Jónas frá Hriflu hafði lengi sérstöðu meðal íslenskrar ráðamanna að því leyti að fara reglulega til útlanda, bæði austur og vestur um haf til að víkka sjóndeildarhring sinn og kynnast því helsta sem þarvar að finna. Jónas var fyrstu íslenskra ráðamanna að sjá fyrir hið alþjóðlega umhverfi Íslands út 20 öldina.
Á hinn bóginn var Jónas alveg einstaklega óraunsær varðandi það að viðhalda sérlega óréttlátri kjördæmaskipan, smábænda- og hokurbúskap og misnota aðstöðu sína í valdapoti og hlaða undir SÍS og sína menn í kerfinu.
Eysteinn Jónsson var einn af frumkvöðlum íslenskrar náttúruverndarstefnu en áfram hélt Framsóknarflokkurinn að stunda spillingarkennt helmingaskiptasamband sitt við íhaldið og hygla Sambandsveldinu.
Í öll þessi 60 ár hefur Framsóknarflokkurinn verið draumaprinsessa í álögum í mínum huga.
Steingrímur Hermannsson var einlægur umhverfisverndarsinni og sérlega laginn og afkastamikill stjórnmálamaður. Með okkur tókust sérstaklega ánægjuleg kynni.
En spillingin í flokknum hélt áfram og í nýju helmingaskiptasambandi við Sjálfstæðisflokkinn náði hún nýjum hæðum, raunar eftir að Steingrímur var farinn frá völdum.
Þegar nýtt fólk komst til valda í flokknum Hrunveturinn mikla var eðlilegt að Guðmundur Steingrímsson renndi hýru auga til hans, flokksins, sem afi hans og faðir höfðu stýrt.
Nú var tækifærið með nýjum formanni að rífa flokkinn upp úr gömlu fari í takt við nýja öld og ný og krefjandi viðfangsefni, þar sem umhverfismálin og sambúð mannsins við móður jörð eru í raun langstærst.
En smám saman hefur flokkurinn verið að færast í gamla stóriðjufarið og verið að heykjast á stjórnlagaumbótum og er þess vegna áfram sama draumaprinsessan í álögum fyrir mig og fleiri og hann hefur verið allt frá því að ég man eftir mér.
Ég hef í gegnum tíðina í Alþingis- og borgarstjórnarkosningum kosið fleiri en einn flokk og fleiri en tvo en aðeins einu sinni kaus ég Framsóknarflokknum og hef alltaf séð eftir því, því miður.
Ég mun því varla úr þessu faðma þessa glötuðu draumaprinsessu mína.
![]() |
Á ekki lengur heima í Framsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.8.2011 | 19:23
Minnir á örlög Saddams Husseins.
Saddam Hussein lét sig hverfa á sínum tíma þegar hersveitir bandamanna tóku Bagdad. Honum tókst að fela sig furðu lengi og búast má við að Gaddafi gæti gert það líka, enda hefur löng valdatíð hans skapað sambönd hjá ýmsum þeim sem hann kom sér í mjúkinn við.
Hvimleitt er að heyra tönnlast á því í fjölmiðlum að hann muni "yfirgefa landið," rétt eins og hann sé að skilja það eftir munaðarlaust. Þetta á að vera einfalt á Íslandi: Fólk fer einfaldlega úr landi eða flýr land eftir atvikum.
![]() |
Talið að Gaddafi sé í Líbíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2011 | 18:58
Tilhlökkunarefni.
Það er tilhlökkunarefni að Heimsljós Laxness verði sett upp í Þjóðleikhúsinu. Sýning á verkinu í Borgarleikhúskinu fyrir allmörgum árum var minnisverð, og einkum var frammistaða Ólafíu Hrannar Jónsdóttur eftirminnileg að mínum dómi, því að mér fannst hún skjóta sér upp á stjörnuhimin íslenskra leikara með henni.
Ég var hugsanlega einn af fáum leikhúsgestum þá sem hafði upplifað aðstæður konunnar, sem hún lék, þegar ég var í sveit í Langadal og kynntist niðursetningunum sem þar voru í hálfhrundum torfbæ.
![]() |
Heimsljós sett upp í Þjóðleikhúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2011 | 12:40
Flókið viðfangsefni.
Á Íslandi munu vegaslóðar vera um 24 þúsund kílómetra langir. Sumri segja talsvert meira. Af því og fjölbreytilega í ferðum um landið leiðir að það viðfangsefni að hafa hemil á utanvegaakstri, sem spillir landi, er afar viðamikið og flókið.
Það hefur verið vitað í meira en tuttugu ár að hlutverk hestsins í smölun hefur farið síminnkandi og ég veit dæmi þess að í smölun á ákveðnum afrétti síðasta haust var aðeins notaður einn hestur, - annars aðeins fjór- og sexhjól.
Eftir átta ára "flugvallarbúskap" á Brúaröræfum og miklu flugi yfir svæðið þekki ég orðið nokkuð vel til þar. Þar eru, auk fjór- og sexhjóla, notaðir léttir jöklajeppar með stórum hjólbörðum, sem spora afar lítið ef hleypt er úr þeim, einkum ef mynstrið er fíngert.
Á Fljótsdalsheiði má sjá ljót för eftir vélknúin tæki, sem hafa verið notuð þar í rigningar- eða leysingatíð.
Flest þeirra eru þó gömul og gróf niðurstaða mín er sú, að vanir leiðsögumenn, sem hafa farið um þetta svæði í áratugi, fara yfirleitt afar skynsamlega og gætilega að.
För eftir þá, ef einhver eru, eru yfirleitt horfin í frostlyftingu næsta vors, enda vita þessir menn nákvæmlega hvar slík för hverfa eftir veturinn og hvar ekki, en það er mjög háð aðstæðum.
Svipað er að segja um vönustu smalamenn víða um land.
Verstu skemmdir af völdum utanvegaaksturs valda óvanir bílstjórar sem hafa hvorki reynslu né þekkingu til að átta sig á afleiðingum lögbrota sinna.
Þeir átta sig til dæmis ekki á muninum á því hvort viðkvæmur gróður er í mikilli hæð yfir sjó eða á láglendi eða hvort land er hart eftir langvarandi þurrka eða deigt vegna rigninga eða leysinga.
Á ferðum um hálendið er víða ljótt að sjá hvernig vélhjólamenn og jeppamenn hafa spólað í hringi utan við slóðir algerlega að þarflausu. Þótt slík för hverfi víða á nokkrum árum er full ástæða til að taka hart á slíku, því að ef slíkt er látið átölulaust spilla svona för út um allt upplifun þeirra þúsunda sem vilja njóta ósnortins lands.
Mörg ljót för má líka sjá vegna aksturs áður en fært er orðið á vorin, og eru lokanir fjallvega þá virtar að vettugi. Við slíku þarf að stemma stigu.
![]() |
Mótorhjól auglýst til aksturs utan vega í smölun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)