Ég féll fyrir Winter Wonderlandi Dollýjar.

Bandarísk sveitatónlist og bandarísk sveitatónlist geta verið tveir ólíkir hlutir. Þegar Kanaútvarpið byrjaði að senda út 1951 fór maður að heyra þessa tónlist í fyrsta sinn að einhverju marki.

Mér fannst hún í fyrstu ekki merkileg og afar flatneskjuleg og alltof mikið spilað af henni.  Fram að því hafði aðeins eitt og eitt lag úr þessari átt heyrst í íslensku útvarpi, og þá helst ef stórsöngvarar eins og Bing Crosby fluttu kántrílög. 

Lagið "Don´t fence me in" varð líkast til fyrst slíkar laga til að ná vinsældum hér og um svipað leyti mátti heyra "Back in the saddle again" sem ég hef reyndar ekki heyrt aftur í meira en sextíu ár. 

Lagið "Tenessee walts" er líka minnsstætt frá bernskuárunum. 

En með Kanaútvarpinu voru allar flóðgáttir opnaðar og smám saman fór maður að heyra nokkur gersemislög, sem sýndu, að góð tónlist þarf ekki að vera bundin við tónlistarstefnur. 

Þegar ég heyrði fyrst góða útgáfu af laginu "O, lonesom me" greip það mig afar vel og þetta varð fyrsti alvöru kántrísmellurinn sem náði í gegn hér á landi. 

Dolly Parton leið í raun og veru fyrir vöxt sinn og útlit sem listamaður, því að ég lét lengi vel blekkjast af því og hafði lítið álit á henni vegna þessara fordóma minna. 

En þegar ég heyrði hana fyrst blanda saman laginu "Winter wonderland og öðru jólalagi, sem ég man ekki hvað heitir, opnaðist alveg ný sýn hjá mér á hana sem listamann. 

Hvílík gargandi snilld einfaldleikans, hinnar ómótstæðilegu blöndu af barnslegri gleði og kynþokka! 

Síðan ég heyrði þetta fyrst eru bara ekki komin jól nema ég fái að hlusta á þennan söng Dollyjar og nú hlusta ég á ýmis lög í flutningin hennar á annan hátt en áður og átta mig á því að hún hefur margt gert stórvel. 

Á mörgum ferðum í bíl um vesturríki Bandaríkjanna gefst færi á að velja úr mörgum útvarpsstöðvum, sem sérhæfa sig í ákveðnum tegundum tónlistar. 

Það er alger unun að ferðast á þennan hátt og geta valið á milli þess að hlusta á besta kántrí í heimi, bestu bandarísku söngleikjatónlistina, bestu fifities- eða sixtieslögin o. s. frv. 

Við slíka hlustun skilst manni að innan kántrítónlistar rúmast allur regnboginn í gæðum og sama er að segja um aðrar tegundir tónlistar. 


Er "like" ekki dálítið tvíbent?

Á mbl.is í dag er varpað upp spurningu um "like" takkann eða merkinguna varðandi persónuvernd. 

Mér finnst annað tvíbent við þetta. Er orðið "like" endilega það sem við á þegar maður smellir á það? 

Maður sér kannski mjög athyglisverða frétt sem rétt sé að benda fólki á að lesa, en fréttin getur kannski verið um afar neikvætt fyrirbæri eða skaðlegt. 

Þá hikar maður auðvitað við að merkja sig við það að manni "líki" fréttin vel. 

 

P. S. Af ástæðum, sem mér eru ekki kunnar, er þetta blogg tengt við frétt um Selmu og Dolly Parton, en aðeins einn pistill minn í dag átti að vera það.  En, hvað um það, I "like" Dolly. 

 


mbl.is Selma kolféll fyrir Dolly Parton sjö ára gömul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtan um "fitandi mjólk".

Á öðrum stað hér á blogginu má sjá þann gamla og margtuggna fróðleik að mjólk sé fitandi.

Birt er mynd af undanrennufernu með pistlinum. Ef lesin er áletrun á fernunni um innihald hennar kemur í ljós að í hverjum 100 grömmum eru aðeins 0,1 g af fitu og 4,7 grömm af kolvetnum. 

Orkan í hverjum 100 grömmum er aðeins 34 hitaeiningar sem er lítið brot af því sem er í flestum öðrum fæðutegundum.  Ég man ekki eftir annarri fæðutegund í augnlblikinu sem hefur minni fitandi áhrif en undanrenna.

Þótt meiri orka og fita sé í mjólk en undanrennu er fullyrðingin um "fitandi mjólk" í meginatriðum röng ef marka má það, hvað er í mjólkurafurðum samkvæmt því sem stendur utan á umbúðum um þær. 

Ég horfi nú á fernu utan af sykurskertri kókómjólk og þar sést, að varla er hægt að innbyrða afurð sem er með færri hitaeingum á hver 100 grömm.  Þær eru aðeins 50. 

Í morgunkorninu eru yfirleitt um 350-380 hitaeiningar eða sjö sinnum fleiri. 

Sykurskerta kókómjólkin er ekki fituskert, sem samt er fitan þar aðeins 1%. Í höfrum og brauði er fitan margfalt meiri og jafnvel meiri en í mjólk. 

Það er hins vegar í sumum unnum mjólkurvörum sem fitan er skelfilega mikil.  Í smjöri og smjörva er hún 75% eða hundrað sinnum meiri en í skyri. 

Í súkkulalð, eins og rjóma, er fitan um 35-40% og þess vegna er súkkulaði, þar með talið "megrunarkexið" Prins póló að verða einn helsti og lúmskasti heilsuspillir samtímans. 

Þegar ég af heilsufarsástæðum varð fyrir þremur árum að fara að lesa utan á umbúðir um allt sem ég át, uppgötvaði ég að fáfræði mín hafði verið mjög mikil og þar með fordómar.

Lesum utan á umbúðirnar um það sem við étum! 

 

P. S.  Af óskiljanlegum ástæðum tengdust þrír bloggpistlar dagsins við frétt um Selmu og Dolly Parton en eins og sjá má á aðeins einn þeirra að vera tengdur við Dolly.  Kannski gæti skýringin verið sú að vaxtarlag Dollýjar tengist mataræði, en ég hélt að línurnar hennar hefðu ekki áhrif á dauð tækniatriði. 

 


mbl.is Selma kolféll fyrir Dolly Parton sjö ára gömul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnir í svissnesku þjóðlífi.

Í Stjórnlagaráði var talsverður áhugi á þjóðlífi og högum Svisslendinga vegna þeirrar sérstöðu, sem þeir hafa varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur.  Þær gegna afar miklu hlutverki, ekki bara á landsvísu eins og yrði hér, heldur í hinum einstöku kantónum.

Margt reyndist öðru vísi en ætlað var, og var ferð þeirra Salvarar Nordal og Þorkels Helgasonar til Sviss dýrmæt til þess að varpa ljósi á stjórnmál í Sviss. 

Þótt tiltölulega fáa þurfi til þess að koma af stað atkvæðagreiðslu eru kröfur til málatilbúnaðar svo strangar að að meðaltali eru mál ekki til lykta leitt fyrr en eftir nokkur ár efir að málið er fyrst tekið upp. 

Ákveðna ábyrgðarmenn þarf fyrir málinu og það þarf að vera rétt reifað. 

Mjög áberandi er að svissneskir þingmenn líta á sig sem algera þjóna fólkins og niðurstaðna þjóðaratkvæðagreiðslna en ekki öfugt.

Hér á landi felur hugtakið embættismaður, að ekki sé nú talað um "hátt settur embættismaður" eða "embættismaður í feitu embætti" í sér að staða hans snúist fyrst og fremst um völd. 

Talað er með ljóma um "valdamikið embætti".  

Þá vill gleymast að orðið "embætti" er náskylt orðinu "ambátt" sem hefur allt annað yfirbragð. 

En í raun er hugsunin sú sama, embættismenn eru þjónar fólksins en ekki öfugt. 

En enda þótt þjóðaratkvæðagreiðsllur eigi sér alda hefð í Sviss hefur það ekki leitt til þess að í því landi hafi jafnrétti og lýðréttindi fengið meiri framgang en annars staðar. 

Þvert á móti hafa Svisslendingar oft verið meðal síðustu þjóða til að lögleiða réttarbætur. 

Þeir hafa verið lagnir með því að nýta sér miðlæga stöðu og hlutleysi til þess að laða til sín fjármuni og liggja á þeim eins og ormar á gulli. 

Þetta er í grunninn þjóð, sem byggir kjör sín á fjármálaveldinu og þjónar því sem best má verða. 

Þess vegna kemur ekki á óvart tregðan til að aflétta bankaleynd eða til að aðstoða aðrar þjóðir við að finna illa fenginn auð. 

Þetta yfirbragð lands og þjóðar segir þó kannski ekkert beint um það hvort það væri betra eða öðruvísi ef þar væri ekki beitt þjóðaratkvæðagreiðslum í stórum stíl. 

En ljóst virðist að þjóðaratkvæðagreiðslurnar einar hafa ekki orðið til þess að Svisslendingar séu í fararbroddi í jafnréttismálum. Þvert á móti virðist þetta vera afar íhaldssamt og afturhaldssamt þjóðfélag að mörgu leyti. 


mbl.is Segir kröfur bandarískra stjórnvalda ganga of langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband