Fröken Reykjavík eldist eins og aðrar konur.

Borgarstjórinn okkar sagðist ætla að klæða sig eins fröken Reykjavík og því kann einhverjum að þykja það skjóta skökku við þegar CNN segir að hann hafi verið klæddur "eins og gömul kona".

En kannski er bara fólgið í þessu ákveðið raunsæi því að nú eru liðin næstum fjörtíu ár síðan Jónas Árnason gerði ljóðið um hina kornungu fröken, sem gekk "eftir Austurstræti á ótrúlega rauðum skóm".

Fröken Reykjavík ætti samkvæmt þessu að vera komin fast að sextugu og Jón Gnarr því alveg á réttu róli ef alls raunsæis er gætt. Fröken Reykjavík eldist eins og aðrir.

Ef Gleðiganga hefði verið haldin um 1960 hefði ég hugsanlega ekið í henni á minnsta bíl landsins, NSU-Prinz, sem í daglegu tali var kallaður "Litli gulur."

Í dag ók ég sem sjötugur karlfauskur á "Litla gul" því að ég eldist eins og aðrir þótt ökulagið hafi ekki breyst vitund.


mbl.is Segir að Jón hafi verið klæddur eins og gömul kona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurfjármögunun = að lengja í hengingarólinni.

Það er fínt orð, "endurfjármögnun", sem nú er notað yfir það þegar lánastofnanir draga lappirnar við að framlengja skuldir og veita ný lán til að borga hin eldri.

Gaman væri ef einhver hefði tíma til að orðtaka íslenska fjölmiðla á árunum 2007 og sjá, hvernig þetta orð "endurfjármögnun" var í vaxandi mæli nefnt þegar lýst var stöðu og störfum fyrirtækja á Íslandi.

Í raun var ástandið þannig, að hrun var óhjákvæmilegt bæði þessi ár og "endurfjármögnun" var aðeins fínt orði yfir það að lengja í hengingarólinni og fresta hruninu, en jafnframt að gera það stærra og verra en ella.

"Eigi hirði ég um hvort þú verð þig lengur eða skemur" sagði Hallgerður langbrók við Gunnar á Hlíðarenda þegar hann bað hana um að ljá sér hárlokk til að gera við slitinn bogastreng.

Hugsanlega voru þessi orð Hallgerðar ein þau viturlegustu sem sögð voru í Njáls sögu, og var þó af nógu að taka. Hallgerður vissi að óhjákvæmilega stefndi í það að maður hennar yrði drepinn og að það var illskárra að það yrði sem fyrst í stað þess að það drægist á langinn og kostaði mörg mannslíf að óþörfu.

Nú virðist vera svipað uppi hjá almenningi á Spáni og víðar og var hjá okkur veturinn 2008-2009.

Fróðlegt verður að sjá hver framvindan verður.


mbl.is Þúsundir mótmæla í Madríd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margfalt áfall.

Ef Talibanar hafa skotið niður Chinook-þyrluna, sem fórst nálægt átakastað í Afganistan getur verið um margfalt áfall að ræða fyrir Bandaríkjamenn.

1. Þetta er mannskæðasta áfall bandaríska hersins í landinu.

2. Ef lunginn af sérsveitinni, sem drap Bin Laden hefur farist með þyrlunni, er það mikið áfall og verður óspart notað af Talibönum til áróðurs.

3. Árásarþyrlur hafa síðustu ár þótt einhver skæðustu vopn nýtískulegustu herja heims. Þótt þær séu ekki nándar nærri eins hraðfleygar og orrustu- og sprengjuþotur vegur fjölhæfni þeirra og lipurð það upp og stærstu þyrlurnar hafa einnig mikinn árásarmátt. Það er áfall ef satt er, að Talibanar hafi grandað svona stóru hernaðarloftfari. Hernaðaryfirvöld munu þurfa að skoða vandlega hvað fór úrskeiðis og hugsanlega að breyta aðferðum sínum.

4. Þegar rándýr hernaðartæki bregðast, sem eiga stóran þátt í því að hernaðarútgjöld Bandaríkjanna ríða efnahag þeirra á slig, er það áfall sem skilar sér inn í kviku þess vanda, sem Bandaríkin standa frammi fyrir .


mbl.is Hefnd vegnar bin Ladens?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjun, sem hefði átt að hefjast fyrr.

Lækkun Standard & Poor.s á lánshæfismati Bandaríkjanna hefði átt að koma miklu fyrr, því að síhækkandi skuldir Bandaríkjamanna hafa verið kunnar um langt skeið og einnig það að ekkert væri að gert til að stöðva þessa þróun.

Raunar hafði kínverskt matsfyrirtæki lækkað lánshæfismat BNA fyrst allra og en reynt var að gera lítið úr því á Vesturlöndum.

Þetta virðist hins vegar bara vera byrjunin því að lækkun matsins byggir á því að langt er í frá að Bandaríkjamenn hafi gert þær ráðstafanir, sem til þarf til að stöðva þann samdrátt, sem virðist óstöðvandi.

 


mbl.is S&P lækkar Bandaríkin í AA+
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta leiðin, flesta fólkið ?

Ég er ekki í neinum vafa um það eftir Gleðigönguna í dag að fleira fólk var saman komið til að vera viðstatt einn atburð en ég man eftir fyrr.

Ekki þarf að fara í grafgötur með það að það var til bóta að fara hina nýju leið.

Í fyrsta lagi var mun rýmra um gönguna og vagnana en fyrr og því bæði hægt að bæta í herlegheitin og auka öryggi áhorfenda.

Mestu sýndist mér þó muna um mun meira rými fyrir áhorfendur. Frábært var að sjá allan mannfjöldann á gatnamótunu við Njarðargötu þar sem fólk var uppi á göngubrúnni og út um allt.

Enn frekara rými og raunar lang mesta áhorfendarýmið bættist þó við með Menntaskólatúninu, sem var þakið fólki.

Ofan á allt var síðan líkast til besta veður, sem Gleðigangan hefur fengið.

Aldeilis dásamleg hátíð þetta. 


mbl.is Þúsundir í gleðigöngunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. ágúst 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband