Það er og verður alltaf til ríkt fólk.

Vegna kvikmyndagerðar er ég talsvert á faraldsfæti um vegi landsins. Á Suðurlandsvegi hefur umferðin minnkað eitthvað eftir Hrunið en það hefur vakið athygli mína að umferð dýrra og stórra lúxusbíla hefur síst minnkað.

Það minnir á að þrátt fyrir áföll af því tagi, sem nú hafa bitnað á almenningi, virðast alltaf þeir vera til, sem slíkt virðist ekki bíta hið minnsta á.

Það kemur mér því ekki á óvart þótt dýrar lúxusíbúðir renni út eins og heitar lummur meðan fasteignamarkaðurinn er í frosti.

Það er ekki aðeins að ævinlega verða þeir til sem eiga nóga peninga heldur líka hitt, að ævinlega verða þeir til sem kunna á það að græða á kreppunni, - eins dauði er annars brauð.


mbl.is 50 lúxusíbúðir á einu bretti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er knattspyrnan.

Þetta virtist svo einfalt hjá stelpunum í kvöld, allar tölur, skot á mark, hornspyrnur o. s. frv. sýndu það sama og maður sá á skjánum, að þær íslensku áttu miklu meira í leiknum.

En svona er knattspyrnan; það er markatalan ein sem skiptir máli þegar upp er staðið, hvernig sem allt annað er í pottinn búið.

Í einum leiknum leggst þetta svona, í öðrum á hinn veginn, og aðalatriðið er að halda karakter, jafnvægi og stóiskri ró og gera betur næst.

Gott dæmi um gildi þessa má sjá í úrvalsdeild karla hjá liði Fram. "Lánlausir Framarar" var lýsingin á liðinu langt fram á haust og hjá sumum hefði verið búið að reka þjálfarann og ráða nýjan.

En það hlaut að koma að því að sama hliðin á lukkupeningnum kæmi alltaf upp, þegar honum var kastað og hin hliðin færi að sjást.

Þannig verður það vonandi varðandi íslenska kvennalandsliðið. Áfram, stelpur!


mbl.is Vonbrigði gegn Belgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varla húrrahróp á þessari öld.

Forðum tíð, jafnvel fyrir þúsundum ára, var talað um sjö mögur ár og sjö feit ár, sem einatt kæmu á víxl.

Vísindamenn hafa fundið út að talsvert var til í þessu, einkum varðandi veðurfar.

Uppsveifluárin á undan 2008 voru tæplega sjö, þegar allt tútnaði út svo að það sýndist vera fita, sem bjó til þessi feitu ár, en reyndist síðan vera loft.

En nú er mannkynið á endastöð rúmlega heillar aldar sem fól í sér feitustu ár allra tíma og verður kennd við drifkraft hennar, olíuna.

Öldin sem nú er að taka við verður öld hinna mögru ára þegar kemur að skuldadögunum á öllum sviðum.

Því miður eru ekki miklar líkur á því að ósk Steingríms J. Sigfússonar um að enginn fjármálaráðherra á eftir honum þurfi að standa að erfiðum fjárlögum. 

"You ain´t seen nothing yet" sagði forseti vor í fyrra um íslensku eldgosin, en hefði alveg eins getað sagt það um öldina, sem við siglum inn í, öld hinna síversnandi mögru ára hruns olíualdarinnar og nánast allra þeirra gæða, sem sífjölgandi mannkyn nýtur og lifir á.

Síðan er spurningin hve mörg húrrahróp á að hrópa fyrir þeirri lýsandi fyrirmynd annarra þjóða sem forsetinn segir nú við erlenda fjölmiðla að við séum varðandi Hrunið og úrvinnsluna úr því.

Á sama hátt og í eyru útlendinga var því haldið fram að við værum í fararbroddi í fjármálasnilli og fyrirmynd annarra þjóða, erum við nú orðnir snillingar í að vinna úr þeim ósköpum sem hin snillin færði okkur.

"Snilld" okkar nú fólst í því að við snuðuðum aðrar þjóðir um þúsundir milljarða króna með því að láta bankana fara á hausinn og munu þýskir aðilar til dæmis einir hafa tapað átta þúsund milljörðum á afleiðingum tvöfaldrar snilli okkar.  

 


mbl.is Engin húrrahróp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband