"Kjörið alræði"?

Ég hef verið að glugga í bókina "Rússland Pútíns" sem rússneska blaðakonan Anna Politkovskaja skrifaði eftir að Pútin var endurkjörinn forseti fyrir sjö árum.

Skrautsýningin og tilstandið, sem nú er haft í frammi í tenglsum við það að Medvedev ætlar að víkja á næsta ári fyrir Pútín úr forsetaembætti passar algerlega inn í þá lýsingu, sem Politkovskaja gefur í sinni bók á aðferðum Pútíns og hans manna við að nota öll meðöl nútíma áróðurstækni til að upphefja þennan raunverulega einvald Rússlands.

Þetta eru aðferðir sem þekktar hafa verið hjá einvöldum að Stalín og Hitler meðtöldum.

Politkovskaja var myrt í október 2006 og á sömu lund hefur farið fyrir mörgum þeirra, sem dirfst hafa að kasta rýrð á einvaldinn, sem hefur bæst við röð hinna fjölmörgu einvalda, sem hafa stjórnað Rússum með harðri hendi um aldir.

Í bók sinni gagnrýnir Politkovskaja þjóð sína fyrir það að hún skuli leyfa honum að komast upp með ofríki sitt og ótal pretti og blekkingar sem því fylgir.  En smám saman hefur færst yfir hana doði og uppgjöf sem veldur því að Pútín getur fengið meirihluta í "frjálsum" kosningum. Yfir slíkt hefur Sigurður Líndal prófessor sett fram hugtakið "kjörið alræði."  

Politovskaja bendir til dæmis á það að Pútín hafi aldrei tekið þátt í stjórnmálalegum kappræðum í sjónvarpi heldur sett eigið sjónarspil á svið með dyggri aðstoð ríkissjónvarpsstöðvanna í Rússlandi.

Ég kom til Rússlands fyrir nokkrum árum, og þótt ég væri aðeins í landinu í þrjá daga, var það nógur tími til þess að heyra heimamenn lýsa því hvernig tveir helstu bölvaldar þjóðarinnar, fátækt og spilling, þrífast og nærast undir einvaldsstjórn Pútíns.

Spillingin gegnsýrir allt þjóðfélagið, ekki síst réttarkerfið.

Nómenklatúran hvarf ekki með falli kommúnismans heldur skipti bara um föt og gerðist nómenklatúru-gróðapungar.

Politkovskaja játar í bókinni að kommúnisminn hafi farið illa með Rússland en sýnist það sem nú er að gerast þar vera orðið jafnvel enn verra.  Það eru sannarlega stór orð, einkum vegna þess að vesturlandabúar láta sér það vel líka að rússneska samfélagið sé sveipað í Pótemkimtjöld yfirborðslýðræðis og markaðssamfélags.

 

 


mbl.is Fögnuðu framboði Pútíns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara byrjunin ?

Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur eru ekki að leika sér þegar þeir dæla jarðhitavatni niður um borholur.

Þvert á móti er hér um afar nauðsynlegar aðgerðir að ræða vegna þess að annars rennur afgangsvatn frá Hellisheiðarvirkjun út í umhverfið og verður smám saman til vandræða.  Auk þess er vonast til að hægt sé að búa til nokkurs konar orkuhringrás, sem geti aukið nýtingu svæðisins, en eins og nú er fara tæp 90% orkunnar ónýtt út í loftið. P1013840

Þetta er ekki eina virkjunin, þar sem fást þarf við affallsvatn. Í Svartsengi er þetta vandamál og um tíu kílómetrum fyrir sunnan Kröflu er stækkandi tjörn, sem þar er að verða að stöðuvatni, en vatn í það rennur alla leið þangað ofan frá virkjanasvæðinu.

Á mynd hér að ofan er horft yfir þetta stækkandi vatn og sjást gufustrókarnir frá Kröfluvirkjun í fjarska.

Þetta vandamál á eftir að þrefaldast þegar búið verður að stækka Kröfluvirkjun eins og ætlunin er að gera, og eins og er yppta menn bara öxlum, þegar minnst er á þetta og segja að þetta verði leyst með niðurdælingu. P1013837

En þetta er ekki verst þarna heldur við Bjarnarflag. Þar er aðeins 3ja megavatta virkjun en samt er affallsvatnið farið að renna í gegnum Jarðböðin í átt að Mývatni, sem er aðeins um rúmlega þriggja kílómetra fjarlægð.

Á myndinni er horft í áttina að Námaskarði og Bjarnarflagi en nær sjást Jarðböðin og affallsvatnið frá þeim.

Affallsvatnið er þegar komið í Grjótagjá, sem er ekki lengur með tært vatn eins og áður, heldur gruggugt.

Þarna stendur til að gera þrjátíu sinnum stærri virkjun og erfitt að sjá annað en að allt hið stóraukna grugguga affallsvatn hennar fari beint ofan í Mývatn, sem er aðeins þrjá kílómetra í burtu og landslag hallar þangað.

Engar áhyggjur virðast menn hafa af því, framleiðslan á Bakka mun væntanlega fá forgang yfir lífríki Mývatns ef á þarf að halda.

Síðan yppta menn bara öxlum og segja: Það verður allt í lagi, affallsvatninu verður komið fyrir kattarnef með niðurdælingu þegar þar að kemur.

Niðurdælingin á Hellisheiði er enn á tilraunastigi og styrkt af þeim sökum. Nú hafa þegar komið fram ófyrirséðar afleiðingar af henni varðandi jarðskjálftamælingar og tilrauninnni að öðru leyti ekki lokið né liggur fyrir árangur af henni.

Samt er búið að slá því föstu að reisa í Bjarnarflagi stórvirkjun, 50% stærri en núverandi Kröfluvirkjun er, rétt við Mývatn og láta virkjunina njóta vafans, - ekki náttúruna eins og við skuldbundum okkur til að gera með því að undirrita Ríósáttmálann 1992.

Náttúra Mývatns er ekki aðeins eitthvað loftkennt fyrirbæri í sjálfu sér og áhugamál "Lattelepjandi kaffihúsafólks í 101 Reykjavík", heldur undirstaða undir ferðaþjónustunni á þessum slóðum og þeim miklu tekjum, sem fólk hefur af henni.

Veitt eru þau svör varðandi það, sem þarna á að gera, að vöktun verði viðhöfð varðandi þetta atriði.  

Og hvenær byrjar hún?  Svar: Þegar virkjunin hefur tekið til starfa !  Þá munu menn standa frammi fyrir því að hafa selt orkuna frá henni langt fram í tímann svo að í raun verður þessi vöktun jafn óþörf og það þegar læknir tekur púlsinn á látnum sjúklingi.

 


mbl.is Manngerðir skjálftar trufla vöktun Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak og ábendingar.

Í heildina tekið er það gott framtak hjá Ferðaklúbbnum 4x4 að birta allt ferlasafn sitt á vefnum. Um það gildir það sama og um alla kortaútgáfu, að slíkt er nauðsynlegt og þarft og í sjálfu sér erfitt að hafa á móti því, þótt einhverjir gallar kunni að leynast í verkinu.

Erfitt er að gera þá kröfu fyrirfram að alls ekki megi birta kort fyrr en þau séu 100% rétt.

Hins vegar er sjálfsagt að taka því vel, ef gerðar eru réttmætar athugasemdir við kortaupplýsingar og sérkennilegt að sjá því haldið fram í bloggi að Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu komi slíkt ekki við.

Þvert á móti kemur það Landsbjörgu við ef í ljós kemur að villur eða vafasamar upplýsingar leiða til óhappa.

Sjálfur fjallaði ég um það í fréttum á sínum tíma þegar í ljós kom að kort af Landmannaleið, sem jeppamenn notuðu, voru röng á hluta og birti bæði gagnrýni á það sem og viðbrögð Landmælinga.

Vegna þessa galla á kortinu, lentu nokkrir jeppar í miklum vandræðum  í krapa skammt norðan við Kirkjufell í Kýlingum, sem kostuðu björgunaraðgerðir í tvo daga og tiltfinnanlegt tjón á jeppunum.

Atvik þetta var að ýmsu leyti lærdómsríkt, því að það sýndi að varasamt geti verið að treysta ferlum í blindni.

Í ferðinni var ég aftarlega í jepparöðinni og vissi að sá sem fór fremst ók eftir bestu mælitækjum.  Fyrir bragðið var ég ekkert sérstakleg að pæla í því hvar við vorum nákvæmlega.

Ef ég hefði verið einn á ferð hefði ég hins vegar verið einn á ferð án GPS-ferlis hefði ég átt að geta séð það, að fenginni reynslu af tugum ferða meðfram Kirkjufellinu,  að við værum ekki að aka alveg ofan á Fjallabaksveginum við brekkrótina, heldur um það bil 150 metrum norðan við veginn, rétt utan við vatnsbakkann.

Þeir ferðafélagar mínir sem lentu í mestri fesu, skemmdu bíla sína upp á hundruð þúsunda króna.

Ég var hins vegar svo heppinn að jeppinn, sem ég var á, var árgerð 1973 og auðvelt eftir á að tjasla upp á skemmdirnar fyrir sáralítinn pening eða um 30 þúsund krónur alls.

Mér fannst alveg sjálfsagt mál að benda á gallann á kortinu á sínum tíma, og í því fólst engin gagnrýni á það að kortin væru gefin út, heldur einungis á ákveðin atriði í þeim.

Í tengslum við málið benti ég á furðu grófar skekkjur í kortagerð, sem gátu numið allt að 1-2 kílómetrum á kortum, þar sem fullyrt var að nákvæmnin væri upp á 60 sentimetra!  Voru bæjaraðir í sumum tilfellum vitlausu megin við ár eða uppi í miðjum hlíðum fjalla.

Nú er svo er að sjá á blogginu,að sumir séu svo hörundsárir vegna ábendinga Jónasar Guðmundssonar, að þeir átelji hann fyrir að vekja máls á umdeilanlegum atriðum í ferlasafni F 4x4.

Eftir sem áður er umfang ferlasafnsins slíkt, að ábendingarnar verða að teljat á afar þröngu sviði og ég tel að opin umræða og ábendingar séu öllum til góðs, lika þeim góðu og framtakssömu mönnum, sem birtu ferlasafnið og eiga þakkir skildar fyrir framtakið.


mbl.is Ferlar 4x4 fara um hættuleg svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagði Ólafur Ragnar Pútín frá Davíð og Halldóri?

Það var snemma ljóst á stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar að honum lét best að vera sem einráðastur.

Í borgarstjórn Reykjavíkur var þetta auðvelt, því að langvarandi meirihluti Sjálfstæðismanna áratugum saman hafði skapað borgarkerfi þar sem öflugur, drífandi og hugmyndaríkur borgarstjóri naut sín.

Og það gerði Davíð svo sannarlega og blómstraði í starfinu við velvild meirihluta borgarbúa á meðan hann fór fram á það.

Þegar hann fór út í landsmálin var veruleikinn annar, en Davíð var fljótur að finna lausn á þeim vanda, sem það skapaði að flokkur hans var ekki í meirihluta.

Hann reyndi fyrst bandalag við Jón Baldvin Hannibalsson, en af ýmsum ástæðum gekk það ekki nema í fjögur ár.

Þá fann hann alveg sérlegan hentugan spilafélaga í Halldóri Ásgrímssyni og gerði við hann sterkasta stjórnmálalega bandalag, sem íslensk stjórnmálasaga síðustuu aldar kann frá að greina.

Undir lok tólf ára valdatímabils þeirra var svo komið að hér á landi ríkti ástand, sem var afar nálægt því sem Sigurður Líndal hefur skilgreint sem "kjörið alræði" og þeir félagar skiptust á embættum undir lokin án þess að séð yrði að það breytti neinu að öðru leyti en því að Halldór átti erfiðara með að halda sessi sínum sem forsætisráðherra en Davíð, enda flokkur hans smærri og viðkvæmari fyrir sveiflum en Sjálfstæðisflokkurinn.

Rétt er að taka fram að að sjálfsögðu er ekki hægt að jafna stjórnmálaástandinu í Rússlandi við ástandið hér, því að alræðisstjórn Vladimirs Pútíns hefur leitt af sér pólitísk morð og annað harðræði, sem við þekkjum sem betur fer ekki.  

En aðferðin, sem stjórnmálalegir fóstbræður nota til að halda völdum speglast í bandaríska orðtakinu: "Ég klóra þér á bakinu og þú klórar siðan mér."

Hinn íðilslóttugi Pútín hefur fundið aðferð til að komast fram hjá því að í stjórnarskrá Rússlands eru ákvæði sem áttu að koma í veg fyrir langvarandi slímsetu valdasjúks ráðamanns. 

Pútín fann í Medvedev spilafélaga sem nú virðist tilbúinn til þess að makka rétt og skiptast á embættum við hinn alráða Pútín, þannig að Rússar muni ekki sjá fram á nein valdaskipti í landinu í náinni framtíð.

Það er skondin tilviljun að tilkyningin um þessa hrókeringu kemur beint í kjölfar fundar Ólafs Ragnars Grímssonar með Pútín og því engu líkara en Ólafur hafi hvíslað því að Pútín, hvernig Davíð og Halldór báru sig að á sínum tíma.

En auðvitað á þetta plott þeirra Pútíns og Medvedev sér langan aðdraganda í samstarfi, þar sem bandaríska orðtakið um klórið á bakinu hefur verið í gildi, rétt eins og hjá Halldóri og Davíð á sínum tíma.

 


mbl.is Pútín verði forseti 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband