Sagði Ólafur Ragnar Pútín frá Davíð og Halldóri?

Það var snemma ljóst á stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar að honum lét best að vera sem einráðastur.

Í borgarstjórn Reykjavíkur var þetta auðvelt, því að langvarandi meirihluti Sjálfstæðismanna áratugum saman hafði skapað borgarkerfi þar sem öflugur, drífandi og hugmyndaríkur borgarstjóri naut sín.

Og það gerði Davíð svo sannarlega og blómstraði í starfinu við velvild meirihluta borgarbúa á meðan hann fór fram á það.

Þegar hann fór út í landsmálin var veruleikinn annar, en Davíð var fljótur að finna lausn á þeim vanda, sem það skapaði að flokkur hans var ekki í meirihluta.

Hann reyndi fyrst bandalag við Jón Baldvin Hannibalsson, en af ýmsum ástæðum gekk það ekki nema í fjögur ár.

Þá fann hann alveg sérlegan hentugan spilafélaga í Halldóri Ásgrímssyni og gerði við hann sterkasta stjórnmálalega bandalag, sem íslensk stjórnmálasaga síðustuu aldar kann frá að greina.

Undir lok tólf ára valdatímabils þeirra var svo komið að hér á landi ríkti ástand, sem var afar nálægt því sem Sigurður Líndal hefur skilgreint sem "kjörið alræði" og þeir félagar skiptust á embættum undir lokin án þess að séð yrði að það breytti neinu að öðru leyti en því að Halldór átti erfiðara með að halda sessi sínum sem forsætisráðherra en Davíð, enda flokkur hans smærri og viðkvæmari fyrir sveiflum en Sjálfstæðisflokkurinn.

Rétt er að taka fram að að sjálfsögðu er ekki hægt að jafna stjórnmálaástandinu í Rússlandi við ástandið hér, því að alræðisstjórn Vladimirs Pútíns hefur leitt af sér pólitísk morð og annað harðræði, sem við þekkjum sem betur fer ekki.  

En aðferðin, sem stjórnmálalegir fóstbræður nota til að halda völdum speglast í bandaríska orðtakinu: "Ég klóra þér á bakinu og þú klórar siðan mér."

Hinn íðilslóttugi Pútín hefur fundið aðferð til að komast fram hjá því að í stjórnarskrá Rússlands eru ákvæði sem áttu að koma í veg fyrir langvarandi slímsetu valdasjúks ráðamanns. 

Pútín fann í Medvedev spilafélaga sem nú virðist tilbúinn til þess að makka rétt og skiptast á embættum við hinn alráða Pútín, þannig að Rússar muni ekki sjá fram á nein valdaskipti í landinu í náinni framtíð.

Það er skondin tilviljun að tilkyningin um þessa hrókeringu kemur beint í kjölfar fundar Ólafs Ragnars Grímssonar með Pútín og því engu líkara en Ólafur hafi hvíslað því að Pútín, hvernig Davíð og Halldór báru sig að á sínum tíma.

En auðvitað á þetta plott þeirra Pútíns og Medvedev sér langan aðdraganda í samstarfi, þar sem bandaríska orðtakið um klórið á bakinu hefur verið í gildi, rétt eins og hjá Halldóri og Davíð á sínum tíma.

 


mbl.is Pútín verði forseti 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Vigdís Finnbogadóttir naut mikillar virðingar á meðan hún var forseti Íslands og jókst sú virðing til muna eftir að hún lét af embætti. Vigdís missti síðan þessa virðingu hjá þjóðinni þegar hún tók opinberlega afstöðu gegn sinni þjóð í Icesave málinu. Alveg skelfilegt hlutskipti fyrir hana og sagnfræðingar framtíðarinnar eiga eftir að skrifa mikið um hennar mistök í því máli.

Ómar Ragnarsson hefur notið mikillar virðingar hjá þjóðinni fyrir sjónvarpsþætti sína um landshætti og náttúru Íslands. Sá sami Ómar Ragnarsson nýtur minni og minni virðingar eftir því sem hann tjáir sig meira um pólítík.

Með vinsamlegri kveðju,

Bjarni Th. Bjarnason.

Bjarni Th. Bjarnason (IP-tala skráð) 24.9.2011 kl. 14:53

2 identicon

Ég er bara ósammála þér, Bjarni. Ómar (lands og þjóðar) er maður að mínu skapi.

Elvar Másson (IP-tala skráð) 24.9.2011 kl. 17:02

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er hægt að sleppa; "...nýtur minni og minni virðingar eftir því sem hann tjáir sig meira um pólítík." og segja einfaldlega að "hann fari með fleipur"... og færa svo rök fyrir því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.9.2011 kl. 17:48

4 identicon

Enn einu sinni sendir öfgafullur hægri armur sjálfstæðisflokksins ákveðnar persónur fram á ritvöllin, þegar Ómar Ragnarsson er segja þjóðinni sína sýn á þjóðfélagið !

Í þessu sambandi má setja þá skoðun fram að þessar öfugafullu hægri skoðanir hafi hent Ómari Ragnarssyni út úr sjálfstæðisflokknum !

Hef oft spurt mig að því hvort þessi öfgafullu persónur hafi sína atvinnu að því að þeir séu öfgafullir sjálfstæðismenn ?

Hvers vegna er þetta þjóðfélag , sem þessir öfgafullu sjálfstæðismenn  hafa stjórnað og eyðilagt ,  ekki með burði til að hafna þessum stjórnmálaflokki ?

Getur verið að innviði þjóðfélagsins sé allt gegnum sýrt af þessum gjörspillta öfgafulla fólki ?   Sitjum við uppi með þessa einstaklinga á launaskrá hjá þjóðinni ?  Getur það verið að þeir sem eru að skrifa hér gegn Ómari séu launaðir í þessum tilgangi ?

JR (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 01:06

5 identicon

Sæll Ómar. Takk fyrir góða pistla og sérstaklega þennan. Það liggur alveg kristaltært fyrir og sagan sýnir það að atburðir voru sem Ómar lýsir. Þegar menn eru síðan að reyna að gera lítið úr sannleik sögunnar með því úthúða greinarhöfundi þá er eitthvað mikið að. Kannski eru Sjálfstæðismenn og sérstaklega þeir sem eru ennþá með glýju í augunum fyrir Davíð( og eru því miður ótrúlega margir) ekki hrifnir af sannleikanum. Haltu áfram að varpa þínu pólitíska skilning fram fyrir okkkur hina sem höfum gaman af.

Bjarni Hjartarson (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 12:07

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sjálfstæðisflokkurinn borgar mér 10 þúsund kall fyrir athugasemdina á blogg Ómars. Fín aukavinna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2011 kl. 12:11

7 identicon

Þetta er að miklu leyti rétt hjá Ómari.  Eins og hann segir þá er hann ekki að bera saman stjórnmálaástandið í Rússlandi og Íslandi saman heldur einungis að benda á það að í löndunum tveimur séu eða hafa valdamiklir menn skipst á embættum eins og ekkert sé.  Ég get ekki séð að hann sé að skjóta á einn né neinn með því.

Skúli (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 15:37

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stundum er ég svolítið "fattlaus" eins og krakkarnir segja. Ég fatta ekki þessa athugasemd Gunnars um 10 þúsund kallinn. Bara djók?

Ómar Ragnarsson, 25.9.2011 kl. 20:28

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, þetta er "bara djók, Ómar og sagt í háði við athugasemdir þeirra JR og Bjarna, #4 og#5

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2011 kl. 21:42

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Auðvitað, ég hafði hlaupið of hratt yfir #4 og #5.

Ómar Ragnarsson, 25.9.2011 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband