5.9.2011 | 22:27
Dýr myndi Hafliði allur...
Skaðabótamálið í Nice í Frakklandi, þar sem eiginkonu voru dæmdar 1,6 milljón króna bætur fyrir takmarkað kynlíf af hendi eiginmannsins, minnir á atburð úr Íslandssögunni.
Þegar þeir deildu, Hafliði Másson og Þorgils Oddason forðum, lauk viðskiptum þeirra þannig, að úr varð skaðabótamál, sem leysa þurfti vegna fingurs sem Þorgils Hafði höggvið af Hafliða.
Sáttin í málinu fólst í því Hafliði fékk sjálfdæmi um bætur og nýtti hann sér það með því að hafa bæturnar svimandi háar, miðað við skaðann.
Þá varð fleyg setningin, sem Þorgils sagði: "Dýr myndi Hafliði allur ef svo skyldi hver limur."
Ég fæ ekki betur séð en að hinn skaðabótaskyldi franski eiginmaður geti hugsað hið sama um sjálfan sig, að dýr myndi hann allur ef svo skyldi hver limur.
![]() |
Sekt fyrir skort á kynlífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.9.2011 | 16:19
Tognaði við að taka upp tösku.
Það er ekki nýtt að afburða íþróttamenn togni á ótrúlegan hátt. Örn Clausen, sem þrjú ár í röð var í 2-3ja sæti á heimsafrekalistanum í tugþraut, átti að keppa á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952 en varð fyrir því óhappi þegar þangað var komið, að togna illa í handlegg við það að taka upp þunga ferðatösku og sveifla henni upp í hillu.
Örn var oftar eindæma óheppinn en í þetta sinn. Þegar hann flaug ásamt gullaldarliði íslenskra frjálsíþróttamanna til Brussel 1950 notuðu hlaðmenn Flugfélags Íslands tösku hans til að halda kyrri hurð á Reykjavíkurflugvelli og hún varð eftir fyrir bragðið.
Á þessum árum var þess enginn kostur að koma töskunni í tæka tíð til Brussel og skólaus tugþrautarmaður er verr settur en nokkur annar íþróttamaður, því að nota þarf mismunandi skó í mismunandi greinum.
Hann varð því að fá lánaða misstóra skó hjá öðrum keppendum, meðal annars kastskó hjá Jóel Sigurðssyni, sem voru þremur númerum of stórir!
Þegar litið er til þess að Torfi Bryngeirsson þakkaði það forláta stökkskóm, sem hann vann í hlutkesti heima, að hann varð Evrópumeistari í langstökki, má furðu gegna að Örn var hársbreidd frá því að vinna gullið í tugþrautinni.
Örn var það góður, að ef hann hefði keppt í 110 metra grindahlaupi eða langstökki, hefði hann átt möguleika á verðlaunasætum í þessum greinum.
![]() |
Tognaði vegna flughræðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.9.2011 | 14:53
Meðlætið mest fitandi.
Ef leggja á mat á það hve fitandi Big Mac í hlutfalli við aðrar matvörur verður maður að vita hve margar hitaeiningar eru í hverjum 100 grömmum.
Sé Big Mac 100 grömm er hann meira fitandi en flest annað. Sé hann hins vegar 150 grömm er varla hægt að telja hann fitandi.
Ég efast um að kjötið sjálft sé svo mikið fitandi, heldur er brauðið og þó einkum sósur, sem étnar eru með honum, sennilega meira fitandi.
Ofan á hitaeiningarnar í Big Mac sjálfum verður síðan að bæta hitaeiningunum í gosdrykknum, sem drukkinn er með. Sé það magn fólgið í 250 ml flösku eru hitaeiningarnar í því tæplega 200 og heildarorkan því tæplega 600 hitaeiningar.
En þetta og fituinnihaldið veður upp ef étnar eru sósur með.
![]() |
McDonald's birtir tölur um fjölda hitaeininga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2011 | 14:22
Hvaða reglur gilda um rafhjól erlendis?
Fyrst þetta: Vespa er vörumerki ákveðins framleiðanda og hvergi notað erlendis um "skutlur" eins og kalla mætti hjól með þessu byggingarlagi. (Hreyfill fyrir aftan ökumann en ekki fyrir framan hann)
Rafhjól er meira en tvöfalt styttra orð en rafmagnsvespa og því mun betra orð.
Í nágrannalöndum heita hjól með þessu byggingarlagi "scooter", - "roller" á þýsku. Ekki vespa.
En víkjum að því uppnámi sem virðist hafa orðið hér á landi út af innreið rafskutlanna. Erlendis hljóta að gilda ákvæði um fyrirbærið, sem er háð þeim takmörkunum að ná ekki meira en 25 kílómetra hraða.
Það er miklu minni hraði en hægt er að ná með vöðvaaflinu á reiðhjóli.
Eru aldursákvæði varðandi rafskutlurnar erlendis ? Er skylt að vera með vélhjólahjálma á þeim þar?
Hvernig væri að læra af erlendri reynslu og lagaákvæðum í stað þess að reyna að finna upp hjólið eða réttara sagt reglurnar um það.
Menn hrökkva eðilega í kút vegna aukinnar slysatíðni á reiðhjólum hér á landi en hún á sér þær eðlilegu skýringar að stóraukin notkun þeirra hefur óhjákvæmilega í för með sér aukna slysatíðni og að líklega fækkar bifreiðaóhöppum að sama skapi ef hjólin eru notuð í stað bíla.
Maður á reiðhjóli á 40 kílómetra hraða veldur áreiðanlega meira tjóni við árekstur heldur en maður á 25 kílómetra hraða á rafskutlu.
Ég tel óþarfa að fara á límingunum yfir jafn góðri og þarfri nýjung og rafhjólin eru. Lærum af reynslu margfalt stærra þjóða í stað þess að rjúka af stað með boð og bönn út og suður.
![]() |
Brjóta reglur á rafmagnsvespum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)