Er ekki rétt að ný og merkileg sjónarmið fái að koma fram?

Í svari þingmanns við eðlilegri spurningu fréttamanns af gefnu tilefni, sem þingmanninnum og fylgjendum hans fannst  óviðeigandi, kemur fram það sjónarmið hans, að ekkert sé athugavert við það að þingmaður, oddviti flokks síns í sínu kjördæmi og fyrrverandi forsætisráðherra og formaður flokks síns, skrópi á vinnustað sinn jafnvel vikum saman og fari með því ekki að ákvæðum þingskapa um skyldur þingmanna um að tilkynna þingforseta fjarvistir og ástæður þeirra, svo að kalla megi inn varamann. 

Sigmundur ber fram það nýstárlega sjónarmið að hann geti alveg eins fylgst með málum á Alþingi heima hjá sér án þess að mæta á vinnustaðinn. 

Er næsta víst að margir aðrir þingmenn og opinberir starfsmenn myndu telja það þægilegt og forvitnilegt ef þeir gætu sinnt vinnu sinni á þennan hátt.

Svarið sýnir raunar að spurning fréttamannsins var fyllilega viðeigandi til þess að þessi nýju sjónarmið kæmu fram.

Þingmenn eru í vinnu hjá kjósendum, almenningi, ef einhver skyldi hafa gleymt því, og það er skylda fjölmiðla að upplýsa um það hvernig þeirri vinnu er sinnt.  

 


mbl.is „Voðaleg reiði er þetta í Ríkisútvarpinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlaupandi stóð þvert fyrir bíl í myrkri: Óviðráðanleg skelfing.

Það var seint í ágúst 1961 sem ég var á ferð ásamt unnustu minni á litlum NSU Prinz bíl í myrkri á Norðurlandsvegi fyrir sunnan Blönduós, þegar skyndilega þusti heilt hestastóð upp á veginn hægra megin í veg fyrir bílinn. 

Á einu augabragði var bíllinn kominn inn í þéttan hrossahópinn! 

Þetta gerðíst svo snöggt og óvænt og hrossin voru það mörg og þétt saman, að árekstur við eitt eða fleiri þeirra var óumflýjanlegur þótt nauðhemlað væri.

Ekkert ráðrúm gafst til þess að áætla hvort hemlun gæti valdið því að hross, sem annars slyppu aftan við bílinn, myndu í staðinn lenda á honum.  

Hrossin gátu alveg eins lent á hlið eins og framan á þessum langminnsta bíls landsins, og eitt hrossanna lenti beint framan á bílnum en kastaðist áfram út fyrir veginn og lenti þar liggjandi utan vegar. 

Í myrkrinu virtust hrossin svo ógnarleg og stór og þetta var eins og að lenta inni í stóru aurflóði.

Og það er ólýsanleg skelfing sem fylgir því að lenda svona á lifandi veru og lemstra hana. 

Hesturinn reyndist fótbrotinn á afturfæti og það voru þung spor að fara heim að bæ þarna rétt hjá og tilkynna um þetta atvik. 

Bíllinn var furðu lítið skemmdur, aðeins beygla á lokinu á farangurshólfinu, sem er að framan á bílum með vélina afturí. 

Það reyndist nauðsynlegt að skjóta hestinn og efna til máls á hendur mér vegna árekstrarins, sem ég var talinn bera alla ábyrgð á, nokkuð, sem mér er enn í dag ómögulegt að skilja.

Hrossin hlupu það hratt að hesturinn, sem ég lenti á, kastaðist talsvert út fyrir veginn, augljóslega vegna þess á hve mikilli ferð hann var. 

Málið endaði með því að borga varð svimandi háa upphæð fyrir hestinn á þeim forsendum að þessi tiltekni hestur hefði verið sérstaklega dýrmætur vinur eigandans öðrum fremur.

Ég var á fullkomlega löglegum hraða þegar þetta gerðist en get fullyrt, að þegar hestahópur þeysir á miklum hraða í myrkri þvert í veg fyrir bíl á þjóðvegi, er árekstur óumflýjanlegur og tilfinning bílstjórans óviðráðanleg skelfing. 

Fróðlegt væri að vita hvort eitthvað hefur breyst varðandi ábyrgð aðila í þau 55 ár sem liðin eru síðan 1961. 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Er verið að bíða eftir dauðaslysi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband