Hlaupandi stóð þvert fyrir bíl í myrkri: Óviðráðanleg skelfing.

Það var seint í ágúst 1961 sem ég var á ferð ásamt unnustu minni á litlum NSU Prinz bíl í myrkri á Norðurlandsvegi fyrir sunnan Blönduós, þegar skyndilega þusti heilt hestastóð upp á veginn hægra megin í veg fyrir bílinn. 

Á einu augabragði var bíllinn kominn inn í þéttan hrossahópinn! 

Þetta gerðíst svo snöggt og óvænt og hrossin voru það mörg og þétt saman, að árekstur við eitt eða fleiri þeirra var óumflýjanlegur þótt nauðhemlað væri.

Ekkert ráðrúm gafst til þess að áætla hvort hemlun gæti valdið því að hross, sem annars slyppu aftan við bílinn, myndu í staðinn lenda á honum.  

Hrossin gátu alveg eins lent á hlið eins og framan á þessum langminnsta bíls landsins, og eitt hrossanna lenti beint framan á bílnum en kastaðist áfram út fyrir veginn og lenti þar liggjandi utan vegar. 

Í myrkrinu virtust hrossin svo ógnarleg og stór og þetta var eins og að lenta inni í stóru aurflóði.

Og það er ólýsanleg skelfing sem fylgir því að lenda svona á lifandi veru og lemstra hana. 

Hesturinn reyndist fótbrotinn á afturfæti og það voru þung spor að fara heim að bæ þarna rétt hjá og tilkynna um þetta atvik. 

Bíllinn var furðu lítið skemmdur, aðeins beygla á lokinu á farangurshólfinu, sem er að framan á bílum með vélina afturí. 

Það reyndist nauðsynlegt að skjóta hestinn og efna til máls á hendur mér vegna árekstrarins, sem ég var talinn bera alla ábyrgð á, nokkuð, sem mér er enn í dag ómögulegt að skilja.

Hrossin hlupu það hratt að hesturinn, sem ég lenti á, kastaðist talsvert út fyrir veginn, augljóslega vegna þess á hve mikilli ferð hann var. 

Málið endaði með því að borga varð svimandi háa upphæð fyrir hestinn á þeim forsendum að þessi tiltekni hestur hefði verið sérstaklega dýrmætur vinur eigandans öðrum fremur.

Ég var á fullkomlega löglegum hraða þegar þetta gerðist en get fullyrt, að þegar hestahópur þeysir á miklum hraða í myrkri þvert í veg fyrir bíl á þjóðvegi, er árekstur óumflýjanlegur og tilfinning bílstjórans óviðráðanleg skelfing. 

Fróðlegt væri að vita hvort eitthvað hefur breyst varðandi ábyrgð aðila í þau 55 ár sem liðin eru síðan 1961. 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Er verið að bíða eftir dauðaslysi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrirsögni ekki ólík þeirri sem birtist í
blöðum fyrir nokkrum árum:

Skreið til Nígeríu!

Húsari. (IP-tala skráð) 17.12.2016 kl. 16:19

2 identicon

"Hlaupandi stóð þvert fyrir bíl í myrkri."

Tilvalinn texti fyrir lesskilnimg í PISA pófi.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.12.2016 kl. 17:02

3 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Ég lenti í svipuðum hremmingum og þú Ómar sumarið 1978.Var á austurleið á bíl foreldra minna á suðurlandsvegi þegar að hópur af hestamönnum komu ríðandi á móti mér.Einn hesturinn fældist og réði knapinn ekkert við klárinn. Ég var stopp á veginum enda sá ég hvað í stefndi þegar að hesturinn tók undir sig stökk lenti allur á húddið og framrúðuna. Hann brotnaði á öllum fótum en knapinn hentist af baki og lenti utanvegar og staulaðist ómeiddur upp sem betur fer ..Hann tók um brjóst sér og hafði orð á því að hann hefði verið heppinn ,vínpelinn sem hann hafði innanklæða var óbrotinn frown Hrossið var aflífað á staðnum skorið á háls :( ,bíllinn var stórskemmdur og foreldrar mínir fengu ekki krónu út úr þessum ósköpum enda var skýrslan þannig að dýr eru alltaf í rétti jafnvel þótt að bíllinn væri kyrrstæður ,ökumaður edrú en knapinn var drukkinn. Síðan líður mér afskaplega illa í bíl þegar að ég mæti hrossahóp á ferð utanvegar sem annarstaðar nálægt vegi.

Ragna Birgisdóttir, 17.12.2016 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband