Hvað fá útlendingarnir að vita?

Það er oft sem engu er líkara en að allir eigi að vita allt þegar kemur að ferðalögum hér á landi. Erlendir ferðamenn fari sjálfkrafa inn á vedur.is og vegagerdin.is, skilji allt sem þar birtist og hegði sér eins og þeir hafi fæðst hér, alist upp og búið í áraraðir. 

Þegar allt er komið í óefni eru björgunarsveitir ræstar út klukkan átta á jóladagsmorgni. 

Þetta minnir mig á atvik á Hellissandi fyrir aldarfjórðungi. Kona frá Búðardal ók þvert í veg fyrir bíl, sem ók á móti einstefnuakstursskilti á götu á Hellissandi og af hlaust harður árekstur með tilheyrandi eignatjóni. 

Niðurstaða málsins varð sú, að aðkomukonan ætti að bera ábyrgð á árekstrinum af því að allir á staðnum viti, að það fari enginn á staðnum eftir þessu skilti um einstefnuaksturinn frekar en hann sjálfur metur nauðsynlegt! 

Ég var þarna á ferð og fannst þetta svo athyglisvert að ég ætlaði að gera um það frétt í sjónvarpinu. 

En um leið og ég fór að taka myndir og hugðist fara í viðtöl sáu menn að sér og sýknuðu aðkomukonuna. 


mbl.is „Veðrið fer hratt versnandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grundvöllur stefnunnar: Hægt og bítandi í hálfa öld og áfram.

Í þættinum 60 minutes fyrir nokkrum árum var farið í heimsókn til Vesturbakkans og Jerúsalem til að líta á það sem þar gerðist, hægt og hljóðlega. 

Það fólst í hægfara yfirtöku Ísraelsmanna á eignum Palestínumanna, ýmist svonefndum landnemabyggðum Ísraelsmanna en ekki síður því, að sölsa undir sig húseignir Palestínumanna við fráfall eigendanna. 

Síðan Ísraelsmenn hernámu byggðir Palestínumanna 1967 og hafa síðan drottnað þar á ólöglegan hátt gagnvart alþjóðalögum í hálfa öld á næsta ári hefur verið í gangi áætlun um að leggja allar landareignir og húseignir smátt og smátt undir Ísraelsmenn.

Dropinn holar steininn segir máltækið og það sést vel á fjöldanum, hálfri milljón, sem nefnd er í tengdri frétt.

60 minutes er bandarískur sjónvarpsþáttur, sem hefur notið virðingar, meðal annars fyrir það að rísa undir því að skoða sum mál, sem ekki er vel séð hjá ráðandi öflum vestra að séu nefnd.  


mbl.is Skellur fyrir stefnu Ísraela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband