Kemur ein sala á dag öllu í lag? "Seljum fossa og fjöll"?

Í gær var frétt um kaup Indverja, sem sveipaður er dul, á skika fyrir vatnsverksmiðju á Borgarfirði eystra. Ekki fyrsta vatnsævintýrið og ekki fyrsti erlendi landakaupamaðurinn, því að ekki eru nema nokkrir dagar síðan Grímsstaðir á Fjöllum voru seldir og ríkisvaldið hundsaði áskoranir um að jörðin yrði þjóðareign.

Til lítils var það fyrir okkur, tvo bloggara hér á blog.is, Styrmi Gunnarsson og mig, að skrifa ásamt fjölda Íslendinga undir áskorun um að gæta landsins okkar.  

Í dag er það Fjaðrárgljúfur, sem er til sölu, og það yrði í stíl við annað ef þetta einstæða gljúfur færi sömu leið og svo margt söluvænt fer um þessar mundir. 

Vitað er að erlendir fjárfestar eru á góðri leið með að eignast smám saman heilt hérað, Vopnafjörð. 

Danir settu undir svona leka þegar þeir gengu í ESB og gátu fengið undanþágu til að tryggja samsvarandi eignarhald dönsku þjóðarinnar á dönsku landi og bústöðum. 

En í EES-samningnum var ekki um neitt slíkt að ræða, við vorum sennilega ekki í neinni aðstöðu til þess og erum það sennilega ekki að setja nein skilyrði, verðum bara að taka sjálfvirkt frá tilskipunum, sem eru ákveðnar við samningaborð, sem við eigum enga aðild að. 

Dropinn holar steininn, segir máltækið, og með svipuðu áframhaldi kunnum við að vakna upp við vondan draum. 

Þetta slapp fyrstu 20 árin í EES en nú eru hugsanlega að renna upp nýir tímar, sem leiða hugann að því sem Flosi Ólafsson söng hér um árið: 

"Seljum fossa og fjöll! /

Föl er náttúran öll!  /

Og landið mitt taki tröll!" / 


mbl.is Nota Bieber í íslenskri auglýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er engin hindrun í vegi fyrir að nota brautina, aðeins bókstafur á pappír.

Neyðarbrautin svonefnda á Reykjavíkurflugvelli þarf ekkert að vera lokuð á meðan engar hindranir, kranar eða annað, eru í aðfluginu.

Í vetur hefur ekki verið hægt að sjá neinar slíkar hindranir.

70% af brautinni eru innan brautakerfis vallarins.  

Í dag var flugtæknilega vel hægt að lenda á brautinni allan daginn á sama tíma og hinar brautirnar voru lokaðar allan daginn vegna hliðarvinds. 

Það sem er asnalegast við það að brautin skuli samt vera lokuð er að það nægi að loka henni á pappírnum til þess að verið sé að leika sér að lífi og limum fólks. 

Bókstaf er hægt að breyta og þar með dómum eftir honum, en glatað mannslíf af völdum bókstafs verður aldrei hægt að bæta. 


mbl.is Sjúkraflug komst ekki til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlir og einfaldir hlutir ráða oft úrslitum.

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, segir máltækið. Í flugi er það oft einföld atriði sem geta valdið stórfelldum vandræðum.

Dæmin eru mýmörg en nefna má nokkur:

Á ýmsum flugvélum skiptir notkun vængbarða eða flapa oft öllu máli um fluggetu þeirra.

Þegar búið er að setja þennan vængjabúnað í lendingarham miðast allt við að flugvélin geti lent á sem minnstum hraða og komist af með sem styst lendingarbrun, en á móti kemur, að þegar komið er fram yfir ákveðinn stað verður ekki hægt að hætta við lendingu.

Svo mikill munur er á minnsta mögulega flughraða með fullum flöpum eða engum flöpum, að þegar vökvakerfi DC-10 vélar varð óvirkt á flugi í Ameríku fyrir um þremur áratugum, varð að lenda á 400 kílómetra hraða í stað um 230 kílómetra hraða. Afleiðingin varð brotlending þar sem vélin rifnaði í þrjá hluta og um helmingur farþega fórst. 

Flugmönnum farþegaþotu í flugtaki á bandarískum flugvelli gleymdu að setja vængbörðin í flugtaksstöðu og sjálfvirkur búnaður, sem átti að setja flapana niður fyrir þá, hafði verið bilaður þannig að flugvélin náði aldrei að klifra eftir flugtak. 

Þvottamaður á flugvelli setti lítt áberandi límmiða yfir örlítið gat á flugvélarskrokki, sem er á öllum flugvélum til að tryggja að réttur loftþrýstingur sé á mælikerfi vélarnnar.

Hann gleymdi að taka límmiðann í burtu eftir þvottinn og flugmönnum sást yfir hann.

Fyrir bragðið varð mælakerfi vélarinnar ónothæft þegar komið var í hæð úti yfir Kyrrahafi og loftið utan vélarinnar varð æ þynnra, flugmennirnir misstu stjórn á henni og hún hrapaði í hafið og fórst.

Tímamót urðu í rannsóknum á flugslysum þegar fyrstu farþegaþotur heims, Comet, fórust hver af annarri og allar við sams konar skilyrði, þegar komið var í farflughæð.

Brak Cometþotu, sem fórst yfir Miðjarðarhafi, var fiskað upp og raðað saman að nýju. Þá kom í ljós að vegna svonefndrar málmþreytu gáfu sig nokkur hnoð, sem héldu flugvélarskrokknum saman framarlega að ofanverðu og þar með rifnaði skrokkurinn í sundur.  

Á flugsýningu í París sumarið 1997 var metaðsókn þann dag þegar sýna átti einstæðar listir á rússneskri Sukhoi 37 orrustuþotu, sem tóku öllu fram í flugheiminum, vegna snilldarlegrar hönnunar og notkunar á svonefndum stefnukný (vector thrust). 

Þotan fór í loftið, flaug í nokkra hringi og dýfur skammt frá flugvellinum, en kom síðar aftur inn til lendingar. Síðan var tilkynnt: Ekki tókst að taka hjólin upp og því var ekki hægt að framkvæma fluglistirnar!  

Varla er hægt að hugsa sér neyðarlegra en að vandræði við jafn einfalt atriði og að taka hjól upp lami gersamlega fluggetu einhverrar flóknustu og fullkomnustu orrustuþotu veraldar. 


mbl.is Hrapaði vegna bilana í vængjabúnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best að hætta sem næst toppnum.

Það er einn ókostur við að ná upp á hæsta tind í einhverju. Hann er sá, að langlíklegast er að leiðin liggi niður á við, enda hefur það verið sagt um íþróttir og fleira að það er kalt á toppnum. 

Nú er Guðumundur á toppnum með danska handboltalandsliðinu, og því er það vafalaust rétt hjá honum að leita á nýjar slóðir.  

Danir komu heldur ekki að öllu leyti vel fram við Guðmund, hverju sem um var að kenna.

Ekki er að efa að hann muni leggja sig allan fram í undirbúningnum fyrir HM, enda úr mjög háum söðli að detta á Ólympíumeisturum ef ekki gengur nógu vel á næsta stórmóti.   


mbl.is Guðmundur aflýsti æfingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GPS notkunin vekur ýmsar spurningar.

Þótt fyrir liggi í fréttum ferill Icelandair þotunnar í aðflugi að Keflavíkurflugvelli þegar alvarlegt flugatvik gerðist í október, er margt svo óljóst af því sem gefið hefur verið upp, að sé rannsóknarnefnd samgönguslysa enn að "púsla saman" upplýsingum um málið, er hinn almenni borgari enn fjær því að átta sig á því hvað gerðíst. 

Athygli vekur þó að sagt er í frétt RUV að GPS tæki hafi verið notað í aðfluginu í stað leiðsögutækja vallarins, (ILS) sem hafi verið biluð. 

Nú það sennilega svo, að GPS tæki geti verið misjafnlega fullkomin, en þó hefur mátt skilja á reglum um takmarkanir á notkun þeirra í blindflugi, að minnsta kosti í smærri flugvélum, að ekki sé ráðlegt, og meira að segja varasamt að nota þessa tækni eingöngu. 

Og hér á landi hefur skort á að hægt sé að nota þessa tækni til fulls, til dæmis við aðflugið á Akureyrarflugvelli. 

Í grófum dráttum má segja að  mesta lagi megi hafa hliðsjón af GPS tæki. 

Varðandi umrætt aðflug liggur leiðin ýmist yfir flatlendi eða sjó, þannig að hárnækvæm staðsetning er ekki eins nauðsynleg og þar sem landslag er hæðótt eða fjöllótt. 

Hér á landi hafa sumir flugvélaeigendur orðið að fjarlægja GPS tæki úr flugvélum sínum að boði flugmálayfirvalda á þeim forsendum, að erlendis hafi borið við að menn treystu of mikið á þessi tæki og það hafi leitt til vandræða. 

Af þessu hafa sprottið rökræður um þetta og verið borið á móti nauðsyn þess að fjarlægja tækin úr flugvélum, enda sé líklegt að fyrir tilvist þeirra hafi atvikum, þar sem flugmenn á litlum flugvélum villtust eða týndust, fækkað stórlega með tilkomu tækjanna. 

Því gæti farið svo að flugmenn færu að villast í auknu mæli á ný þegar tækin skorti og nefnt sem dæmi að fyrir þremur árum villtist lítil flugvél svo mjög af leið á flugi frá Akureyri til Reykjavíkur, að flugmennirnir sendu út neyðarkall og kváðust eiga aðeins eldsneyti til fimm mínútna flugs og yrðu að nauðlenda jafnvel utan valla einhvers staðar yfir norðanverðum Kjalvegi. 

Nokkru síðar höfðu þeir aftur samband og afléttu neyðarástandinu, kváðust hafa getað lent á á malarflugvelli á síðustu bensíndropunum. 

Spurðir um það á hvaða flugvelli þeir hefðu lent var svarið: Vík í Mýrdal! 

En bein loftlína þangað frá Kjalvegi er um það bil 150 kílómetrar. 

GPS tæki hafði verið í þessari vél, en að boði flugmálayfirvalda hafði það verið tekið úr vélinni. 

Ljóst er að ekki hefði þurft merkilegt GPS tæki til að minnka þessa stóru villu flugmannanna. 

Tengdasonur minn benti mér á þegar þetta mál bar á góma, að hægt væri að hafa með sér góðan snjallsíma með GPS í og nota hann!  Kann ég af því samtali gamansögu, sem ég segi stundum á samkomum.  

Rétt er að taka það fram að þessar GPS hugleiðingar í bloggpistli næturinnar kunna að hafa ekkert gildi gagnvart flugatvikinu hjá Icelandair þotunni. 

En spurning vaknar þó um áhrif óvenjulegs aðflugs og skorts á flugleiðsögutækjum á álagið á flugmönnunum í þessu mjög krefjandi flugi við afar erfiðar aðstæður. 

Það kemur glögglega fram í frétt af aðfluginu að vindur stóð á milli brautanna á Keflavíkurflugvelli, þannig að hvort sem flogið var í aðflug að suðurbrautinni eða austurbrautinni, var mjög mikill og erfiður hliðarvindur, sem jók á vandann í aðfluginu.

Og fróðlegt væri að einhver góður rannsóknarblaðamaður kafaði ofan í stöðu GPS tækja í flugi hér á landi. 


mbl.is Rannsaka alvarlegt flugatvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband