Hreppstjórinn, sem fann úrið sitt 35 árum eftir hvarf þess.

Veskisfundur í Sviss í tengdri frétt á mbl.is leiðir hugann að svipuðum atburðum hér á landi.

Snemma á síðustu öld varð Jónatan Líndal, hreppstjóri og bóndi á Holtastöðum í Langadal, þess var, að einhvers staðar á leið hans í smalamennsku um fjallendið ofan við bæinn, hafði forláta vasaúr hans dottið og horfið án þess að hann yrði þess var. 

Liðu nú 35 ár, en þá bar svo við fyrir einskæra tilviljun að gengið var fram á úrið í fjallshlíiðinni ofan við bæinn þar sem það lá enn þar sem það hafði dottið niður 35 árum fyrr. 

Úrið var inni í hulstri, sem var orðið ryðgað að utan, en þegar það var opnað, var úrið stáheilt og gekk "eins og klukka" á ný, um leið og það var trekkt upp. 

Á áttunda áratugnum var ég í ferð á Snæfellsnesi, lenti á Gufuskálum og ók þaðan austur eftir nesinu og hljóp eftir nokkrum túnum í leit að heppilegum lendingarstöðum. 

Þegar ég kom til baka brá svo við að lykillinn að FRÚnni var horfinn. 

Á buxnavasa mínum kom i ljós lítið gat og þar hafði lykillinn greinilega runnið í gegn einhvers staðar á túnagöngum mínum um daginn.

Svo vel vildi til að á Gufuskálum vann þá Baldur Erlendsson, gamall skólafélagi minn, snillingur á sviði rafeindatækja, og breytti hann svissinum þannig að ég kæmi vélinni í gang. 

Þegar ég fór í loftið datt mér í hug að fljúga eftir túnunum, sem ég hafði hlaupið um í þeirri veikku von að sjá glytta á lykilinn.  Þetta var að sjálfsögðu fráleitt, en þá mundi ég eftir þvi að ég hafði farið út úr bílnum til að pissa á veginum, þar sem hann lá á þeim tíma upp í Ólafsvikurenni. 

Og viti menn, það var skúraveður og sólargeisli sem braust í gegnum ský, lýsti upp votan staðinn þar sem ég hafði farið út úr bílnum, og þarna sá ég eitt örstutt augnablik glytta á lykilinn í vegbrúninni. 

Þetta var beinn vegarkafli og enginn bíll á ferð, en hægt að tylla sér niður og færa vélina út í útskot. 

Nú komu þarna bílar að og ég var spurður hvað ég væri að gera, hvort það hefði orðið vélarbilun. 

"Nei", var svarið, "ég datt lykill úr buxnavasa mínum hér einhvers staðar á nesinu í dag og mér sýndist ég sjá hann áðan úr lofti." 

Fólkið hristi höfuðið vantrúað, en ég gekk í áttina að staðnum, þar sem mér hafði sýnst ég sjá glampa frá lyklinum, og það passaði, þarna lá hann. 

"Jú, hér liggur hann" sagði ég sigri hrósandi, tók lykilinn upp, veifaði honum og fór síðan mína leið í loftið niður brekkuna á nokkrum metrum. 

En fólkið gapti af undrun og lái ég því það ekki. 


mbl.is Fann veskið sitt áratug síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband