Tók áhættu á hverri grind og tapaði.

Svo er afburða myndatökutækni fyrir að þakka, að frá ákveðnu sjónarhorni framan frá mátti sjá að Ólympíumeistarinn nánast strauk hverja grind á meðan sigurvegarinn fór yfir grindurnar með nokkurra sentimetra fríhæð. 

Grindahlaup er gríðarleg nákvæmnisgrein þar sem fyrirfram margæfður skrefafjöldi og skreflengd verður að ganga upp og búa til rytma, sem verður að vera jafn og fljótandi alla leið. 

Jafnframt verður að forðast að eyða krafti í að fara of hátt yfir grindurnar, heldur smjúga yfir þær í lágmarkshæð og með fullkominni, nánast fimleikakenndri heildarhreyfingu jafnframt því sem ekkert eitt skref má vera of langt eða of stutt. 

Ólympíumeistarinn vissi, að hann var að etja kappi við keppinaut, sem hafði verið fljótari fram að þessu í sumar og að það myndi muna um hvern sentimetra sem hann gæti grætt með meira nákvæmnishlaupi en nokkur annar. 

Að smjúga í eins sentimetra hæð yfir grindurnar í stað fimm sentimetra kostaði að vísu aðeins meiri áhættu en hún myndi borga sig. 

Síðan fór hann eina af síðustu grindunum svo lágt, að hann snerti hana með hælnum á vinstri fætinum, sem hann dró á eftir sér, og tapaði þannig rytmanum, að hann rakst líka á næstu grind með fremri fætinum. 


mbl.is Ólympíumeistarinn datt í úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Putin getur það, en Mendes-France ekki. Rauðvínsrauðu augun.

Líklega var Pierre Mendes-France fyrsti ráðamaðurinn í nútíma ríki, sem skar opinberlega upp herör gegn áfengisdrykkju. 

Hann var forsætisráðherra Frakka 1954-55 og réðist í tvö erfið verkefni: Að binda enda á stríðið í Víetnam og draga franska herinn þaðan, og minnka víndrykkju Frakka, sem þá var sú langmesta í heimi. 

Að vísu tókst fyrra ætlunarverkið að hluta til í bili, en hið síðara varð M-F ofviða, enda var valdtíð hans stutt og samsteypustjórn hans veik. 

Mendes-France hafði alls staðar mjólk um hönd í stað víns, hvar sem hann fékk einhverju ráðið um veitingarnar og hélt sjálfur eins oft á mjólkurglasi og honum var unnt. 

En allt kom fyrir ekki. 

Nú virðist Putin hafa náð meiri árangri hjá þjóð, sem hefur lengi verið í vandræðum með vínið, enda hefur Putin haft miklu meiri og langvinnari völd en Mendes-France hafði. 

P. S. Í athugasemdum má sjá hvað átt er við í fyrirsögn pistilsins með orðunum: "Rauðvínsrauðu augun."


mbl.is 43% samdráttur í áfengisneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórir niðursetningar á einum bæ. Svo stutt síðan.

Í athyglisverðri tengdri frétt á mbl.is er fjallað um niðursetninga fyrr á tíð sem sagnfræðilegt fyrirbæri og er það vel.

En það er ekki lengra síðan að niðursetningar voru til á Íslandi, að síðuhafi var í æsku í sveit á bæ, þar sem voru fjórir niðursetningar, þrjár mæðgur í gömlum, hálfhrundum torfbæ, og ein háöldruð kona í litlu herbergi í íbúðarhúsinu. 

Móðirin í torfbænum var einnig öldruð, lést vorið 1954 þegar mikið fannfergi var enn á jörðu, og lá óhreyfð dauð inni í bænum í marga daga. 

Mæðgurnar þrjár bjuggu við svo óskaplega erfið kjör í torfbænum, að líkja mátti þeim við mennskar moldvörpur. 

Það var ógleymanlegt að kynnast þessu fólki, sem bjó yfir miklu meiri hæfileikum en staða þess benti til. 

Gamla konan í torfbænum, Ásdís Jónsdóttir, skáldkona frá Rugludal, orti mikið um dagana, og á meðan Margrét Jónsdóttir, gamla konan í íbúðarhúsinu, var enn starfandi vinnukona, fékk hún sérstök verðlaun hjá Búnaðarfélagi sýslunnar, fyrir afburða vel unnin störf. 

Hún var bæði ljóðmælt og afar vel að sér í íslenskum og erlendum bókmenntum.  

Síðasta árið, sem Ásdís lifði,  voru niðursetningarnir í meirihluta á bænum, fjórar konur, en "venjulega" heimilisfólkið voru konan, sem var bóndinn þarna, og 19 ára gamall sonur hennar. 

Við að kynnast þessu fólki opnaðist skilningur á vísu Bólu-Hjálmars: 

 

Víða til þess vott ég fann, 

þótt venjist frekar hinu, 

að Guð á margan gimstein þann, 

sem glóir í mannsorpinu.  


mbl.is Niðursetningum fjölgaði í harðæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband