"Á skal að ósi stemma" sagði Þór.

Þessa speki er að finna í frásögninni af för Þórs til Útgarðaloka, þar sem meðal annars kom mikið flóð í á, sem hann þurfti að vaða yfir. 

Varð honum þá litið upp eftir ánni og sá, að tröllkonan Gjálp stóð klofvega yfir ána "og gerði hún árvöxtinn" segir í sögunni. 

"Á skal að ósi stemma" sagði þá Þór, þreif upp bjarg mikið og kastaði í att að skessunni. 

"Eigi missti hann þar er hann kastaði til" er næsta setning í þessari dýrlegu frásögn, sem er dæmi um það, að enska fyrirbrigðið understatement á sér langa sögu. 

En setningin "á skal að ósi stemma" merkir, að oft sé markvissast að stöðva slæm fyrirbæri við upptökin sem orðið "ós" á þarna við, heldur en að ráðast á afleiðingarnar í stað orsakanna.

Sögunni af Gjálp lauk ekki þarna, því að þegar leitað var að heiti á nýja eldfjallið milli Bárðarbungu og Grímsvatna, sem gaus haustið 1996 og olli mesta hamfaraflóði hér á landi síðan 1918, stakk Bryndís Brandsdóttir jarðfræðingur upp á heitinu Gjálp. 

Það var frábær tillaga að heiti fyrirbæris sem "gerði árvöxtinn." 

Stöðvun á sölu plastpoka, plaströra og fleiri slíkrar vöru er augljóslega mun áhrifaríkari og réttari aðgerð heldur en að reyna að eltast við draslið um höf og lönd og jafnvel inn í blróðrás og líkamsvefi í lífríkinum. 

Og minnkun á rányrkju auðlinda jarðar og neyslunni, sem knýr hana áfram, er rökréttari leið en sú að viðhalda sífelldri aukningu neyslu og hagvaxtar, sem leiða mun til stórfellds ófarnaðar. 


mbl.is Leggja til bann við plastpokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búnaðurinn á Stuka svínvirkaði 1937. Íslenskir fálkar fyrirmynd.

Junkers Ju-87 steypiárásarflugvél Þjóðverja var með sjálfvirkan búnað sem tók stjórnina af flugmanninum í steypiárásum strax árið 1937 í spænsku borgarastyrjöldinni. DSC05765

Þessi árásarflugvél var á þeim tíma það skelfilegasta ógnarvopn sem þekkt var. 

Til þess að auka á skelfinguna á jörði niðri var komið fyrir sírenu á hjólalegg Stuka, sem fór í gang í árásinni og ærði þá, sem heyrðu í drápstækinu koma nær lóðrétt niður að sér. 

Voru þessar sírenur kallaðar "trompetar Jeríkó". 

Notkun þessa hryllilega tækis byggðist á því að flugmaðurinn steypti vélinni nær lóðrétt niður úr 6000 feta hæð og miðaði henni á 600 kílómetra hraða beint niður á skotmarkið. DSC05761

Í 600 "metra hæð sleppti hann sprengjunni og reif í stýrið til þess að rífa vélina upp úr þessari miklu dýfu án þess að hún skylli til jarðar, og kom vélinni jafnframt í burt frá sprengingunni. 

Dýfan var það kröpp, að flugmaðurinn þrýstist með sexföldum þunga sínum (6g) niður í sætið og fékk "black-out" eða meðvitundarleysi á meðan hann var að klára dýfuna. 

Til þess að koma í veg fyrir meðvitundarleysið ylli brotlendingu, tók sjálfvirkur búnaður við stjórn vélarinnar og kláraði dýfuna fyrir flugmanninn, sem gat tekið stjórnina aftur þegar hann hafði fengið meðvitund. DSC05771

Magnað er að þessi tækni skyldi hafa verið komin til sögu fyrir 80 árum og svínvirka. 

1937 sendi Hermann Göring sveit manna til Íslands með leyfi íslenskra yfirvalda til þess að fanga nokkra fálka og fara með þá til Þýskalands og þjálfa sem veiðifálka. 

Fálkarnir gáfu samsvörun í náttúrunni að steypiflugs árásaraðferð Stuka vélanna og eru hraðskreiðustu dýr jarðarinnar. 

Stunduðu ægifagurt flug en jafnframt afar óhugnanlegt í því samhengi sem þeir voru sendir til Þýskalands til að gleðja þá vinina flugmarskálkinn og Foringjann. 

P. S. Vegna athugasemdar við þessa færslu eru hér þrjár myndir og nánara svar verður í athugasemd minni við þessari athugasemd. 

 


mbl.is MCAS-búnaðurinn var virkur fyrir hrapið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband