Túrbínutrixið í fullum gangi og orkan fer annað.

Túrbínutrixið, sem síðuhafi hefur kallað svo, á hálfrar aldar afmæli á næsta ári. Það byggðist upphaflega á því að byrja fyrirhugaðar stórframkvæmdir á því að kaupa strax túrbínur í komandi virkjun, þótt nánast allt annað varðandi hana væri óafgreitt og ófrágengið. 

Trixið gekk út á það að ganga sem fyrst svo langt í framkvæmdum og aðgerðum að ekki yrði aftur snúið, heldur öllum aðilum málsins stillt upp við vegg með hótunum um að ef þeir mökkuðu ekki rétt, yrði þeim kennt um að hafa valdið stórfelldu fjártjóni ef þeir reyndu að andæfa. 

Hvalárvirkjun átti upphaflega að verða 35 megavött og tiltölulega einföld, en hefur verið blásin upp í 55 megavött með mörgum stíflum og lónum og raski langt umfram allt meðalhóf. 

Þeir, sem hafa andæft, eru stimplaðir sem óvinir Vestfjarða sem séu á móti rafmagni í þeim landshluta. 

Þó blasir við, að raunverulegir fjárfestar og eigendur Hvalárvirkjunar eru í örvæntingu á ferli víða um land við að reyna að afla orku í stað hratt dvínandi orku í gufuaflsvirkjunum á Suðurnesjum. 

Þeir þurfa að afla nýrrar orku til þess að uppfylla orkusölusamninga við stóriðjuna á Grundartanga, þannig að á endanum verður langlíklegasta niðurstaðan sú, að Vestfirðingar muni ekki fá eitt einasta megavatt til sinna nota. 


mbl.is „Miklu meiri framkvæmdir en þarf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka bönnuð á gangstéttum í Þýskalandi.

Notkun lítilla rafknúinna hlaupahjóla, (sem ég sting upp að kalla "raftítlur"), á gangstéttum hefur verið bönnuð í Þýskalandi að því er sjá mátti í fréttum á netmiðlum um daginn.

Svo er að sjá af notkun þeirra í Brussel að margir aki þeim djarflega og á það við um skutlið á þeim inn á milli bílanna, en kannski eru þær ekki eins hættulegar og sýnist fyrir ókunnuga. 

Það blasir hins vegar við að fólkið á títlunum er gersamlega óvarið fyrir áföllum, hjálmlaust og oft afar léttklætt; meira að segja títlan sjálf veitir enga vörn ef árekstur verður.

Reynslan verður að skera úr um það hvort og hvaða takmarkanir þurfi að gera til þess að þessi mjög svo einfaldi og umhverfisvæni fararmáti verður stundaður. Microlino

Þess má geta, að hönnuðir og framleiðendur Microlino bílanna nýju, sem eru byggðir á hugmyndinni að baki BMW Isetta fyrir 60 árum, urðu ríkir á framleiðslu á rafknúnum hlaupahjólum. 

Microlino byggist á afar snjallri hugmynd til að gera umferðina mun greiðari, en hefur einn ókost, sem varðar öryggi: Fætur þeirra tveggja, sem í rafbílnum sitja, eru alveg fremst í nefi hans og aðeins þunnur dyraþröskuldur og þunn hurð skilja að tærnar og ökklana frá því, sem hugsanlega yrði rekist á í árekstri.  

 

 


mbl.is Ökumaðurinn undir áhrifum fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brúarbæirnir Selfoss, Hella, Klaustur, Egilsstaðir og Blönduós, - sömu lögmál.

Samgöngumannvirki á borð við brýr, vegamót, hafnir og flugvelli laða að sér byggð. 

Á þjóðvegi eitt urðu brýrnar yfir Ölfusá, Ytri-Rangá, Þverá, Skaftá, Lagarfljót, Héraðsvötn og Blöndu til þess að þéttbýli myndaðist við þær eða sem næst þeim, þ. e. Selfoss, Hella, Hvolsvöllur, Kirkjubæjarklaustur, Egilsstaðir, Varmahlíð og Blönduós. 

Breyttar aðstæður gátu á sumum stöðunum leitt til þess að það mynduðust umferðartafir í þessum þorpum eða þá að brúarstæðin urðu til þess að lengja þjóðveginn óhæfilega. 

Þannig var brúin yfir Ytri-Rangá, sem varð til þess að þorpið á Hellu myndaðist, afar mjó og leiðin að henni og frá þröng og krókótt þar sem hún lá í gegnum þorpið. 

Þegar hugmynd kom um að gera nýja brú talsvert neðar við ána, urðu miklar deilur og heyrðust setningar sem enn lifa góðu lífi annars staðar, svo sem að tilfærsla brúarinnar yrði "dauðadómur fyrir bæinn" og að öllu skipti "að leiða umferðina í gegnum bæinn."

Andstæðingar nýs brúarstæðis gáfu sér það að það að þorpið hafði myndast við brúna þýddi að þéttbýlið gæti hvergi verið annars staðar, ekki einu sinni við nýja brú. 

Ingólfur Jónsson, kenndur við Hellu, enda kaupfélagsstjóri þar, sá hins vegar í hendi sér, að ný brú myndi laða að sér nýtt þéttbýli, sem tryggði vöxt þorpsins og beitti sér fyrir því að hún yrði gerð. 

Málið var allt nákvæmlega eins vaxið og deilan um nýja Ölfusárbrú norðan við Selfoss er. 

Nú er talað um nauðsyn þess að "leiða alla umferð í gegnum bæjarmiðjuna í Selfossbæ, þar sem hefur verið vaxandi umferðaröngþveiti vegna þrengsla í áraraðir. 

Þetta umferðaröngþveiti á álagstímum hefur skapað mikla töf á umferðinni yfir Ölfusá, enda leiðin hvorki bein né greið nema síður sé. 

Rétt eins og var á Hellu, gefur auga leið að best sé að búa til greiðari og styttri leið yfir nýja brú fyrir norðan bæinn. 

Á Hellu kom í ljós, að tilfærslan á brúnni varð ekki til þess að fólk hætti að versla eða eiga erindi í þorpinu, heldur stansaði það þar ef á þurfti að halda.  

Og smám saman hefur atvinnu- og þjónustustarfsemi þorpsins færst að nýju brúnni, en munurinn samt sá, að í stað algers öngþveitis og þrengsla við gömlu brúna, er leiðin greiðari um nýju brúna, og þeir sem um hana aka, eiga val um það hvort þeir vilja stansa eða halda áfram í stað þess að reynt sé að neyða fólk til þess að stansa. 

En stefnan "að leiða umferðina inn í bæjarmiðjuna" lifir enn góðu lífi á tveimur til þremur stöðum við þjóðveg eitt, á Blönduósi, í Varmahlíð og á Egilsstöðum. 

Á Egilsstöðum var tækifæri til að stytta leiðina frá Seyðisfirði vestur yfir Lagarfljót í stað þess að þvæla ferðamönnum suður í þorpið og siðan aftur út úr því til norðurs inn á Lagarfljótsbrú. 

Ef þjóðvegur eitt yrði lagður beint frá Stóru-Giljá yfir í miðjan Langadal við Fagranes, yndi þjóðvegur eitt styttast um 14 kílómetra og það yrði arðsamasta vegaframkvæmd landsins. 

En í staðinn er öllum, sem koma að sunnan, gert að aka í norður út á Blönduós og síðan í suður um Langadal og greiða á leiðinni fram og til baka alls um 3000 krónur í aukinn aksturskostnað samkvæmt taxta ríkisins.  

Samt liggur fyrir, að við brúna hjá Fagranesi, sem er innan vébanda Blönduósbæjar, væri hægt að byggja upp þjónustu líkt og gert var á Hellu án þess að sveitarfélagið Blönduás missti þá starfsemi frá sér. Á Hellu var því til leiðar komið á sínum tíma að styrkja heimamenn til að aðlagast breyttri vegarlínu, og miðað við þá miklu fjármuni sem vinnast við styttinguna um Húnavallaleiðina, eins og hún hefur verið kölluð, er styrkur til breytinga vel hugsanlegur.  

Síðan er líka styttingarmöguleiki um Skagafjörð, þótt hann liggi ekki eins augljóslega við. Ef þjóðvegur eitt yrði lagður beinni leið en nú er,  austur úr Stóra-Vatnsskarði og á ská yfir í syðsta hluta Blönduhlíðar, yrði styttingin minnst 6-7 kílómetrar. 

Sú stytting, plús styttingin um Húnavallaleiðina er alls 20 kílómetrar, 40 kílómetrar samtals fram og til baka með um 4000 króna auka aksturskostnaði, og hálftíma lengri aksturstíma.  

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 13. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband