Fólk, sem á ekki að hafa "óæskilega" skoðun á nærumhverfi sínu.

Þrátt fyrir margskonar yfirlýsingar áratugum saman um íbúalýðræði og samráðsstjórnmál hefur fólkið sem býr í Skerjafirði ekki mátt hafa skoðanir á nærumhverfi sínu og málefnum hverfisins. 

Þetta gekk svo langt, að á tímabili stefndi í að eytt yrði miklu fjármagni til þess að reisa risavaxna hljóðmön meðfram braut 13-31 til þess að vernda íbúana fyrir því að heyra í flugvélum og sjá þær. 

Þetta yrði gert vegna þess að íbúarnir skyldu hafa þá skoðun, að það liði fyrir umferðina um flugvöllinn.  

Það var ekki fyrr en íbúarnir beittu sér eindregið gegn þessari sóun á almannafé og settu fram og fylgdu eftir þeirri óæskilegu skoðun að mati yfirvalda, að það vildi hafa ástandið óbreytt og láta ekki byrgja fyrir það útsýni til borgarinnar og fjallanna handan Kollafjarðar, sem verið hafði um ómuna tíð. 

Þegar þetta gerðist hafði völlurinn verið þarna í sex áratugi og því höfðu allir, sem þar áttu heima, vitað af því að hverju þeir gengu þegar þeir settust þar að eða bjuggu þar. 

En það passaði alls ekki við þá löggiltu skoðun að fólk, sem byggi nærri flugvöllum, hlyti að vera og ætti að vera kvalið vegna nábýlisins við þá. 


mbl.is „Verður alltaf talað um Skerjafjörðinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt ákvörðun en tekin háskalega seint.

Gagnrýni Donalds Trumps á stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak og þátttöku í vanhugsuðu "Arabísku vori" í Líbíu og Sýrlandi átti við rök að styðjast. 

Forystufólk Bandaríkjanna hafði það sér til afsökunar, að það vanmat ástandið í þessum löndum stórlega og hvað arabíska vorið snerti náði það vanmat til bandalagsþjóða Kananna. 

Hugsanlega eru stríðsyfirlýsingar Trumps á ýmsum sviðum, þar á meðal í stórhættulegu og eldfimu ástandi í Miðausturlöndum, ætlaðar til þess að hræða þá, sem hann telur óvini Bandaríkjanna, svo að þeir fari að hugsa sem svo að forsetinn sé til alls vís. 

En þetta er háskalegur leikur sem getur sprungið út í stórstyrjöld eins og gerðist til dæmis þegar Fyrri heimsstyrjöldin hófst. 

Háskaástand, sem blásið er upp, eykur mjög hættuna á mistökum eða stigmögnun, sem verða til þess að aðilar máls missa það út úr höndum sér. 

Það eitt, að aðeins 10 mínútur hafi skilið að, annars vegar háskalega árás, sem enginn gat séð fyrir, hvaða afleiðingar hefði, og hins vegar að hætta við þegar komið var fram á ystu nöf, er hrollvekjandi og á ekki að þurfa að koma fyrir. 

Einkum er þetta hrollvekjandi þegar miðað er við þá yfirlýsingu Trumps, að ef honum finnist Íranir ekki þóknast sér, muni hann leiða gereyðingu yfir Íran.  


mbl.is Hætti við 10 mínútum fyrir árásirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyftuferðin fræga.

Fróðlegt verður að vita hvort ný heimkynni biskupsstofu muni bjóða upp á möguleika til svipaðrar lyftuferðar og farin var fyrir aldarfjórðungi, þegar forsætisráðherra, biskup Íslands og gott ef ekki líka forseti Íslands voru saman á ferð í lyftu, sem festist. 

Um þetta orti Jóhannes Sigfússon, bróðir Steingríms J. Sigfússonar: 

 

"Illt í för það ávallt hefur 

ef menn storka giftunni; 

eru á ferli úlfur og refur 

í einni og sömu lyftunni."

 

Hendingin "Eru á ferli úlfur og refur..." er fengin að láni úr ljóði Gríms Thomsen um Arnljót Gellini, en svo sem ekki í fyrsta sinn, því að á sjöunda áratugnum orti Stefán Jónsson fréttamaður um starfsfélaga sinn, séra Emil Björnsson: 

 

"Séra Emil giftir og grefur; 

glatt er í himnaranninum. 

Eru á ferli úlfur og refur

í einum og sama manninum."

 

Eftir lyftuatvikið 1995 datt mér í hug að fara í veðmál og láta andvirðið renna til góðgerðamálefnis. 

Forsætisráðherra, biskupi og forsætisráðherra yrði boðið upp á lyftuferð frá 1.hæð á Austurbrún 2 upp á 12. hæð í þeirri lyftu sem er stærri lyftan, en er 60 sekúndur upp. 

Veðmálið gat varðað það hvort ég gæti kvatt þá á neðstu hæð og hlaupið það hratt upp stigann, að ég myndi opna fyrir þeim lyftudyrnar á 12. hæð og heilsa þeim þar. 

Á þessum tíma á miðjum sextugsaldri, átti ég að geta gert þetta og hefði orðið skemmtilegt að prófa það. 

En aldrei varð af því. 


mbl.is Kirkjuhúsið á Laugarvegi skal seljast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband