Ásókn í hámarks áhættu.

Tvennt liggur fyrir varðandi notkun hjálma á vespum og reiðhjólum. 

1. 70-75 prósent banaslysa og alvarlega slysa eru alvarlegir höfuðáverkar, sem hægt er að koma að mestu leyti í veg fyrir ef notaðir eru hlífðarhjálmar. 

2. Með því lýsa yfir velþóknun á því að nota ekki hjálma er beinlínis verið að mæla með því að sækjast eftir sem allra mestri hættu í notkun reiðhjóla, rafreiðhjóla og vélhjóla. Hjálmar, opin og lokaður

Furðulegt er að Samtök um bíllausan lífsstíl og Samtök hjólreiðamanna skuli vera svo þröngsýn og einsýn, að taka hámarks áhættu við hjólreiðarnar fram yfir það að þær séu stundaðar af eins mikilli ábyrgð og lágmörkun áhættu og unnt er. 

Eyða þarf fordómum gegn hjálmunum, sem eiga einmitt sérstaklega vel við í okkar svala veðurfari. 

Síðuhafi hefur notað bæði létta hjálma, opna að framan og neðan og lokaðan hjálm á fimm ára hjólaferli.Hjálmur,opin loftloka.

Og þvert ofan í fyrirfram fordóma um það að lokaði hjálmurinn væri of óþægilegur og að maður svitnaði í honum kom í ljós, að það var miklu erfiðara að halda þægilegum hita á andliti og höfði með opna hjálminum en þeim lokaða. 

Með notkun lokaða hjálmsins hverfur öll þörf fyrir sérstakan umbúnað um eyru og andlit, og á lokaða hjálminum er bæði hægt að opna gegnsæja hlutann og líka sérstaka stillanlega loftlúgu yfir enninu til þess að fá svalara loft til að leika um höfuðið. 

Sjá myndirnar. 

Það lýsir algerri uppgjöf fyrir því verkefni að útskýra gildi hjálmanna að krefjast þess að engin skylda sé um notkun þeirra. Hjálmur lokuð loftloka

Það minnir óþyrmilega á andófið gegn bílbeltunum á sínum tíma. 


mbl.is Hjálmlaus að reiða 2-3 farþega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í bílum eru eldfim efni.

Í umræðunni, sem orðið hefur um eldhættu í rafbílum, hefur það alveg gleymst, að í olíu- og bensínknúnum bílum eru svo eldfim efni, að það er grunnurinn að því hve margfelt meiri orka er í bensíngeymi en jafnþungri rafhlöðu. 

Það er ekki út í bláinn að orkugjafinn er kallaður eldsneyti og vélin sprengihreyfill. 

Frá upphafi hefur eldhætta verið viðfangsefni bílahönnuða og bílasmiða. 

Á Ford T og fleiri bílum voru bensíngeymar í upphafi bílaaldar hafðir fyrir aftan og ofan vélina. Það hafði þann kost í för með sér, að bensínið rann úr geyminum til vélarinnar fyrir þyngdaraflinu, svo að það þurfti ekki bensíndælu. 

Allt fram yfir síðustu aldamót voru framleiddir bílar með bensíngeymana í hefinu, svo sem Volkswagen Bjallan, til 2003, og Trabant, til 1992. 

Einnig var Fiat 600 með geyminn fremst í þrjá áratugi eftir 1956  og Fiat 500 frá 1957-1975. 

Renault 4CV, Dauphine og 8 voru líka með geyminn að framan auk rassvélabíla á borð við Skoda 1000MB, Hillman Imp og NSU Prinz.

Þegar framdrifsbílar urðu vinsælir, voru varadekkin oft sett efst í vélarhúsið, svo sem á Fiat 127 og 128 og Subaru Leone. Þetta gaf færi á stækka farangursrýmið.  

Á tímabili á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru framleiddir bílar með vélina frammi í en með bensíngeymana í afturhorni bílsins. 

Þetta voru, meðal annarra, fyrstu gerðirnar af Ópel Kadett, Ford Escort og Pinto. 

Fræg varð mynd af því hvernig Pinto varð alelda eftir árekstur aftanfrá. 

Í ljós kom nefnilega, að eldhætta af þessum bensíngeymum var enn meiri en ef geymarnir voru í nefinu, þótt ótrúlegt megi virðast. 

Á Reykjanesbraut varð banaslys á sínum tíma þegar Ford Escort snerist þar í hálku svo að afturhorn hans rakst framan á bíl sem kom á móti og eldur kviknaði í bensíngeyminum.  

Á síðari árum hefur orðið æ algengara að bensíngeymarnir séu undir aftursætum bíla og er varla hægt að finna betri stað. 

Og þó. 

Á upprunalega Willys-jeppanum 1941 var bensíngeymirinn á stað sem var afar hentugur, bæði af öryggisástæðum en einnig vegna rýmisnýtingar og þyngdardreifingar. 

Þetta var undir framsætinu. 

Þegar Honda Jazz kom á markaðinn sló hann öllum bílum af svipaðri stærð við varðandi rýmisnýtingu og farangursrými með því að geymirinn var settur undir framsætið.

Fyrir bragðið varð farangursrýmið 350 lítrar.  


mbl.is Alelda bíll á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brúarjökull hleypur varla framar.

Framhlaup jökla á borð við Tungnaárjökul, Síðujökul og Brúarjökul hafa verið þekkt fyrirbæri og afar mögnuð. 

Brúarjökull er stærsti skriðjökull landsins og framhlaup hans svo svakaleg, að erfitt er að fina orð yfir þau. 

Þegar hann hljóp lengst fram 1890, gerðist upphaf framhlaupsins með sprengingu sem heyrðist í margra tuga fjarlægð niður í byggð. 

Hann óð svo hratt áfram, að honum gafst ekki tími til, ef svo má að orði komast, til þess að grafa sig niður og búa til venjulegar jökulöldur, heldur vöðlaði hann upp gróðurþekjunni framundan upp í eins konar eftirlíkingu af tertu með hringlaga sykur- eða rjúmalögum, ef skorið var í þversniðið. 

Framhlaupið stansaði jafn hratt og það hafði hafist og jökullinn hóf að hopa það hratt, að eftir sat algerlega þráðbein hólaröð, sem fékk heitið Hraukar og liggur meðal annars um þveran Kringilsárrána og áfram vestan við ána, um fjóra kílómetra fyrir innan Sauðárflugvöll. 

Sú saga er sögð, að árið 1934 hafi fólk á bæ einum á Jökuldal setið við matarborð, þegar mikil þruma heyrðist úr fjarska. 

"Þar hljóp hann" sagði þá gamall maður við borðið. 

"Hver?" spurði fólkið. 

"Brúarjökull," svaraði sá gamli. 

"Svona þruma heyrðist 1890." 

Og hann reyndist hafa rétt fyrir sér. 

Framhlaupið 1934 varð miklu minna en 1890 og framhlaup 1965 enn inna en það. 

Þegar horft er frá Sauðárflugvelli inn til sílækkandi og fjarlægs jökulsins sýnast litlar líkur á að hin gömlu framhlaup muni verða. 

Jökulröndin liggur núna minnst átta kílómetra fyrir innan Hraukana frá 1890, og vegaskilti 4 kílómetrum utan við Sauðárflugvöll, þar sem stendur "Brúarjökull 8 km" er orðið kolranngt. 

Fyndið er að standa á þessum slóðum margsinnis árlega síðustu 25 ár og verða vitni að hnignun jökulsins  og lesa skrif þeirra, sem andmæla hástöfum því að jöklarnir hopi, heldur fullyrða jafnvel hið gagnstæða. 


mbl.is Ein aðalleiðanna lokuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband