Brúarjökull hleypur varla framar.

Framhlaup jökla á borð við Tungnaárjökul, Síðujökul og Brúarjökul hafa verið þekkt fyrirbæri og afar mögnuð. 

Brúarjökull er stærsti skriðjökull landsins og framhlaup hans svo svakaleg, að erfitt er að fina orð yfir þau. 

Þegar hann hljóp lengst fram 1890, gerðist upphaf framhlaupsins með sprengingu sem heyrðist í margra tuga fjarlægð niður í byggð. 

Hann óð svo hratt áfram, að honum gafst ekki tími til, ef svo má að orði komast, til þess að grafa sig niður og búa til venjulegar jökulöldur, heldur vöðlaði hann upp gróðurþekjunni framundan upp í eins konar eftirlíkingu af tertu með hringlaga sykur- eða rjúmalögum, ef skorið var í þversniðið. 

Framhlaupið stansaði jafn hratt og það hafði hafist og jökullinn hóf að hopa það hratt, að eftir sat algerlega þráðbein hólaröð, sem fékk heitið Hraukar og liggur meðal annars um þveran Kringilsárrána og áfram vestan við ána, um fjóra kílómetra fyrir innan Sauðárflugvöll. 

Sú saga er sögð, að árið 1934 hafi fólk á bæ einum á Jökuldal setið við matarborð, þegar mikil þruma heyrðist úr fjarska. 

"Þar hljóp hann" sagði þá gamall maður við borðið. 

"Hver?" spurði fólkið. 

"Brúarjökull," svaraði sá gamli. 

"Svona þruma heyrðist 1890." 

Og hann reyndist hafa rétt fyrir sér. 

Framhlaupið 1934 varð miklu minna en 1890 og framhlaup 1965 enn inna en það. 

Þegar horft er frá Sauðárflugvelli inn til sílækkandi og fjarlægs jökulsins sýnast litlar líkur á að hin gömlu framhlaup muni verða. 

Jökulröndin liggur núna minnst átta kílómetra fyrir innan Hraukana frá 1890, og vegaskilti 4 kílómetrum utan við Sauðárflugvöll, þar sem stendur "Brúarjökull 8 km" er orðið kolranngt. 

Fyndið er að standa á þessum slóðum margsinnis árlega síðustu 25 ár og verða vitni að hnignun jökulsins  og lesa skrif þeirra, sem andmæla hástöfum því að jöklarnir hopi, heldur fullyrða jafnvel hið gagnstæða. 


mbl.is Ein aðalleiðanna lokuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband