Breiðamerkursandur og Eyjafjallajökull, takk.

Það þarf að vanda til við það, ef sífellt þarf að þýða íslensk örnefni. Og helst að láta það vera. 

Diamond Beach segir ekkert umfram heitið Breiðamerkursandur um sandinn, ána og lónið og óþarft að ryðja íslenska heitinu út. 

Þegar Eyjafjallajökull gaus vafðist útlendingum skiljanlega tunga um tönn, því að tvisvar í íslenska heitinu eru tvö samliggjandi l, sem aldrei eru borin fram í erlendum málum á sama hátt og í íslensku. 

Til allrar hamingju féllu menn ekki í þá freistni að þýða nafn eldfjallsins og kalla það Islandsmountainglacier eða Islemountainglacier.  

Og sem betur fer fær Reykjavík að halda sínu íslenska heiti í stað þess að það sé þýtt, annað hvort sem Smoke Bay eða Steam Bay. 

Black Sand Beach er afleitt heiti fyrir Reynisfjöru, því að allar fjörurnar frá Þjórsárósum austur fyrir Hornafjörð eru dökkar. 

Að ekki sé talað um Sauðárkrók = Sheepriverhook eða Hrútafjörður = Ramfjord. 


mbl.is Diamond Beach í stað Breiðamerkursands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum þreföldun rafbíladrægni og bylting í rafhjólum.

Fyrsti rafbíllinn, sem sló í gegn á Íslandi og erlendis, Nissan Leaf, var með 24 kw/st rafhlöðu og var því í raun hér á landi aðeins borgarbíll, komst ekki örugglega fram og til baka í sömu ferðinni frá Selfossi til Reykjavíkur og til baka aftur, ef það var kalt og miðstöðin mikið notuð. 

Og ef farið er í hraðhleðslu á slíkum bíl í Reykjavík, kostaði það töf.   

Nú er varla rafbíll með rafbílum nema hann sé með 64 kw/st rafhlöðu og þar með 2,5 sinnum meiri drægni en gamli Leaf. Gogoro. Skiptistöð

Kia Soul hefur verið breytt til batnaðar og kominn með slíka rafhlöðu. 

Í rafhjólum er komin bylting: Útskiptanlegar rafhlöður. Þessi bylting er komin alla leið í Tæpei á Tævan, sem er 350 þúsund manna  höfuðborgarsamfélag, og það er verið að byrja í Madrid á Spáni. 

757 skiptistöðvar eru á Tæpei-svæðinu og það tekur 6 sekúndur að skipta rafgeymunum tveimur út fram og til baka. 

Margar gerðir rafhjóla með útskiptanlegar rafhlöður eru komnar á markaðinn, ná allt að 100 km hraða og komast allt að 120 kílómetra á hleðslunni við íslenskar aðstæður. BMW rafhjól

Meira að segja VGA Vax rafvespuhjólið, sem kostar aðeins um 300 þúsund þúsund krónur í Danmörku, og er með útskiptanlegar rafhlöður, kemst 70 kílómetra vegalengd á 30 km hraða, en 55 km á 45 km hraða. 

Þau tímamót hafa orðið hjá BMW, sem hefur framleitt feikna flott lúxus-vespulaga-hjól, að með því að koma með sams konar rafhjól hefur salan á því orðið meiri en á bensínhjólunum. 

Kemst á 130 km hraða og vel yfir 100 km á hleðslunni. En myndi kosta hátt á þriðju milljón króna hér á landi. 

 


mbl.is Þroskaður unglingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskurinn reynist dýrmætur.

Í gegnum tíðina hefur þorskaflinn hér við land ráðið mestu um afkomu þjóðarbúsins. 

Ýmist voru það aflabrögð eða verðlag á útfluttum þorskafurðum sem skópu stórar sveiflur í efnahagslífinu, ýmist upp eða niður. 

Síldarbresturinn á sjöunda áratugnum skildi þorskinn einan og kjölfestu hans, til þess að halda sjávarútveginum uppi, og síðan kom loðnan til sögunnar til að hjálpa til. 

En eftir 1976 minnkuðu þorskgengd og þorskveiði jafnt og þétt og það blés ekki byrlega næstu 20 árin.  

En síðustu tvo áratugi hefur þorskurinn verið í meginatriðum að taka við sér, og nú er svo komið að á síðasta ári voru tekjurnar af honum það miklu meiri en 2017, að það vegur loðnubrest upp.

Þorskurinn gefur um þriðjung af útflutningstekjum af þorskafurðum, verðmæti útfluttra sjávarafurða óx um 21,7 prósent 2018, og nú, þegar ferðaþjónustan hefur dalað, hefur þorskurinn enn og aftu reynst dýrmæt kjölfesta fyrir efnahagslífið. 


mbl.is Verðmæti útfluttra sjávaafurða jókst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjóri Öskju sammála forstjóra O.N: Rafbílar ekki vandamál.

Ein af mótbárunum gegn rafvæðingu bílaflota landsmanna hefur verið sú að hún muni útheimta svo mikla raforku, að raforkukerfi landsmanna ráðí ekki við þá eftirspurn, sem myndast muni. 

Með þessu er rafbíllinn gerður að eins konar vandamáli og óvini rafmagns númer eitt á Íslandi. 

En þaö er fjarri lagi. 

Bæði Bjarni Bjarnason forstjóri Orku náttúrunnar og Jón Trausti Ólafsson forstjóri Öskju hafa andæft þessum úrtöluröddum með gildum rökum. 

Má þar benda á, að hleðsla rafbílanna fer að mestu fram að nóttu til þegar álag íslenskra heimila og fyrirtækja á raforkukerfið er minnst. RAF í hleðslu

Raunverulegt dæmi má nefna í þessu sambandi upp úr gögnum um einn af þeim rafbílum, sem minnsta orku þarf. 

Hann tekur 1,1 - 1,7 kwst til sín í heimilishleðslu úr venjulegu 220 volta úttaki með 16 ampera öryggi, sem er álíka mikið og 5 til 8 ljósaperur þurfa. Og hleðslutíminn er 9 klukkustundir. 

Meðal akstur bíla er um 30-40 km á dag, og þessi orka 5-8 ljósapera yfir eina nótt endist því í þrjá daga. 

Raforkunotkun þessa bíls samsvarar því að þrjár 200 vatta ljósaperur væru í notkun allan sólarhringinn.

Það má líklega tvöfalda þessa tölu varðandi rafbíl af meðalstærð, en tölurnar eru raunhæfar miðað við almenn gögn sem sjá má í yfirlitsritum yfir bíla og sýna hve ótrúlega litla íslenska orku þarf.  

Allur áróðurinn fyrir stanslausum virkjunum beinist að því að leyna þeirri staðreynd, að stóriðjan og hin rómaði "orkufreki iðnaður" í erlendri eigu taka til sín 83 prósent af raforkuframleiðslu landsins, en íslensk heimili og fyrirtæki aðeins 17 prósent, eða einn sjötta.  Raforkunotkun rafbílaflotans myndi aðeins taka brot af þeim 17 prósentum sem íslenskum heimilum og fyrirtækjum er skammtað úr hnefa. 

Forstjóri Landsvirkjunar segir nú i viðtali að nýjustu virkjanir fyrirtækisins á Þeystareykjum og við Búrfell séu reistar til þess að anna vaxandi rafmagnsnotkun gagnavera.  

 


mbl.is Nægt rafmagn fyrir rafbílaflotann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband